06.03.1956
Neðri deild: 82. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 539 í C-deild Alþingistíðinda. (1895)

63. mál, byggingar íbúðarhúsa í kaupstöðum og kauptúnum

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Heilbr.- og félmn. tók þetta mál til afgreiðslu, meðan ég hafði fengið þingleyfi til að bregða mér vestur á Ísafjörð, og er afleiðingin af því sú, að ég hef ekki tekið afstöðu til þessa máls fyrr og ekki skrifað sérstakt nál. Ég vil því nú við þessa umræðu leyfa mér að lýsa afstöðu minni til málsins, og er hún sú, að ef ég hefði tekið þátt í afgreiðslu málsins í n., þá mundi ég hafa lagt til, að frv. yrði samþykkt.

Það er umfangsmikill lagabálkur, sem hér er um að ræða á þskj. 70, og er það rétt, sem segir í nál. meiri hl., að raunar er mikill hluti frv. samhljóða ákvæðum, sem gilda nú samkv. lögum eða hafa verið í gildi til skamms tíma. En þó eru ærið mörg og stór nýmæli í þessu frv., sem öll mundu vera til bóta á gildandi löggjöf. Hv. frsm. n. neitar því ekki heldur, að full þörf sé á umbótum á lögum um byggingarstarfsemi í landinu, því að samkv. upplýsingum hans kom það glöggt í ljós, að mjög stór vandamál eru óleyst enn þá í kaupstöðum landsins þrátt fyrir starfsemi byggingarfélaga, bæði samvinnubyggingarfélaga og byggingarfélaga verkamannabústaða og starfsemi smáíbúðadeildar, og í kauptúnum landsins er hið óleysta verkefni enn stórkostlegra.

Frsm. n. upplýsti, að aðeins í 12 kauptúnum af 51 hefði verið veitt lán úr byggingarsjóði verkamanna á öllum undanförnum árum, sem sjóðurinn hefur starfað, og nægir það til að sýna, að kauptún eiga í raun og veru eftir að endurbyggja sig og hafa ekki til þessa fengið neina verulega hjálp til þess. Afleiðingin er sú, að fólkið í mörgum kauptúnum landsins býr jafnvel við enn hörmulegra húsnæði en þekkist í stærri bæjunum, og er þar þó mjög ófagra sögu að segja af ástandinu, hver sem kynnir sér það eins og það er, og þá ekki hvað sízt hér í Reykjavík.

Frv. er í sex köflum. Fyrsti kafli er um verkamannabústaði. Þar eru meginatriði þau sömu og í gildandi lögum um verkamannabústaði, en ætlunin er samt að skylda ríkissjóð til að verja fjárupphæðum úr ríkissjóði til íbúðalána samkv. þeim kafla til þess að efla starfsemi byggingarsjóðs verkamanna. Þessa er hin fyllsta þörf, því að byggingarsjóður verkamanna hefur á undanförnum seinustu árum einkanlega verið lamaður af fjárskorti og mjög dregið úr starfsemi hans vegna fjárhagsskorts og vegna þess, hve byggingarkostnaður hefur hækkað hraðfara. Það má lengi um það deila, hvort ríkissjóður hafi efni á því að leggja fram fé til slíkra hluta, en það er nú svona, þar verður vafalaust að velja og hafna, og fé verður fyrst og fremst að vera fyrir hendi til þeirra hluta, sem Alþ. á hverjum tíma telur einna nauðsynlegast. Ég fyrir mitt leyti tel, að þeir málaflokkar séu fáir, sem þörfin sé meiri á því að Alþ. láti hendur standa fram úr ermum um að greiða fyrir en einmitt húsnæðismálin. Ég mundi því telja, að það væri fyllilega réttlætanlegt og tímabært að ætlast til þess af Alþ., eins og húsnæðismálunum er háttað, að auknu fé væri veitt úr ríkissjóði til þess að efla starfsemi verkamannabústaða.

II. kafli frv. er um byggingarsamvinnufélögin. Frsm. lýsti því, að byggingarsamvinnufélögin hefðu haldið uppi allverulegri byggingarstarfsemi á undanförnum árum víðs vegar um landið, og er það rétt. En samt er það nú svo, að starfsemi þeirra mætti gjarnan vera

meiri, og er það fyrst og fremst skortur á lánsfé, sem veldur því, að hún hefur ekki orðið meiri eða víðtækari.

III. kafli í frv. er svo um útrýmingu heilsuspillandi íbúða, og er þar um að ræða lagasetningu, sem með sérstökum ákvörðunum frá Alþingi var kippt úr gildi og hefur þannig að mjög litlu leyti komið til framkvæmda. Ætlunin var sú, þegar sú löggjöf var sett, að á ákveðnu árabili gerðu bæjarfélög, þar sem væri til heilsuspillandi húsnæði, áætlun um að útrýma því á ákveðnum árafjölda, og fjárframlög samkv. lögunum voru allrífleg til þeirra hluta. Það var aðeins byggt eitthvað hér í Reykjavík samkv. lögunum um útrýmingu heilsuspillandi húsnæðis og í einum eða tveimur kaupstöðum úti á landi, en síðan voru lögin sem sé felld niður með ákvörðun frá Alþ. eða hætt að starfa að byggingarframkvæmdum á grundvelli þeirra, sjálfsagt út frá því sjónarmiði, að fé væri ekki fyrir hendi til þessa, en ekki vegna hins, að þörfin væri ekki viðurkennd að útrýma heilsuspillandi húsnæði í kaupstöðum, því að það verkefni blasir við öllum heilskyggnum mönnum. Samkv. þessu frv. er ætlazt til, að ríkissjóður veiti lán til útrýmingar heilsuspillandi íbúðum, og tel ég, að það væri fyllilega tímabært að hefja þá starfsemi á ný.

