28.10.1955
Neðri deild: 12. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 525 í C-deild Alþingistíðinda. (1887)

48. mál, skiptimynt

Flm. (Gils Guðmundsson):

Herra forseti. Frv. það á þskj. 53, sem ég flyt ásamt hv. 8. landsk. þm., fjallar um dálitla breytingu á íslenzku myntkerfi og myntsláttu. Efni frv. er í stuttu máli það, að hætt verði að slá einseyringa, tvíeyringa, fimmeyringa og tuttugu og fimmeyringa og þessar myntir algerlega lagðar niður; skuli framvegis slegin íslenzk skiptimynt, er gildi sem hér segir: fimm krónur, tvær krónur, eina krónu, fimmtíu aura og tíu aura.

Tilgangur þeirrar breytingar á myntkerfinu, sem hér er lögð til í frv. þessu, er fyrst og fremst sá að draga úr þarflitlum eða þarflausum kostnaði við aurareikning og létta af ríkinu dálitlum kostnaði, sem fylgir því að slá smámynt, sem misst hefur nálega allan kaupmátt og virðist orðin óþörf.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að gildi peninga hefur rýrnað stórlega hina síðustu áratugi, ekki aðeins hér á Íslandi, heldur hefur sú orðið þróunin í ýmsum öðrum löndum. Þar sem svo hefur til tekizt, hafa menn hneigzt æ meir að notkun sléttra tuga og hundraða í öllum viðskiptum. Hefur þess gætt töluvert hér á landi nú hin síðari ár, enda þótt löggjafarvaldið hafi ekki enn þá breytt aurareikningnum til samræmis við þá þróun, en það virðist nú orðin tímabær og eðlileg ráðstöfun.

Í ýmsum öðrum löndum, þar sem verðgildi peninga hefur rýrnað til mikilla muna, hafa verið gerðar breytingar hliðstæðar þeim, sem lagt er til með þessu frv. að gerðar verði á íslenzkri skiptimynt. Smámyntir, sem misst höfðu nálega allan kaupmátt, hafa víða verið lagðar niður. Er nú t.d. mark lægsta slegin mynt í Finnlandi og franki í Frakklandi. Allar smærri myntir hafa verið afnumdar i þessum löndum. Svipað mun hafa gerzt hjá fleiri þjóðum.

Menn kunna að spyrja, hvort nokkurt verulegt hagræði sé því samfara að gera þá breytingu á íslenzku myntkerfi, sem hér er ráðgert, að leggja niður einseyringa, tvíeyringa, fimmeyringa og tuttugu og fimmeyringa og reikna ekki með minni einingum en heilum tug aura: Þar til er því að svara, að sú ráðstöfun mundi spara ótrúlega mikla skriffinnsku og fyrirhöfn; létta töluvert vinnu við skrifstofuhald og bókhald margra fyrirtækja, auk þess sem kostnaður ríkisins við myntsláttu lækkaði sennilega eitthvað.

Ýmis fyrirtæki hafa tekið upp þann hátt, og sum munu hafa viðhaft hann um árabil, að láta reikninga alltaf hlaupa á fimm- eða tíu aurum. Mér er tjáð, að þetta sé gert hjá Eimskipafélagi Íslands, skipaútgerð ríkisins og í sumum deildum bankanna, svo að dæmi séu nefnd. Þetta er vitanlega gert til þess að spara vinnu, og mun enginn viðskiptavinur þessara stofnána hafa gert athugasemdir við þessa tilhögun né talið sér mein að henni. En almenn verður slík regla tæplega fyrr en löggjafarvaldið hefur sett skýlaus ákvæði um þetta efni.

Enn vil ég nefna eitt atriði í þessu sambandi, og snýr það einkum að æskunni. Vegna þess, hve einseyringar, tvíeyringar og fimmeyringar hafa lítið kaupgildi, eru þeir oft meðhöndlaðir eins og algerlega einskis verður hlutur. Það er engan veginn heppilegt, að börn og unglingar venjist á að líta á gjaldgenga peninga sem eitthvert rusl, en svo mun jafnan verða, meðan höfð er í umferð smámynt, sem er að heita .má verðlaus. Mér liggur við að segja, að það sé dálítið uppeldisatriði, að slík mynt sé tekin úr umferð.

Helzta mótbára, sem ég get hugsað mér að fram kunni að koma gegn þeirri breytingu, sem hér er lagt til að gerð verði, er vafalítið sú, að brottfall minni myntar en tíeyringa geti valdið nokkrum óþægindum í sambandi við kaup á smávarningi og vörum, sem almenningur kaupir daglega, svo sem mjólk og brauðum. Athugun virðist þó leiða í ljós, að hvorki slík viðskipti né önnur muni á nokkurn hátt torveldast vegna þessara fyrirhuguðu breytinga á myntkerfinu. Þá koma til framkvæmda ákvæði 5. gr. frv. um, að fimm aurar og lægri upphæð falli niður, en upphæð, sem nemur 6–9 aurum, reiknist sem 10 aurar. Mundi það að sjálfsögðu jafna sig upp, miðað við vörukaup heils mánaðar eða heils árs, þannig að hvorki kaupandi né seljandi biði tjón af. Ég skal aðeins nefna eitt dæmi: Húsfreyja kaupir einn daginn vörur í mjólkurbúð fyrir kr. 15.48, hún mundi greiða með kr. 15.50. Næsta dag keypti hún i sömu búðinni mjólk og mjólkurvörur fyrir kr. 18.82; þá greiddi hún kr. 18.80.

Þetta mál, sem ég hef reifað hér stuttlega, er að sjálfsögðu ekkert stórmál, og vitanlega er það ekki. flokksmál. Ég er þess fullviss, að það muni fá eðlilega athugun hér á hv. Alþingi, og mér þykir líklegt, að sú verði niðurstaðan, að þessi ráðstöfun, sem lagt er til að gerð verði, muni þykja eðlileg og sjálfsögð.

Ég legg svo til, að frv. þessu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjhn.