25.10.1955
Neðri deild: 10. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 472 í C-deild Alþingistíðinda. (1843)

31. mál, jafnvægislánadeild við framkvæmdabanka Íslands

Flm. (Eiríkur Þorsteinsson):

Herra forseti. Ég þakka hv. 2. þm. Eyf. (MJ) fyrir ummæli hans um frv. mitt, þótt hann sé mér ekki algerlega sammála. En ég verð að segja það, að enda þótt eitthvað kunni að vera líkt í þessu frv. okkar framsóknarmanna og frv. þeirra félaga um ráðstafanir til atvinnujöfnunar, sem þeir hv. 2. þm. Eyf. og fleiri fluttu hér í fyrra og er komið aftur fram í d. nú í ár, þá tel ég, að ég geti vel við það unað, enda þótt sjálfstæðismenn hafi flutt hitt frv.

Hv. þm. benti á ýmislegt, sem hann taldi að betur hefði mátt fara í frv., t.d. það, að hann sjái ekki ástæðu til að tengja það við Framkvæmdabanka Íslands. Ég sé nú ekki, að það séu neitt veigamikil rök á móti frv., þótt t.d. framkvæmdin á útlánum deildarinnar ætti sér að einhverju leyti stað i Framkvæmdabanka Íslands. Stjórn er ákveðin í frv., þrír ákveðnir menn, sem eru skrifstofustjórar í stjórnarráðsdeildunum, og málið er ekki komið á það stig, að það sé ekki alveg eftir að ráða fram úr því, hvernig framkvæmdin yrði á þessu, og það yrði þá framkvæmdin að einhverju leyti, sem ætti sér stað í Framkvæmdabanka Íslands. Ég sé ekki, að það séu nein rök á móti frv. út af fyrir sig, þó að þessi starfsemi, þegar hún er hafin, fari fram í Framkvæmdabankanum.

Ég furðaði mig líka á því, að hv. 2. þm. Eyf. virtist hálfhneykslaður á því orðalagi, að lánin eiga að ganga til þeirra staða, sem erfiðasta eiga aðstöðu, því að ég hef litið svo á, að allar slíkar ráðstafanir sem hér um ræðir beri fyrst og fremst að gera fyrir þá. Ég held, að ég hafi skilið það rétt, að hann teldi, að fyrst ætti að fara fram nákvæm rannsókn á því, hvaða staðir þetta væru. Þessar rannsóknir hafa ekki legið fyrir enn frá neinum lögákveðnum aðilum í sambandi við úthlutun á atvinnubótafé, sem útbýtt hefur verið, svo að ég tel, að þetta ákvæði geti staðizt eins og það er í frv. og eins og ég gerði grein fyrir í minni ræðu.

Þá benti hv. 2. þm. Eyf. á það, að frv. þeirra sjálfstæðismanna fæli í sér miklu viðtækari ráðstafanir. Ég sé ekki, að við þurfum að della um það, að frv. okkar geta bæði verið góð fyrir sig, þó að þau séu að einhverju leyti um skyld málefni.

Ég fyrir mitt leyti hef ekkert á móti því, að það liggi fyrir rannsókn á atvinnuháttum þjóðarinnar og slíkar ráðstafanir sem hér um ræðir gætu komið sem jafnast og bezt niður; það eru orð i tíma töluð, sem við sjálfsagt þurfum ekki að deila um.

Hvað viðkemur svo aftur ræðu hv. 1. landsk. (GÞG) um sjónarspil í þessu frv. á Alþ. sérstaklega, þá hygg ég, að það sjónarspil sé sízt meira hér í þessu máli en á sér stað í fjöldamörgum öðrum málum. Þá ætti ekki að þurfa að tengja þetta mál neitt sérstaklega við framkvæmd húslánasjóðs. Það er ekki komið á neinn framkvæmdagrundvöll, þó að það sé hér til 1. umr. í hv. d. Ég veit ekki betur en verið sé að leysa húsnæðismálin samkvæmt löggjöf frá síðasta þingi og útlán deildarinnar byrji næstu daga.