12.03.1956
Neðri deild: 85. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 546 í C-deild Alþingistíðinda. (1899)

63. mál, byggingar íbúðarhúsa í kaupstöðum og kauptúnum

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég hét því í þeirri ræðu, sem ég hélt hér, þegar þetta mál var síðast á dagskrá, að taka til athugunar að breyta tveim köflum í þessu frv., þ.e. IV. og V. kaflanum, einmitt út frá þeim athugasemdum, sem fram komu frá hálfu meiri hl. n. og frsm. hennar, hv. þm. N-Þ. (GíslG), og því betur sem ég athugaði þetta, þótti mér bezt á því fara að taka það mikið tillit til þeirra athugasemda, sem fram höfðu komið, að ég komst að þeirri niðurstöðu, að það mundi vera bezt, ef það mætti verða málinu til framgangs, að fella burt IV. og V. kafla og taka í staðinn einn kafla, sem ég tek upp í brtt. á þskj. 461.

Röksemdirnar, sem komu fram frá hv. meiri hl. n. gegn mínu frv., voru aðallega tvenns konar: Í fyrsta lagi þær, að húsnæðismálastjórnin og hið almenna veðlánakerfi, sem sett var á stofn í fyrra, hefði haft svo skamman tíma, til þess að raun kæmi á það, að það væri ekki réttlátt að fella það úr gildi nú á fyrsta þingi eftir að það hefði verið sett, og í nál. eru sem fskj. einmitt prentaðar frá húsnæðismálastjórninni þær röksemdir, sem hún hefur fram að færa og fyrst og fremst eru þessar, og á vissan hátt má, þó að ég og fleiri hafi verið andstæðir ýmsu í því, sem snertir það lagakerfi, sem þá var samþykkt, til sanns vegar færa, að það sé mjög skammur tími fyrir eitt kerfi að fá að reyna sig. Og þó að okkur þyki nú reynslan, það sem af er, engan veginn vera góð, má til sanns vegar færa, að engu að síður sé það stuttur tími. Í öðru lagi kom fram sú höfuðathugasemd frá landsbankastjórninni í því bréfi, sem birt er sem fskj. hjá hv. meiri hl. n., að þeim þætti of langt gengið í V. kafla hjá mér um þær skyldur, sem Landsbankanum væru lagðar á herðar, og á þessu tvennu byggði þess vegna meiri hl. n. aðalathugasemdir sínar við mitt frv.

Nú vil ég hins vegar segja það, að IV. og V. kaflinn í þessu, þó að þeir væru þýðingarmiklir, voru ekki þýðingarmestu till. eða það, sem ég lagði mesta áherzlu á, heldur voru það breytingar í sambandi við I. og III. kaflann. Ég hef þess vegna nú farið inn á þá skoðun að reyna til samkomulags við meiri hl. n. að breyta þannig um IV. og V. kaflann, að hann ætti að geta fallizt á þetta frv., ef það hefur verið aðalatriðið hjá honum að fá breytingar í gegn á IV. og V. kaflanum. Þess vegna tek ég upp að mestu leyti frv. ríkisstj. frá í fyrra um húsnæðismálastjórn og hið almenna veðlánakerfi og flyt það nú sem brtt. við IV. og V. kaflann hjá mér, en felli báða þá kafla niður, sem sé hætti við að leggja til að endurreisa lánadeild smáíbúðarhúsa og hætti við þá skyldu, sem lögð var á herðar Landsbankanum í 44. og 45. gr. Þær breytingar einar, sem ég geri í sambandi við kaflann um húsnæðismálastjórn og hið almenna veðlánakerfi, eru þær í fyrsta lagi að setja þar inn í ákvæði um, hverjir skuli sitja fyrir lánum, þ.e., að barnafjölskyldur og ungt fólk, sem stofnar til hjúskapar, og fólk, sem býr í heilsuspillandi húsnæði, sem ekki væri útrýmt samkvæmt III. kafla þessara laga, –að þessir þrír aðilar skuli sitja fyrir um úthlutun íbúða. Þetta ákvæði var, eins og hv. þm. muna, eitt af gömlu ákvæðunum um smáíbúðalánin, þannig að það er bara tekið upp og látið halda sér í þeim. Það var till. okkar í stjórnarandstöðunni líka í fyrra, þegar lögin um húsnæðismálastjórn voru samþykkt.

