20.10.1955
Neðri deild: 7. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 439 í C-deild Alþingistíðinda. (1797)

20. mál, verðlag, verðlagseftirlit og verðlagsdómur

Lúðvík Jósefsson:

Hér hafa nú farið fram allmiklar umræður um þetta frv. og um verðlagsmálin nokkuð almennt. Það hefur sérstaklega vakið athygli mína, að hæstv. ríkisstj. leiðir þessar umræður um verðlagsmálin algerlega hjá sér. Við þessar umræður hefur ekki verið viðskmrh„ ekki fjmrh., sem þó allajafna talar býsna mikið um verðlagsmálin í landinu, og ekki dómsmrh., sem nýlega hefur verið að halda fyrirlestur i einu fjölmennu félagi hér í bænum um áhrif milliliðanna í dýrtíðarmálunum. Það er ómögulegt annað en að vekja athygli á því, að þegar verðlagsmálin eru rædd hér á Alþingi og ráðstafanir í þá átt, hvernig megi koma í veg fyrir hækkandi verðlag, aukna dýrtíð, skuli ríkisstj. haga sér þannig, að hún vill ekki vera viðstödd slíkar umræður á Alþingi. En það er þetta, sem liggur nú fyrir sem staðreynd í sambandi við þetta mál.

Hins er svo að minnast, að í sífellu talar hæstv. ríkisstj. um verðlagsmálin, um dýrtíðarmálin sem aðalvandamálin, sem hún eigi við að stríða í þjóðfélaginu. En það hefur líka komið í ljós, að þegar ríkisstj. talar um dýrtíðarmál, um verðlagsmál, virðist hún einvörðungu eiga við kaupgjald vinnandi fólks. Öll hæstv. ríkisstj. tekur eftir því, að þegar verkafólk hækkar kaup sitt að nokkru, muni það vera stórhættulegt fyrir verðlagsmálin í landinu, fyrir afkomu atvinnuveganna og fyrir afkomu þjóðarbúsins. Og hún tekur þá greinilega þátt í deilum á milli verkamanna og atvinnurekenda í sambandi við breytingu á launakjörum. En hinn þátturinn, sem er orsökin að því, að verkamenn krefjast launabreytinga, hækkandi verðlag á lífsnauðsynjum og þjónustu í landinu, það er mál, sem ríkisstj. virðist ekki telja sér koma við og hún vill leiða hjá sér í lengstu lög.

Þær staðreyndir, að síðan síðasta verkfall gekk yfir, hafa stórfelldar verðlagsbreytingar verið ákveðnar í landinu, stórfelldar verðhækkanir tilkynntar af ýmsum aðilum, sem ráða miklu um verðlagsmálin, hefur ríkisstj. látið eins og vind um eyrun þjóta, þetta væri henni óviðkomandi mál. Hún hefur ekki, svo að vitað sé, á neinn hátt reynt að reisa rönd við því, að þessar verðhækkanir næðu fram að ganga. Og þegar frv. kemur nú hér fram á Alþ. um að taka þó upp það skipulag, sem hér var í gildi á tímabili um verðlageftirlit og verðlagsdóm, þá sinnir hún ekki slíkum málum, — þetta er henni með öllu óviðkomandi.

Það er ómögulegt annað en að hv. alþm. veiti þessu athygli, og það getur ekki heldur farið fram hjá vinnandi fólki í landinu, hver er tilgangurinn í raun og veru hjá þeim, sem þannig vilja fara með ákvörðun verðlagsmála, að láta verðlagningu milliliða og annarra slíkra aðila alveg eftirlitslausa, en hins vegar standa í sífelldu stríði við vinnandi fólk um kaupgjald þess.

Í þessum umræðum hefur nokkuð verið minnzt á það, og þá einkum af hv. 3. þm. Reykv., sem hér hefur helzt haldið uppi umræðum frá hálfu ríkisstjórnarinnar, að ekki væri þörf á því að hafa sérstakt verðlagseftirlit vegna þess, að nægilegt vöruframboð ætti að tryggja sanngjarnt verðlag á hverjum tíma, eða sem sagt að hin frjálsa verðmyndun ætti að sjá fyrir þessu.

Þessi mál hafa nú verið rædd hér nokkuð, og mér þykir alveg einsýnt, að niðurstaða af þeim umræðum hefur glögglega leitt í ljós, að hér á landi eru nú ekki kringumstæður til þess að leyfa frjálsa verðmyndun, enda er það líka ljóst, að séraðstæður hér á Íslandi eru þess eðlis, að í mjög mörgum tilfellum verður mjög erfitt, að frjáls verðmyndun geti yfirleitt nokkurn tíma átt sér stað hér, og er þar fyrst og fremst um að ræða fámenni þjóðarinnar. Einstök dæmi mætti nefna um þetta, sem sanna miklu meira en viðkomandi dæmi sjálft táknar.

Jafnvel þó að innflutningur á sumum vörutegundum sé næsta frjáls, þá er það svo, að verzlunarmálunum er þannig háttað hér, að eitt fyrirtæki eða tvö hafa nær alla sölu á viðkomandi vöruflokki, og þetta á sér eðlilega stað vegna fámennisins, sem hér er um að ræða. En þegar aðeins einn aðili eða tveir ráða yfir öllum innflutningi og hafa einir með alla sölu á viðkomandi vörutegund að gera, þá er líka alveg augljóst mál, að ekki getur verið um neina frjálsa verðmyndun að ræða. Þessi eini aðili ræður einn verðlaginu, eða þá, ef um tvo aðila er að ræða, eins og í ýmsum tilfellum er, þá koma þeir sér hreinlega saman um þann ágóða, sem þeir eiga að skammta sér.