25.10.1955
Neðri deild: 10. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 487 í C-deild Alþingistíðinda. (1852)

33. mál, verðtryggingasjóður

Flm. (Jón Pálmason):

Herra forseti. Ég byrja á því að geta þess, að þetta frv., sem hér liggur fyrir á þskj. 34, er flutt á mína ábyrgð eingöngu. Það hefur ekki veríð rætt í mínum flokki, Sjálfstfl., eða á öðrum vettvangi fyrr en nú. Það er flutt sem allsherjarþjóðmál, en hvorki á flokkslegum né stéttarlegum grundvelli.

Ég geri ráð fyrir, að það sé nú orðið öllum hv. þm. ljóst, að okkar fjármálakerfi og efnahagslíf er sjúkt. Sá sjúkdómur hefur verið að grafa um sig í tvo til þrjá áratugi, en aðallega síðustu 15–16 árin, síðan vísitölukerfið og verðlagsuppbótarskrúfan var lögfest í ársbyrjun 1940. Sjúkdómseinkennin eru nú greinilegust í því, að grundvöllur allrar okkar fjármálavelgengni, sjálf framleiðslan í sveitum og við sjó, getur ekki þrifizt nema með opinberri aðstoð í stórum stíl. Birtist hámark þessa raunalega sannleika í því, að okkar arðsamasta framleiðslugrein, togaraútgerðin, getur ekki gengið nema með 2000 kr. styrk á dag fyrir hvert skip. Er og jafnvel talið, að sú upphæð hrökkvi ekki til að tryggja jafnvægi í tekjum og gjöldum. Um orsakir alls þessa skal að svo stöddu ekki mikið rætt umfram það, sem gert er í þeirri grg., sem frv. fylgir. En það er ljóst, að einhverjar breytingar verður að gera, og hætt við, að sá alvarlegi sjúkdómur, sem á þessu sviði blasir við augum, læknist ekki nema með víðtækum skurðaðgerðum. Hverjar þær eiga að vera og hvernig þær eiga að vera, þykir mér hins vegar hætt við, að okkur hér á Alþ. og öðrum gangi ekki sem bezt að verða sammála um. En það er verkefni okkar allra að leita sem gleggstra upplýsinga um ástandið og reyna til hins ýtrasta að sameinast um þær ráðstafanir til úrbóta, er að haldi megi koma. Það kann að þykja nokkuð djarft af mér að ganga fram án félagsskapar við aðra og leggja fyrir þær till., sem felast í þessu frv. En mér þykir alveg eins gott að eiga á hættu að fá allar þær aðfinnslur, sem þessar till. kunna að mæta, eins og hitt, að vera aðgerðalítill áhorfandi að því versnandi ástandi, sem við augum blasir, eins og verið hefur að miklu leyti á undanförnum þingum.

Þetta frv. grundvallast á þremur aðalatriðum, sem hvert um sig er mjög áhrifaríkt í fjármálum þjóðarinnar, en eru svo samtvinnuð hvert öðru, að þau verða að fylgjast að mestu leyti að.

Í fyrsta lagi er það að tryggja betur en er, að þeir atvinnuvegir landsins, sem byggjast á framleiðslu beint úr skauti náttúrunnar, landbúnaður og sjávarútvegur, geti starfað og þrifizt áfram hindrunarlaust.

Í öðru lagi að slá því föstu með löggjöf, að gengi íslenzku krónunnar sé ekki lækkað frekar en orðið er.

Í þriðja lagi er svo það, að framfærsluvísitölunni sé haldið í föstum skorðum, svo að hún hætti að valda þeim víxlskrúfugangi til hækkunar, sem verið hefur.

Ég skal nú fara fáeinum orðum um hvert um sig af þessum aðalatriðum, um leið og ég vík að öðrum þeim till., sem í frv. eru.

