25.10.1955
Neðri deild: 10. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 470 í C-deild Alþingistíðinda. (1842)

31. mál, jafnvægislánadeild við framkvæmdabanka Íslands

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ég get ekki stillt mig um að vekja með örfáum orðum athygli á skringilegu sjónarspili, sem haft er í frammi hér á hinu háa Alþ. af hálfu stuðningsflokka núverandi hæstv. ríkisstj. Þessar umr. eru einn þátturinn í þessu sjónarspili. Aðrir þættir hafa farið fram á undan, og enn aðrir eiga vafalaust að koma á eftir.

Á síðasta Alþ. báru 4 þm. Sjálfstfl. fram frv. til l. um ráðstafanir til atvinnujöfnunar. Samkvæmt því átti að stofna atvinnujöfnunarsjóð, sem í átti að renna fé úr ríkissjóði og nota síðan til lánveitinga í atvinnujöfnunarskyni, til þess að seðja einhvern hluta af því fjármagnshungri, sem vitað er að á sér stað viða úti um landsbyggðina og er staðreynd. Að baki þessa frv. mun varla hafa staðið mikil alvara. Það voru engar alvarlegar tilraunir gerðar hér á Alþ. a.m.k. til þess að hrinda málinu í framkvæmd. Það var ekki barizt alvarlega eða harkalega fyrir því. Það var lagt fram, haldnar snotrar ræður til þess að mæla fyrir málinu, það var gert mikið úr því á síðum Morgunblaðsins og Ísafoldar, og þar með mun tilganginum hafa verið náð. Málið var áróðursmál fyrst og fremst. Hafi verið háð hörð barátta fyrir því, hefur sú barátta verið háð innan veggja stjórnarráðsins og þá við hinn stuðningsflokk ríkisstj., og virðist Sjálfstfl. hafa beðið ósigur í þeim orustum.

Þetta var einn af fyrri þáttunum í sjónarspilinu, og nú kemur sá þáttur, sem við erum staddir í núna. Hann er í því fólginn, að tveir þm. Framsfl. bera fram frv., sem er í ýmsum atriðum skylt, fjallar um lausn á sama vandamálinu, nema hvað þetta frv. er allt glæsilegra, allt stórtækara. Í hinu fyrra frv. var gert ráð fyrir 5 millj. kr. árlegu framlagi í a.m.k. tvö ár. Hér er gert ráð fyrir 10 millj. kr. stofnframlagi árlega í næstu 5 ár eftir gildistöku laganna og svo auk þess hvorki meira né minna en 100 millj. kr. lánsheimild.

Nú skulum við athuga, hvaða alvara getur staðið að baki flutningi frv. eins og þessa. Alþ. samþ. i fyrra löggjöf um húsnæðismálastjórn, löggjöf, sem ætlað var að reyna að ráða bót á hinu brýnasta vandamáli, sem nú steðjar að í íslenzku þjóðfélagi, húsnæðisskortinum. Í því frv., sem var mjög rækilega undirbúið og stjórnarflokkarnir höfðu velt á milli sín í meira en ár, tekið hafði meira en ár að semja, var gert ráð fyrir að tryggja 100 millj. kr. lánsfé í a.m.k. tvö ár til íbúðabygginga. Ríkisstj. hefur haft meira en hálft ár til að hrinda þessum lögum í framkvæmd, og henni hefur ekki tekizt að útvega, að því er heyrzt hefur, nema rúmlega 1/10 af þessu lánsfé enn, og til skamms tíma voru lánveitingar úr þessum sjóði alls ekki byrjaðar. Mér er sagt, að þær hafi að vísu verið hafnar nokkrum dögum eftir að fsp. var borin fram hér á hinu háa Alþ. um það, hvers vegna lán úr húslánasjóði hafi ekki verið hafin enn þá, þá hafi þeir loksins tekið rögg á sig og veitt nokkur lán, og ber því sannarlega að fagna. Þegar nefnd fsp. kemur á dagskrá hér í þessum sal á morgun, verður vonandi hægt að skýra frá því, að nokkur lán hafi verið veitt úr húslánasjóði. Hitt er vafalaust staðreynd, annars fæst það upplýst endanlega á morgun, að ekki nema lítill hluti þess fjár, sem þó er skylt að tryggja til húsbygginga í landinu samkvæmt gildandi lögum, hefur fengizt tryggður til þessara brýnu þarfa. Samt sem áður er hér lagt fram frv. um það, að nú eigi að tryggja 100 millj. kr. lán handa jafnvægislánadeild til þess að fullnægja fjármagnsskortinum úti um hinar dreifðu byggðir landsins. Ekki er nema von, að manni detti í hug, hvort ekki væri nær fyrir hv. stjórnarflokka að reyna að standa við þau lög, sem þegar eru samþ., áður en sett eru fram frv., sem gera aðrar eins kröfur til lánsfjárútvegunar og standa í gildandi lögum og ekki hefur tekizt að standa við.

Frv. eins og þessi verða því miður ekki tekin alvarlega, þetta frv. ekki frekar en frv. um ráðstafanir til atvinnujöfnunar í fyrra, bæði eru áróðursfrumvörp.

Sök sér væri það, ef stjórnarflokkarnir hefðu í frammi áróður gagnvart stjórnarandstöðunni, sem ætlað væri að setja stjórnarandstöðuna í nokkurn vanda, það mætti segja, að væri eðlilegt. En hitt er fyrst og fremst spaugilegt, að stjórnarflokkarnir skuli þing eftir þing flytja frv., sem þeir hljóta að vita að enginn getur tekið alvarlega og eru áróður og þess vegna aðeins hlægilegur áróður, sem þeir beita hvor gagnvart öðrum.

Þetta frv., sem heitir frv. um jafnvægislánadeild við Framkvæmdabanka Íslands, gæti alveg eins vel heitið frv. um jafnvægi í áróðri á milli stjórnarflokkanna, því að það er það. Er að mörgu leyti mjög miður farið, að þingstörfin skuli af hálfu stjórnarflokkanna ekki vera tekin alvarlegar en svo, að borin séu þing eftir þing fram frv., sem fyrst og fremst bera á sér áróðurssvip. Það er ekki til þess að auka virðingu fyrir þingmeirihlutanum eða fyrir stjórnarforustunni í þessu landi, að þannig skuli vera farið að.

Hitt er svo öldungis rétt, sem báðir ræðumennirnir, sem talað hafa, hafa bent á, að fjármagnsskorturinn úti um hinar dreifðu byggðir landsins er mjög alvarlegt vandamál. Hann er kannske ekki síður alvarlegt vandamál en húsnæðisskorturinn í kaupstöðunum, og það þarf sannarlega ekki síður á þessu máli að taka en húsnæðisvandanum í kaupstöðunum, en um lausn þess vanda gilda þegar ákveðin lög, sem hæstv. ríkisstj. hefur ekki tekizt að standa við. Þess vegna kynni maður betur við, að þau frv., sem fram væru borin til lausnar á fjármagnsskortinum úti um hinar dreifðu byggðir, bæru á sér svolítið meiri raunveruleikasvip en þessi frv., sem minnzt hefur verið á i umræðunum og ég hef svolítið gert að umtalsefni og því miður verður á þessu stigi a.m.k. að stimpla sem áróðursfrumvörp fyrst og fremst.