18.10.1955
Neðri deild: 6. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 426 í C-deild Alþingistíðinda. (1791)

20. mál, verðlag, verðlagseftirlit og verðlagsdómur

Flm. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að leiðrétta síðustu ummæli hv. þm. Hann sagði, að þegar ég hafi farið úr verðlagsráði, sem ég átti sæti í 1943–46, hafi verðlagsákvæði verið orðin svo lág, að hvorki kaupmenn né kaupfélög hafi viljað við þau una, og þeim hafi því orðið að breyta, að því er manni skildist á ummælum hans, tafarlaust eftir að ég fór úr ráðinu, en ég fór úr því um leið og ég tók sæti á Alþingi 1946, um haustið, eða rétt þar á eftir.

Þetta er rangt hjá hv. þm. Ég skal fúslega viðurkenna, að ég átti, að því er ég tel, góðan þátt í því að halda verðlagsákvæðum niðri, beitti mér af alefli í þeim efnum þau ár, sem ég átti sæti í verðlagsráðinu, 1943–46. Hitt er svo aftur á móti misminni hjá hv. þm., að ástæða hafi þótt til þess að breyta öllum verðlagsákvæðum, um leið og ég vék úr ráðinu, því að mér vitanlega stóðu þau ákvæði, sem voru þegar ég fór úr ráðinu, óbreytt í meira en ár, næstum tvö ár eftir að ég fór úr ráðinu, að mjög verulegu leyti. Það var ekki fyrr en næstum tveim árum seinna, sem veruleg breyting var gerð á þeim álagningarstigum, sem komust á á þeim tíma, sem ég átti sæti í verðlagsráðinu.

Þetta vildi ég aðeins leiðrétta, því að ég hygg, að þarna hafi hv. þm. aðeins misminnt. Annars fannst mér vera athyglisverðast af því, sem hv. þm. sagði, það, sem hann sagði um smyglið, hversu hressilega hann staðfesti ummæli mín um það, að í landinu ætti sér stað núna óverjandi smygl. Einhverjir kynnu kannske að leggja lítið upp úr því, þótt andstæðingar ríkisstj. hér á Alþingi standi í ræðustól og haldi því fram, að ósvífin lögbrot séu hér framin ár eftir ár, án þess að ríkisvaldið hreyfi hönd eða fót til þess að sporna við þeim. En það er ekki hægt að skella skollaeyrum við því, þegar einn af áhrifamestu stuðningsmönnum ríkisstj., sem einmitt hefur sérstaka þekkingu á því sviði, sem hér er um að ræða, stendur í sama stólnum og tekur undir þessi ummæli, enda eru þau tvímælalaust rétt.

Smyglið er orðið slíkur smánarblettur á íslenzka þjóðfélaginu og íslenzku innflutningsmálunum, að það má ekki lengur við svo búið standa. Það verður að grípa til gagngerðra og róttækra ráðstafana til þess að kveða þennan ósóma niður. Í raun og veru er það almenningur, sem borgar þann gífurlega gróða, sem hlýtur að renna í vasa smyglaranna í þessu landi. Smygl er á kostnað almennings, og þegar ríkisvaldið lætur það eins og vind um eyrun þjóta eða vill engin afskipti af því hafa, engar ráðstafanir gera til þess að kveða það niður, þá er ríkisvaldið í raun og veru að leggja þungbærar byrðar og ósæmilegar byrðar á almenning í landinu. Þessi ummæli hv. 3. þm. Reykv. getur hæstv. ríkisstj. vissulega ekki látið sér eins og vind um eyru þjóta.

Hv. þm. sagði, að frv. okkar Alþýðuflokksmannanna væri að því leyti á röngum forsendum reist, að það væri nóg framboð á öllum vörum nema þeim, sem væru háðar leyfisveitingum, en á þeim væri þegar verðlagseftirlit, eins og raunar ég hafði tekið fram í framsöguræðu minni. En kjarninn í hans röksemdafærslu var þessi: Það er nóg framboð á öllum vörum, sem eru á frílista og á bátalista, og þess vegna er heilbrigð samkeppni í verzluninni með þessar vörur og Þess vegna engin ástæða til verðlagseftirlits.