Velgengni framleiðslunnar fer eftir mörgum atriðum. Eru sum þeirra óviðráðanleg, svo sem veðurfar og veiðimagn. Þar er náttúrufar okkar kalda lands grundvöllurinn. en ekki mannlegar aðgerðir. Annað, svo sem vélatækni, launahæð, vinnutími, veiðitæki og lánsfé, er meira á mannanna valdi. En það, sem úrslitunum veldur, er það, að afurðaverðið sé í fullu samræmi við tilkostnaðinn, þannig að reksturinn geti borið sig. Í því efni erum við komnir í það ástand, að afurðaverðið á erlendum markaði er mjög fjarri því að geta staðið undir framleiðslukostnaðinum. Þess vegna hefur verið stofnað til margvíslegra og stórfelldra ráðstafana, svo sem bátagjaldeyrisskipulagsins fyrir bátaflotann, togarastyrksins fyrir botnvörpuskipaflotann, ríkisframlaga fyrir síldarútveginn og niðurgreiðslu á verði landbúnaðarvara innanlands og nú rætt um gjaldeyrisfríðindi einnig fyrir þær. Allt eru þetta neyðarúrræði, og um annað er ekki að ræða eins og komið er. En hvernig eigi að ákveða framleiðsluverðið, hefur verið og er mikið deilumál. Er og hætt við, að svo verði einnig áfram. Á landbúnaðarvörum er verðið nú ákveðið af sérstöku ráði, og svo hefur verið um skeið. Er vitanlega engin fjarstæða að halda því áfram. En með þetta er þó ríkjandi mjög mikil óánægja á báðar hliðar. Fjöldi bænda telur ekki fært að láta búin bera sig með aðkeyptu vinnuafli með því afurðaverði, sem er, og er auk þess mjög óánægður með það, hve mikill verðmunur er á sumum afurðunum eftir því, hvar á landinu þær eru framleiddar. Neytendurnir telja það aftur á móti rangt að miða við framleiðslukostnað á smábúum, sem eigi hafa yfir að ráða svo fullkominni vélatækni sem völ er á. Báðir hafa nokkuð til síns máls, og enginn gerir svo að öllum líki. Nú legg ég til að taka upp í þessu efni nýja reglu, og hún er sú að miða við raunverulegan framleiðslukostnað á 5 ríkisbúum, sem hafa yfir að ráða hinni fullkomnustu vélatækni, sem þekkist, og eru rekin sem stórbú með aðkeyptu vinnuafli á ágætum jörðum.

Varðandi sjávarútveginn og afurðaverð hans er það kunnugt, að honum hefur verið haldið gangandi síðustu árin með mjög veigamiklum ráðstöfunum, eins og áður er tekið fram, og það frá hálfu hins opinbera. Er þar fyrst að telja bátagjaldeyrisfyrirkomulagið, sem hefur í för með sér verðhækkun á innfluttum vörum um marga tugi milljóna, í öðru lagi margra milljóna króna framlög til síldarútgerðarinnar á undangengnum veiðileysisárum og i þriðja lagi framlagið til togaranna, sem tekið er með háum skatti á innfluttar bifreiðar. Allt þetta sýnir og sannar, að útgerðin er að öðrum þræði rekin á ábyrgð ríkisins, eins og var á meðan fiskábyrgðin var í gildi. Þær till., sem hér eru fluttar, eru því meira um formshlið málsins að þessu leyti en aðalefni þess. Og það, sem skiptir miklu máli í því efni, er að fá fastan grundvöll til að miða afurðaverðið við. Mundi með því komið í veg fyrir þær þrálátu deilur, sem um það eru, hvert framleiðsluverðið sé. Eru þær að vísu eðlilegar að því leyti, að það er misjafnt, og kemur þar margt til. Mér finnst eðlilegast að miða í þessu efni við þann félagslega rekstur, sem mest eftirlit er væntanlega með, en það eru bæjarútgerðir kaupstaðanna. Með því að taka meðaltal af útkomu þeirra allra er fenginn mælikvarði frá fleiri landshlutum og því líkur til, að grundvöllur geti verið réttur. Yrði í því efni að byggja á heilbrigðu eftirliti með þeim rekstri og óvefengjanlegri endurskoðun á reikningum þeirra fyrirtækja, sem um er að ræða. Ef svo færi, að þessi grundvöllur kæmi út með miklu hærra afurðaverð en mönnum þætti í bili eðlilegt, þá er tvennt til. Annaðhvort er þá það, að það afurðaverð, sem reiknað hefur verið með, sé lægra en sanngjarnt er, miðað við tilkostnað, eða að þau opinberu fyrirtæki séu illa starfrækt, sem lagt er til að nota sem mælikvarða. Væri því til að dreifa, hafa valdamenn landsins það í hendi sinni að breyta til um þann rekstur og færa hann í hagfelldara horf.