IV. kafli frv. er svo um lánadeild smáíbúða. Þar er ætlunin, að sú starfsemi verði tekin upp aftur og ríkissjóði ætlað að leggja fram 30 millj. kr. sem stofnfé til lánadeildar smáíbúða. Það kann að þykja nokkuð há upphæð, en sannleikurinn er nú sá, að þegar litið er til þess byggingarkostnaðar, sem nú er, þá yrði þetta samt engin stórkostleg starfsemi, sem grundvölluð yrði með 30 millj. kr. framlagi úr ríkissjóði.

Þá er komið að V. kafla frv., sem er um rétt einstaklinga til veðlána. Þar er gert ráð fyrir tveimur breytingum frá gildandi lögum um veðdeild, og sérstaklega er það þá þessi, að í staðinn fyrir helming af virðingarverði komi helmingur af brunabótamati, það megi lána móti helmingi af brunabótamati húsa úr veðdeild Landsbankans. Hitt atriðið er um það, að seðlabankinn skuli vera skyldaður til að kaupa þau bankavaxtabréf, sem veðdeildin láti mönnum í té í þessu skyni.

Það er einmitt út af þessu síðara atriði, sem Landsbankinn lætur í ljós sína skoðun og mælir sérstaklega gegn frv. á þeim grundvelli, að aukin útlán seðlabankans mundu hafa hinar geigvænlegustu afleiðingar, og ræður því algerlega frá því, að veðdeildin verði lífguð við á þennan hátt, sem lagt er til í frv., og seðlabankanum gert að skyldu að kaupa bankavaxtabréf vegna byggingarlána úr henni. Geigvænlegar afleiðingar mundi þetta hafa í för með sér, og er þá sýnt, að bankastjórarnir, sem skrifa undir umsögnina, þeir Gunnar Viðar og Jón Maríasson, telja þarna bókstaflega háska á ferðum.

Þá er VI. kafli frv. um innflutning byggingarefnis, og er aðalefni hans það, að innflutningur á byggingarefni skuli vera frjáls, svo fremi að innflutningur á nokkrum vörum sé annars frjáls í landinu, sé hins vegar innflutningur vara ekki frjáls, skuli ríkisstj. kveða á um, til hverra nota því byggingarefni skuli verja, sem til landsins sé flutt, og þá vitanlega gert ráð fyrir, að byggingarefni til íbúðarhúsnæðis sé látið ganga fyrir byggingarefni til annarra nota. Þetta sýnist mér vera skynsamleg stefna í þessu, ef á annan hátt þarf illu heilli að takmarka byggingarstarfsemi landsmanna, því að það er þó hin fyrsta nauðsyn að hafa sómasamleg og heilsusamleg húsakynni yfir landslýðinn.

Ég hef þá vikið að efni frv., eins og það er fram sett í þessum sex köflum, og sé ekki, að þau nýmæli, sem þar eru fram borin, séu á neinn hátt háskaleg, get þannig ekki einu sinni tekið undir umsögn landsbankastjóranna um hinar geigvænlegu afleiðingar af því til óheilla, ef þetta frv. væri samþykkt.

Umsögn húsnæðismálastjórnarinnar, sem hér liggur einnig fyrir á fskj., er á þá lund, að það sé liðinn svo stuttur tími, síðan sú löggjöf var sett, að það sé engin reynsla á hana komin, og þess vegna sé bezt að láta reynsluna tala betur en orðið sé, áður en gerð sé breyting á lögum viðvíkjandi þeirri starfsemi.

Það má náttúrlega til sanns vegar færa, að það sé ekki mikil reynsla komin á það, en þó sýnist mér, að ákvæði þessa frv. séu öll til eflingar þeirri starfsemi, og mættu þeir menn, sem í þeim vanda standa, bezt vita, hvort ekki er full þörf á því, að starfsmöguleikar húsnæðismálastjórnarinnar séu rýmkaðir, eftir því sem þeir segja sjálfir um það, hversu þeir séu kaffærðir af lánbeiðnum frá einstaklingum úr öllum áttum, og hafa sagt það við mig og vafalaust fleiri, að það sé hörmung að þurfa að standa i þessu starfi með ekki meira fé en þeim sé ætlað til þessarar lánastarfsemi.

Það er þó einmitt á grundvelli þessarar umsagnar húsnæðismálastjórnarinnar, að mér virðist, sem heilbr.- og félmn. leggur til, að þessu frv. sé vísað frá með rökstuddri dagskrá, og rökstuðningurinn er einmitt sá, sem kemur fram í þessari umsögn húsnæðismálastjórnarinnar, að þar sem rétt þykir, að í ljós komi, hversu þau lög reynast, er sett voru á seinasta Alþingi í því skyni að greiða fyrir byggingu íbúða í kaupstöðum og kauptúnum, telji deildin nýja lagasetningu um þetta efni ekki tímabæra og taki því fyrir næsta mál á dagskrá.

Á þennan hátt á að kistuleggja þetta merka frv., sem þó að öllu leyti grípur á miklu vandamáli, sem allir verða að viðurkenna að er að mestum hluta óleyst enn í dag. Ég held, að það þyrfti að skjóta sterkari stoðum undir rökstuðning fyrir því, að það sé ótímabært að endurbæta löggjöf um byggingarmál á Íslandi, eins og þau mál standa í dag, og ég legg nú til, að frv. verði samþykkt.