Ég er dálítið hissa á því, að hv. þm., svo gerkunnugur þessu máli sem hann er, skuli beita þessari röksemdafærslu. Ég spyr hann aftur á móti: Er honum ekki kunnugt um biðraðirnar í bönkunum fyrir yfirfærslu ekki aðeins á þeim frjálsu gjaldeyrisvörum, sem flytja á inn frá dollarasvæðinu og EPU-löndunum, heldur einnig frá vöruskiptalöndunum? Það er rétt, að innflutningur er tiltölulega frjálsastur á bátagjaldeyrisvörunum, og það má segja, að það sé ömurlegur dómur um viðskiptastefnu ríkisstj., að einmitt á þeim vöruflokkunum skuli innflutningur vera tiltölulega frjálsastur, sem stjórnin sjálf hefur talið óþarfasta, því að þegar hún setti bátagjaldeyrislistann, þá sagði hún: Við setjum einvörðungu á þennan lista vörur, sem telja má tiltölulega óþarfar og almenningur á að geta neitað sér um. Þess vegna er verjandi að selja þessar vörur með 25–60% álagi innanlands. Svo vill svo til, að þetta eru þær vörurnar, sem innflutningur er tiltölulega frjálsastur á. Hv. þm. hlýtur að vita það, að innflutningur á öðrum vörum er mjög verulega takmarkaður á mörgum sviðum, og þannig stendur á bunkunum, sem menn hafa heyrt um að liggi á borðum millibankanefndarinnar af óafgreiddum yfirfærslubeiðnum. Mér er sagt, að þær komist ekki fyrir á einu borði, varla tveimur, það þurfi mörg borð undir þessar óafgreiddu yfirfærslubeiðnir.

Nefna má eitt dæmi, sem alkunnast er og víðfrægast þ.e. bílainnflutninginn. Maður á helzt von á því að heyra, að hann sé nú frjáls. Það átti að gera bílainnflutninginn frjálsan á s.l. vori. Það voru ýmsir, sem höfðu trú á því, að það væri hægt af fjárhagsástæðum. Hér voru fluttar till. um það, sem mikið var af gumað, að gera hann frjálsan. Hann var með mjög litlum takmörkunum í nokkra mánuði, en hefur nú verið algerlega bannaður aftur, og þetta er einmitt dæmið um viðskiptastefnu ríkisstj. Þannig er hlaupið úr einu horninu í annað, úr einni vitleysunni í aðra. Nokkra mánuði er innflutningurinn á þýðingarmiklum vörum algerlega frjáls. Hver sem vill kaupir, þótt hann hafi kannske takmarkaða þörf fyrir, en nokkrum mánuðum seinna er innflutningurinn orðinn algerlega bannaður á sömu vörunni. Annað eins og þetta ýtir auðvitað undir óheilbrigða verzlunarhætti og hvers konar brask. Bílarnir eru ekki eina dæmið um þetta, þó að þeir séu gleggsta dæmið.

Hv. þm. sagði enn fremur, að lönd, sem settu á hjá sér verðlagseftirlit á stríðsárunum, hafi nú yfirleitt afnumið þetta verðlagseftirlit og eins hafi Ísland átt að fara að og eigi að halda fast við þá stefnu.

Það er alveg rétt, að í nágrannalöndunum flestum hefur tekizt að draga úr eða jafnvel leggja alveg niður eftirlit með verðlaginu í einstökum atriðum. En á það ber að leggja sérstaka áherzlu, að alls staðar hefur þetta siglt í kjölfar þess, að verzlunin hafi verið gefin raunverulega frjáls. Hér var farið öfugt að 1951. Verðlagseftirlitið var fyrst afnumið, og svo átti að reyna að gefa verzlunina frjálsa. Þannig hefur hvergi, mér vitanlega, verið farið að. Afnám verðlagseftirlits hefur alls staðar komið alllöngum tíma eftir, að reynslan var búin að sýna, að stefna viðskiptafrelsisins heppnaðist. Hún hefur heppnazt á Norðurlöndum. Hún hefur heppnazt í Bretlandi og Þýzkalandi að mjög verulegu leyti. Hún hefur misheppnazt hér. Það er mergurinn málsins. Það hefur ekki tekizt að gera verzlunina frjálsa hér, eins og hefur tekizt í nágrannalöndunum. Um orsakirnar ræði ég ekki frekar en ég gerði í framsöguræðu minni. Það vita allir, og það hlýtur hv. þm. einnig að játa, það er honum án efa kunnugt, að Ísland er það ríki í Greiðslubandalagi Evrópu, sem í minnstum mæli hefur tekizt að koma á hjá sér frjálsri verzlun, er langneðst á listanum yfir framkvæmd verzlunarfrelsis. Ríkisstj. hefur alltaf haft sínar afsakanir á reiðum höndum, afsakað sig með öllu mögulegu, sumpart með réttu og sumpart með röngu, en staðreyndin er þessi og þetta er viðurkennt í alþjóðlegum skýrslum. Það er þetta, sem er ástæðan til þess, að það liggja rök til þess að hafa verðlagseftirlit hér, þótt þau rök séu ekki fyrir hendi annars staðar, þar sem stefna viðskiptafrelsisins hefur heppnazt. Þetta er auðvitað kjarni málsins, eins og við erum raunar alveg sammála um.