Þá er það hitt aðalatriðið, sem ég vék að í upphafi, sem er gengi krónunnar.

Það hefur oft verið mikið deilumál, hvort rétt væri að breyta gengi íslenzku krónunnar. Hefur niðurstaðan orðið sú, að gengið hefur verið lækkað hvað eftir annað og er nú ekki hærra en það, að nú kostar sá gjaldeyrir okkar aðalviðskiptaþjóða, sem áður kostaði eina krónu íslenzka, frá kr. 2.30 upp í 4.35 eftir því, frá hvaða landi gjaldeyririnn er. Þetta þýðir þeim mun hærra innkaupsverð á aðfluttum vörum og að sama skapi hærra verð í íslenzkum krónum fyrir seldar afurðir. Gengið hefur verið lækkað til að leiðrétta óeðlilegt hlutfall milli framleiðslu og vinnu og bjarga þar með útflutningsframleiðslunni. Þetta hefur tekizt, en aðeins í bili, því að launin og síðan allur annar tilkostnaður, sem byggist á vinnu, hefur á fáum árum elt hið lækkaða gengi og framleiðslan þá um leið komizt í sama vanda og áður var. Því er þó eigi að neita, að spilið hefur orðið því örðugra sem þessi leið er oftar farin, og eins og nú er, liggja þau vandamál fyrir, hvað á að gera. Öll sú verðhækkun, sem stafar af lækkuðu gengi og hækkuðum launum, hefur gert og gerir allar framkvæmdir í landinu þeim mun dýrari og örðugri viðfangs, og þar með fylgir nauðsyn á samsvarandi hækkun á lánsfé. Eins og nú horfir, virðist mér, að flestir forstöðumenn okkar peningastofnana, þeir hagfræðingar, sem láta til sín heyra, og ýmsir fleiri telji það hið mesta mein í okkar fjármálum, að fjárfestingin sé of mikil, en orðið fjárfesting hefur á síðustu árum verið notað um allar byggingar í kaupstöðum og sveitum, allar ræktunarframkvæmdir, skipakaup. bílakaup og yfirleitt kaup á öllum stærri vélum, svo og um samgöngubætur og raforkuframkvæmdir o.fl.

Það er vitanlega staðreynd, að fjárfesting síðari ára er óvenjulega mikil. Framfarahugur þjóðarinnar er mikill og lofsverður. Allar framkvæmdir kosta nú margfalt við það, sem var fyrir nokkrum árum, og svo kemur annað til, sem er þungt á metunum og verkar ef til vill meira en flesta grunar, en það er, að landsfólkið yfirleitt er á flótta frá voðanum. Sá voði er það, að allar nytsamlegar framkvæmdir og allt, sem girnilegt er að kaupa, verði dýrara að ári en í ár og því dýrara sem lengra líður, að kaupgjald hækki, að gengi krónunnar lækki og allt byggingarefni, vélar og annað hækki. Hræðsla fólksins við þennan voða er byggð á reynslu liðinna ára og er því eðlileg. Margir hugsa sem svo: Ef ég get ekki komið þessu í verk nú í ár, þá er eins víst, að ég geti það aldrei, — a.m.k. verði þessi gæði miklu dýrari, ef kaupin eru dregin. Nú er þessi eðlilega hræðsla meiri en oft áður, og því er kapphlaupið um fjárfestingu svo gífurlegt. Menn sjá „rúllandi“ verðhækkun, og það, sem margir óttast mest, er nýtt gengisfall. Menn telja það eðlilega afleiðingu af því, sem búið er að gera og verið er að gera. Ef menn vilja í alvöru minnka fjárfestingu, koma lánamarkaði í eðlilegt horf og draga úr innflutningi ónauðsynlegra vara, þá held ég, að stærsta sporið væri það, ef Alþ. vildi slá því föstu með raunhæfri löggjöf, að óbreytt gengi okkar krónu skuli vera tryggt. Þess vegna er það stærsta atriðið í þessu mínu frv., að lagt er til, að þetta sé gert. Vilji menn þetta ekki, þá bera þeir ábyrgð á afleiðingunum. En ef einhverjir vilja tryggja gengið, en telja mínar till. ófullnægjandi eða óheppilegar, þá ber þeim hinum sömu að koma með aðrar, og þá er þingsins alls að vega og meta, hvað heppilegast muni að gera.