Enn fremur legg ég til, að vöxtunum af A-lánunum sé breytt, þannig að það sé fært niður í 4%, því að þau 7%, sem nú eru ætluð í sambandi við húsnæðismálastjórnina, eru allt of háir vextir. Það þýðir ekki fyrir það opinbera að ætla að reyna að gera verulegar breytingar á því vandræðaástandi, sem ríkir í húsnæðismálunum, með því að ætla að innleiða og halda föstum öðrum eins hrottavöxtum og það eru. Og í samræmi við það legg ég á herðar ríkisins að greiða þann mismun, sem af því kynni að hljótast fyrir veðlánakerfið, að vextirnir væru þetta lækkaðir móts við þá vexti, sem greiddir væru af þeim skuldabréfum, sem í té eru látin og seld. Hins vegar felli ég svo burt IV. og V. kaflann.

Þá stendur málið þannig, að mínar brtt. fjalla í fyrsta lagi í sambandi við kaflann um verkamannabústaðina um að lækka þar vextina niður í 2%, eins og var upphaflega og eins og hefur verið lengst af þessa tæpa þrjá áratugi, sem verkamannabústaðalögin eru búin að gilda, tryggja það í 5. gr., að Byggingarfélag alþýðu fái að starfa jafnt og það félag hitt, sem starfandi er, en þó höfuðatriðið, að helmingurinn af tekjum tóbakseinkasölu ríkisins skuli renna til byggingarsjóðs verkamanna, þannig að þar fái verkamannabústaðirnir það fé, sem þeim var ætlað, þegar tóbakseinkasalan var sett á stofn. Þau lagafyrirmæli eru þar með tekin upp aftur nú. Enn fremur held ég svo í sambandi við III. kaflann fast við að endurreisa lögin, sem sett voru 1946 um útrýmingu heilsuspillandi íbúða og felld voru að lokum úr gildi i fyrra eða gerbreytt, svo að ekkert var eftir af þeim, eftir að þau höfðu verið að miklu leyti dauður bókstafur í allmörg ár.

Frá mínu sjónarmiði voru I. og III. kafli og þær breytingar, sem ég þar hef gert á, alltaf höfuðatriðið, og þess vegna hef ég nú reynt að gera það til samkomulags við hv. meiri hl. n., sem fyrst og fremst var að finna að IV. og V. kafla þessarar löggjafar, að vita, hvort hægt væri að fá samkomulag um að afgreiða nú þennan lagabálk með þeim breytingum, sem ég þar með legg til, og með þessum þrem breytingum, sem ég gat um viðvíkjandi kaflanum um húsnæðismálastjórn.

Ég þykist með þessu hafa gengið mjög langt til samkomulags við þá gagnrýni og þær athugasemdir, sem fram hafa komið, bæði frá húsnæðismálastjórn og frá Landsbanka Íslands, og gengið langt til móts við meiri hl. n. í þessu máli, og þætti mér þess vegna vænt um, af því að ég sé nú, að hv. frsm. n. er ekki mættur á þessum fundi af eðlilegum ástæðum, en hafði hins vegar sett sig mjög vel inn í þetta mál og það þess vegna hlotið af hálfu n. meiri undirbúning en nú er því miður vani hér um afgreiðslu mála, og af því að ekki hefur gefizt tími til að ræða þetta mál aftur í n., eftir að þessar brtt. eru fram komnar, að forseti vildi gera svo vel að fresta nú umr. um málið, þannig að n. gæfist kostur að athuga, hvort hún gæti ef til vill fallizt á afgreiðslu þessa máls eftir þær miklu tilslakanir, sem ég hef gert við hennar gagnrýni í brtt. mínum.