Þá sagði hv. þm., að Alþfl. hefði alltaf viljað hafa verðlagseftirlit og innflutningshöft, það væri, að því er mér skildist, eins konar trúarsetning hjá Alþfl. Þessu hef ég og margir aðrir forsvarsmenn Alþfl. oft andmælt eindregið. Alþfl. telur hvorki höft og jafnvel ekki verðlagseftirlit nokkra nauðsyn í sjálfu sér og undir öllum kringumstæðum. Höftin sérstaklega telur Alþfl. margítrekað í hans almennu stefnuyfirlýsingu vera neyðarúrræði, sem að vísu getur stundum verið óhjákvæmilegt að beita og geti verið skárra að beita en öðrum ráðstöfunum, sem til greina komi. Alþfl. gerði sér ljóst, að það þarf að uppfylla mjög mörg skilyrði til þess, að hægt sé að komast hjá opinberri stjórn á innflutningsmálunum og fjárfestingunni, og þau skilyrði eru sjaldan eða næstum aldrei fyrir hendi. Það var alveg rétt, sem hv. 2. þm. Reykv. sagði í sinni ræðu áðan, að þau eru einmitt ekki fyrir hendi hjá okkur Íslendingum og öðrum þjóðum, sem svipað stendur á fyrir, þjóðum með mjög mikil og ónotuð framleiðsluskilyrði. Slíkum þjóðum er einmitt sérstök nauðsyn á því að hafa stjórn á sínum framkvæmdum, sinni fjárfestingu og sínum inn- og útflutningi. Það hefur aldrei verið skoðun Alþfl., að höft bæri að hafa haftanna vegna og ekki heldur verðlagseftirlit verðlagseftirlitsins vegna, heldur geta þetta verið nauðsynleg, kannske óhjákvæmileg tæki til þess að ná öðrum markmiðum, sem ekki verður náð með öðrum hætti.

Þá sagði hv. þm., að ástand innflutningsmálanna hefði aldrei verið ömurlegra en þegar Alþfl. hefði farið með þessi mál, hans ráðherra farið með yfirstjórn viðskiptamálanna, eins og hv. þm. orðaði það.

Hér er um að ræða algera missögn, sem varla getur verið óviljandi. Hv. þm. hlýtur að vera kunnugt um það, a.m.k. minnast þess, þegar hann er minntur á það, að yfirstjórn fjárhagsráðs var í höndum allrar ríkisstjórnarinnar, en ekki í höndum viðskmrh., á þeim árum sem Emil Jónsson var viðskmrh., 1947–49. Það var eitt atriði stjórnarsamningsins, að öll mál, sem snertu viðskiptaráð, skyldu afgreidd á ráðherrafundum og af ríkisstj. allri. Það er því algerlega rangt og ómaklegt, þegar gerð er tilraun til þess, eins og raunar oft er gert, að skella allri skuldinni um það ófremdarástand, sem var í viðskiptamálunum á þessum árum, á viðskmrh. Alþýðuflokksins. Hér var um að ræða stefnu, sem öll stjórnin bar ábyrgð á og taldi óhjákvæmilegt að framfylgja til þess að forða öðru verra.

Hv. þm. sagði og, að verðlagsákvæðin, sem í gildi voru 1949–51, hafi stundum verið svo bjálfaleg, að þau hafi í raun og veru kallað á svartamarkaðsverzlun. Í því sambandi vildi ég aðeins minna á, að þetta er mjög harður dómur um þá menn, sem fjölluðu um setningu verðlagsákvæðanna, en þeir voru allan þennan tíma fimm og þar af alltaf tveir sjálfstæðismenn, flokksbræður hv. þm., og tveir framsóknarmenn. Núverandi stjórnarflokkar áttu alltaf fjóra menn af fimm í þeim nefndum eða ráðum, sem settu verðlagsákvæðin. Það er því heldur kuldaleg kveðja, finnst mér, til þeirra, ég held óhætt sé að segja ágætu embættismanna, sem um þessi mál fjölluðu, þegar sagt er, að þeirra ákvarðanir hafi sumpart verið bjálfalegar.