Óbreytt framfærsluvísitala er þriðja atriðið, sem ég tel aðalatriðið sem grundvöll fyrir þessu frv., og það er nauðsynlegt að gera ráðstafanir til þess, að framfærsluvísitalan haldist óbreytt eða hækki ekki. Þetta er samtvinnað og óaðskiljanlegt við hitt tvennt. Það þýðir litið að ræða um óbreytt gengi krónunnar og að framleiðslan beri sig, ef vísitalan er alltaf látin hækka og öll hækkun er greidd, hvar sem hún kemur fram.

Þegar vísitölulögin voru sett í ársbyrjun 1940 og þar með ákveðið að greiða verðlagsuppbót á öll laun eftir mánaðarlegri vísitölu, greip sú hugsun mig fast, að þetta væri hið mesta ógæfuspor, sem hlyti að enda með skelfingu. Allt, sem síðan hefur gerzt í þessum málum, hefur styrkt og staðfest þessa sannfæringu. Þess vegna hef ég aldrei greitt atkv. með þessu máli eða framlengingu þeirra ákvæða. En eins og kunnugt er, hef ég í þessu efni verið í vonlausum minni hluta hér á Alþingi og læt það ekkert á mér festa, þó að margir telji mér það til lasts. Annað veifið hafa fylgjendur þessa máls séð sig tilneydda að ákveða nokkrar takmarkanir á greiðslu fullrar verðlagsuppbótar, en nú er verið að setja spilið í fullan gang, næstum eins og það gekk örast. Ráð eru því engin til úrbóta önnur en þau að halda vísitölunni fastri með fullnægjandi niðurgreiðslum. Þær niðurgreiðslur eiga að mínu áliti að koma eingöngu á þær neyzluvörur, sem framleiddar eru í landinu. Það er þjóðinni allri til hags að lifa sem mest á innlendri framleiðslu, og það er í alla staði hagfelldara og geðfelldara að greiða niður verð vörunnar, sem notuð er af innlendu fólki, en að verða að bæta við verð á útfluttri framleiðsluvöru. Aðferðin samkv. þessu frv. yrði því sú alkunna kaupfélagsaðferð að greiða út áætlað verð, þegar afurðirnar eru afhentar til sölu, en bæta svo upp í reikningslok til fulls, þegar víst er, hvert framleiðsluverðið er. Að sjálfsögðu ætlast ég svo til, að sú regla gildi áfram, sem nú er, að bankarnir láni út á vörurnar um tíma, þar til framleiðendur fá verðið greitt.

Þá skal ég víkja örfáum orðum að tillögum, sem fram eru settar um stjórn þessa sjóðs. Eins og hv. þingmenn sjá, er ætlazt til, að stjórn verðtryggingarsjóðs sé kosin á Alþingi og skipuð þremur mönnum. Er sú tilhögun byggð á því, að heppilegast sé að draga stjórn þessara stórmála sem mest út frá hinu pólitíska valdi. Mætti gera ráð fyrir, að ef vel tækist með þessa stjórn, þá yrðu mennirnir fastari í sessi en almennt gerist um ríkisstjórnir, sem oftast eru nokkuð skammlífar. Hins vegar mætti líka vel hugsa sér þá aðferð, að stjórn þessa sjóðs væri í höndum einhvers ráðuneytanna, sem yrði þá væntanlega viðskmrn., en til þess er af mínni hálfu ætlazt, að ef þetta kerfi yrði á annað borð lögfest, þá væri svo um hnútana búið með nákvæmri reglugerð, að enginn áróður eða heimildir til undanþágu gætu komizt að, heldur yrði að annast framkvæmdirnar eftir föstum reglum. Hitt væri eðlilega jafnvandasamt sem nú, að annast sölu okkar afurða, sem út eru fluttar, og eins söluna innanlands.

