18.10.1955
Neðri deild: 6. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 431 í C-deild Alþingistíðinda. (1792)

20. mál, verðlag, verðlagseftirlit og verðlagsdómur

Einar Olgeirsson:

Hv. 3. þm. Reykv. kom fram með þá spurningu, hvar kaupfélögin kæmu inn, þegar verið var að ræða um þá hækkun, sem hefði orðið á verðlagi í sumar.

Ég tók eftir því, að hv. 1. landsk. þm. sagði í sinni skýru framsöguræðu, að kaupfélög og kaupmenn, smásölukaupmenn, hefðu ekki hækkað sína álagningu í sumar, og það mun vera rétt. Hins vegar liggur fyrir, að heildsalar hafa hækkað sína álagningu og það um 30%, eins og rætt hefur verið hérna. Það er gefið, að kaupfélögin geta ekki skapað verðlagið í landinu. Það eru margir aðrir aðilar, sem þar koma inn í. Það er aðeins síðasti þátturinn í verðlagsmynduninni, sem þau geta haft nokkur áhrif á. Þau verða að kaupa sínar vörur af heildsölum eða S.Í.S., þau verða að láta flytja sínar vörur með skipum, sem taka mjög há farmgjöld, þau verða að þola greiðslur, sem bankarnir taka sína háu skatta af, — m.ö.o. er verðmyndunin að miklu leyti orðin áður en kemur til smásöluálagningarinnar.

Ef ætti að fara nánar út í þá hluti, mætti líka kannske fara að athuga, hvernig þeir kaupmenn og heildsalar, sem hafa notið sérréttinda hjá bönkunum á undanförnum árum, fengið milljónir og tugi milljóna að láni frá bönkunum, hafa farið með það fé og varið sínum innkaupum í sambandi við það. A.m.k. ef á að fara að tala um þá, sem fá ekki nein lán hjá bönkunum og enga þá aðstöðu, sem þarf til þess að geta keypt inn beint, mætti máske taka allt það mál fyrir til rækilegrar rannsóknar.

Ég held, af því að hv. 3. þm. Reykv. minntist á, að það væru nógar birgðir af ýmsum vörum hérna fyrirliggjandi í Reykjavík núna, að það væri fyllilega rannsóknaratriði fyrir þjóðfélagið, hvort við Íslendingar höfum efni á því að láta verja fé þjóðarinnar, fé bankanna til þess að kaupa inn á þann hátt, sem að miklu leyti hefur verið gert og kemur fram í þeim birgðum, sem nú liggja fyrir í einstökum vörutegundum, birgðum, sem ég býst við að mundu fylla allmörg hús, ef þær væru komnar saman á einn stað, og eru orðnar meira eða minna óseljanlegar, þannig að jafnvel sterk og rík fyrirtæki, sem talin hafa verið, eiga fullerfitt með að standa undir slíkum birgðum. Sannleikurinn er sá, að það, sem munar máske litlu fyrir mjög ríkt þjóðfélag, stórt milljónaþjóðfélag, að kaupa inn og kaupa inn og kasta þessu á markaðinn seinna meir með útsölum, getur verið óþægilega dýrt fyrir litla þjóð eins og Íslendinga. Við skulum bara taka tízkuvörur eins og t.d. skófatnaðinn eða annað slíkt. Það er þannig í bænum í dag, að það er ómögulegt að fá sumt af nauðsynlegasta skófatnaði, en það eru miklar birgðir til af skófatnaði, sem við skulum segja að a.m.k. kvenfólk yfirleitt lítur ekki við. Það var eitt af því, sem talið var til ágætis þessari frjálsu verðmyndun af hálfu hæstv. viðskmrh. í umræðum um okurstarfsemi og ýmislegt fleira á s.l. vori, að nokkur verzlunarfyrirtæki, sem annars hefðu verið talin allefnileg, væru að fara á hausinn undanfarið. Frá hans sjónarmiði hafði það verið galli á þjóðfélaginu.

Ég held, að okkur sé óhætt að taka þetta allt saman til endurskoðunar og að við mættum fá skýrslu um það, hvað hefur farið í súginn m.a. af fé bankanna í sambandi við allar þessar afskræmdu tilraunir til frjálsrar verðmyndunar, sem gerðar hafa verið á undanförnum árum.

Svo vildi ég aðeins minna hv. 3. þm. Reykv. á, þar sem hann talaði um svartamarkað og það ófremdarástand, sem hefði verið í sambandi við svartamarkað hér á árunum, að það er varasamt að tala sérstaklega djarft úr hópi stjórnarliðsins um svartan markað. Svartur markaður hefur aldrei verið neitt líkur því á Íslandi og hann er í dag. Hann er bara á öðrum tegundum þjónustu en þeirri, sem hann var á fyrir 6–7 árum. Svartur markaður á peningum í dag er ægilegur og viðurkenndur, og sjálfur hv. 3. þm. Reykv. er að rannsaka það fyrirbrigði. Svartur markaður á húsnæði er himinhrópandi í dag, alveg himinhrópandi. Á brýnustu nauðsyn almennings, húsnæðinu, er slíkur svartur markaður, að hann hefur aldrei þekkzt svipaður, þannig að það reynir enginn opinber aðili að halda lögum á því sviði. [ Frh.]