Hv. þm. sagði, að sú kauphækkun, sem kaupmenn og iðnrekendur hefðu orðið að greiða, væri meiri en 10–15%, sú kauphækkun hefði á þá skollið nú snemma á þessu ári eftir lok verkfallsins, sú kauphækkun, sem þeir hafi orðið að bera frá því í árslok 1952, hafi numið allt að 30%.

Ég efast ekki um, að hv. þm. viti, hvað hann er að segja, og hafi gert athuganir á þessum efnum. En gerum ráð fyrir því, að þessu sé nú þannig varið, og auðvitað er eðlilegt, að iðnrekendur og kaupmenn hækki sína álagningu sem svarar hækkun á beinum kostnaði, svo sem kaupgreiðslum. En nú hafa kaupmenn auðvitað margan annan kostnað en kaupgreiðslurnar, og ekki er um það vitað, að á nokkru öðru sviði hafi kostnaður hækkað um jafnháa hlutfallstölu og hér er nefnd, þ.e. um 30%. Fjölmargir kostnaðarliðir hljóta að hafa staðið algerlega óbreyttir á þessum árum, auk þess sem þessi kauphækkunartala hlýtur að vera alveg í hámarki. En það vakti athygli mína, að hv. þm. andmælti ekki þeirri staðhæfingu minni, að heildsalar mundu á s.l. sumri yfirleitt hafa hækkað álagningu sína á hinar þýðingarmestu vörur um a.m.k. 30%, svo að jafnvel þó að tekin sé sú hæsta tala, sem hv. þm. nefnir um kauphækkunina, 30%, er samt sem áður álagningarhækkun kaupmanna meiri en svarar til þessarar kauphækkunar, því að margir kostnaðarliðir hljóta að hafa staðið óbreyttir. Raunar hef ég hugboð um, að í mörgum tilfellum sé álagningarhækkunin meiri en 30%. Ég vildi aðeins vera öruggur um að nefna ekki hærri tölu en þá, sem nokkurn veginn mætti telja fullvíst, að væri ekki of há. Þær álagningarhækkunartölur, sem hv. þm. sjálfur nefndi, voru raunar allar saman hærri en 30%, og það hygg ég vera rétt. Hann nefndi að vísu ekki hæstu tölurnar, sem eru hækkun úr 9–10% álagningu á ýmsum samningsvörunum í vefnaðarvöruflokknum í 12–15%, sem er 30–50% hækkun. Mörg dæmi munu vera um það, að álagningin hafi hækkað úr 9–10% í 15–20%. Einstök dæmi eru auðvitað um hærri álagningu, sem ekki má þó leggja allt of mikið upp úr.

Ég tel því hv. þm. sjálfan hafa staðfest það, sem ég flutti fram sem eina höfuðröksemd í mínu máli, að það hefur verið tilhneiging til þess af hálfu milliliðanna, sérstaklega heildsalanna, að hækka sína álagningu um talsvert meira en hægt er að rökstyðja með orðinni kauphækkun. Ef þessi tilhneiging er fyrir hendi, ef t.d. óskir verzlunarráðsins núna um hækkaða álagningu á þeim vörum, sem álagningin er takmörkuð á undir ákvæðum, eru um miklu meiri hækkun en svarar til kauphækkunarinnar, á auðvitað að synja því. En jafnframt eru þessi tilmæli vísbending um það, hvað þessar stéttir gera, þar sem þær eru algerlega frjálsar. Þar benda þessar óskir og ummæli hv. þm. óneitanlega til þess, að álagningarhækkunin, sem þegar er orðin eða sumpart er að verða, sé a.m.k. 30%, sem er tvímælalaust meira en kauphækkanirnar gefa tilefni til. Þetta tel ég vera eina af sterkustu röksemdunum fyrir því, að full ástæða sé til þess að koma á verðlagseftirliti til þess að þrýsta álagningunni aftur niður og sporna þannig gegn ónauðsynlegum og óþörfum verðhækkunum.