Þá kem ég að því meginatriði í þessu máli, með hverjum hætti sjóðurinn ætti að fá það mikla fé, sem hann þarf væntanlega á að halda til að fullnægja sínu verkefni. Þau ákvæði eru í 4. gr. frv., og þykir mér ástæða til að fara um þau nokkrum orðum hvert fyrir sig.

1. liður, sem er 50 millj. kr. framlag árlega úr ríkissjóði, er engin breyting frá því, sem nú er, nema þá helzt til lækkunar. Þetta þýðir, að það, sem ríkissjóður leggur fram til dýrtíðarráðstafana, falli í þennan sjóð. Á fjárlögum þessa árs er sú upphæð tæpar 50 millj. kr., en fer án efa fram úr áætlun. Það er líka lagt til að hækka þessa upphæð í 57 millj. kr. í því fjárlfrv., sem lagt hefur verið fyrir þetta þing og gilda skal árið 1956.

Um 5. lið gr. er að því leyti sama að segja, að sú ein breyting er þar lögð til, að bílaskatturinn til aðstoðar togaraútgerðinni falli í verðtryggingarsjóð, enda á þá sjóðurinn að annast það verkefni sem þetta fé er nú til ætlað. En mér skilst, að flestir geri ráð fyrir, að þessi skattur hrökkvi skammt framvegis til að bjarga togaraútgerðinni, bæði vegna þess, að það eru takmörk fyrir því, hvað skynsamlegt er að flytja inn mikið af bifreiðum, og af þeim orsökum hljóti tekjur af skattinum að rýrna, og svo er hitt, að með vaxandi framleiðslukostnaði skipanna þarf hærri fjárhæðir til að tryggja hallalausan rekstur. Þetta er líka af því, að ekki eru miklar líkur fyrir hækkandi söluverði afurðanna á erlendum markaði, eftir því sem horfurnar virðast vera.

3. liður 4. gr. er stærsta atriði hennar. Er þar lagt til að taka 10% af öllum launum og kaupgjaldi í landinu til að bjarga gengi krónunnar. Þetta er hugsað þannig, að það séu eigi neinir einstakir starfshópar eða víssar stéttir, sem þetta háa gjald yrði á lagt, heldur allar stéttir, öll þjóðin.

Menn tala stundum um það, þegar rætt er um atvinnurekstur, að það sé mjög undarlegt og óheilbrigt, að þó að fyrirtækin séu rekin með halla, þá geti þó eigendur og forstöðumenn grætt og lifað vel. Þetta er víða til og það er skiljanlegt öllum, sem fylgjast með því, hvernig fyrirkomulagið er. Mér hefur skilizt, að í þessum efnum sé einkum átt við útgerð, iðnað og verzlun. Þessar atvinnugreinar eru, eins og nú er komið, næstum eingöngu reknar af félögum, hlutafélögum og samvinnufélögum. Þess vegna er það, að í öllum þessum félögum eru eigendur og forstöðumenn jafnt sem aðrir starfsmenn á launum hjá fyrirtækinu. Þau laun eru greidd, hvort sem fyrirtækið græðir eða tapar, og það svo lengi sem unnt er að fá lánsfé til að halda félaginu lifandi. Allir þessir menn eru því á launum og verða samkv. minni till. að greiða sinn launaskatt á sama hátt og þeir menn, er vinna hjá ríkinu eða stofnunum þess. Varðandi bændastéttina hefur hennar aðstaða verið öll önnur, því að landbúnaður er yfirleitt ekki rekinn af félögum. En ef það næði fram að ganga að miða afurðaverð sveitanna við það, hvað raunverulegur framleiðslukostnaður afurðanna er á ríkisbúunum, þá er þar með fenginn grundvöllur fyrir því, að allir vinnufærir menn í bændastétt hafi svipaða greiðslu fyrir sína vinnu og almennt tíðkast um verkamenn. Þá eiga þeir líka að greiða sinn launaskatt af þeim tekjum til bjargar gengi krónunnar. Eftir eru þá tiltölulega fáir menn, sem persónulega stunda t.d. verzlun eða iðnað, bifreiðaakstur eða annað án þess að vera í félögum. Um vinnutekjur þessara manna er óvíst og örðugt að vera víss um þær. En til þess er ætlazt, að þeir greiði líka sinn launaskatt, og gert ráð fyrir, að þeir hafi árstekjur eins og Dagsbrúnarverkamaður, sem allt árið hefur vinnu. Ef hægt er að sanna annað á aðra hvora hlið, þá ber að sjálfsögðu að fara eftir því. Um öll slík atriði verður að ákveða nánar í reglugerð auk margs annars. Ég skal taka það fram, að vel mætti hugsa sér að halda bátagjaldeyriskerfinu og hafa launaskattinn lægri. Geta menn gjarnan hugsað um það, að um þetta mætti velja. En ég legg til að fella niður bátagjaldeyrisaðferðina, af því að mér hefur alltaf fundizt hún hið mesta neyðarúrræði. Ég hef líka sterkan grun um, að vegna bátagjaldeyriskerfisins sé flutt inn mjög mikið af vörum, sem ekki er þörf fyrir, en þær séu fluttar inn til að fá álagið fyrir útgerðina og tollana í ríkissjóðinn. auk þess sem verzlanirnar hafa sinn hagnað. Ég held því, að ef menn vilja í alvöru minnka innflutning óþarfrar vöru til meira jafnvægis og lækka eitthvað af vöruverði, svo að um muni, þá væri stórt spor í áttina, ef unnt væri að afnema bátagjaldeyrisaðferðina.

Af þessu, sem ég hef nú sagt, er augljóst, að till. mín um launaskattinn þýðir ekki nema að sumu leyti hærra framlag þjóðarinnar til þessara mála, heldur kemur þetta þannig út, að launaskatturinn kemur að miklu leyti í stað bátagjaldeyrisins. Auk þess er mér náttúrlega ljóst, að launaskatturinn mundi nokkuð draga úr hinum almenna tekjuskatti til ríkisins. Er það og mikið atriði, að hann væri frádráttarbær, eins og ég legg til.

Um 4. og 5. lið í 4. gr. frv., sem er stimpilgjald á aðgöngumiða að skemmtunum og hækkað álag á ferðagjaldeyri, skal ég eigi fara mörgum orðum, en ég tel eðlilegt og sjálfsagt, að allir þeir landsmenn, sem telja sig hafa ráð á því að vera sífellt að skemmta sér innanlands og utan, borgi meira en er fyrir það til að bjarga vandamálum þjóðfélagsins, en hættan á nýju gengisfalli er alvarlegra vandamál en flest annað. Annars er till. mín um svo háan skatt á ferðagjaldeyri flutt í tvenns konar tilgangi: Í fyrsta lagi til að fá tekjur í verðtryggingarsjóð og í öðru lagi til að draga nokkuð úr skemmtiferðum fólksins til annarra landa. Um undantekningar frá þessari skyldu býst ég við að yrði eitthvað svipað og nú er, en það gæti verið reglugerðarákvæði.

Ég hef nú rætt öll meginatriði þessa frv., og ég hef farið yfir þau hér til frekari skýringa en gert er í grg., sem frv. fylgir. Vil ég svo að lokum leggja áherzlu á það, sem ég vék að í byrjun, að grundvöllur að þessu frv. er þetta þrennt: 1) hallalaus framleiðsla, 2) óbreytt gengi krónunnar, 3) óbreytt og föst vísitala.

Ég vil mega vona, að allir hv. alþm., hvar í flokki eða stétt sem þeir standa, viðurkenni ótvíræða nauðsyn þjóðarinnar á þessu þrennu. Það er aðalatriðið. Hitt er svo annað mál og meira vafasamt, hvort ég hafi hér hitt á heppilegustu leiðirnar til að tryggja þennan grundvöll. Um það er eðlilegt að skoðanir geti verið skiptar. Um aðrar tillögur og ráðstafanir er þó ekki hægt að ræða, fyrr en þær liggja fyrir, og er þá sjálfsagt að hugsa það rækilega, hvað heppilegast muni vera til fullnægjandi árangurs. — Ég legg svo til, að þessu frv. sé að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjhn.