01.11.1955
Neðri deild: 14. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 552 í C-deild Alþingistíðinda. (1912)

74. mál, verkalýðsskóli

Flm. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Það frv., sem hér er til umr., var lagt fram á seinasta þingi að efni til nálega samhljóða þessu, en að formi til nokkuð á annan veg. Þá var gert ráð fyrir því, að stofnaður yrði skóli verkalýðssamtakanna og yrði hann einn af skólum gagnfræðastigsins. Nú er í þessu frv. gert ráð fyrir því, að skólinn falli ekki inn í hið íslenzka skólakerfi, enda ekki hugsaður sem prófskóli, og væri þá staða hans meðal íslenzkra skóla áþekkust því, sem er um bændaskólana, sjómannaskólann og aðra skóla, sem honum eru að eðli og hlutverki skyldastir, þ.e. skóla hinna ýmsu atvinnustétta.

Þeir skólar í nágrannalöndum okkar, sem gegna því hlutverki, sem skóla hinna íslenzku verkalýðssamtaka er ætlað að rækja samkv. þessu frv., eru flestir eða allir að mestu leyti starfræktir á líkum grundvelli og lýðháskólarnir á Norðurlöndum, að öðru leyti en því, að þeirra hlutverk er þó fyrst og fremst að sérmennta trúnaðarmenn verkalýðshreyfingarinnar í þeim ábyrgðarmiklu störfum, sem þeim er ætlað að rækja.

Norðurlandaþjóðirnar eru einna lengst komnar allra menningarþjóða í því að sérmennta trúnaðarmenn verkalýðshreyfingarinnar í hennar eigin skólum. Danir hafa um langa hríð átt tvo skóla til að gegna þessu hlutverki, í Hróarskeldu og í Esbjerg. Esbjergskólinn lagðist að vísu niður um nokkur ár eftir stríðið, vegna þess að Þjóðverjar höfðu hernumið hann og eyðilagt nálega byggingar hans og kennsluaðstöðu, svo að ekki var hafizt handa um starfrækslu hans, fyrr en reistur hafði verið frá grunni myndarlegur heimavistarskóli, sem tók til starfa á þessu ári, s.l. vor. Það er skóli, sem tekur 120 nemendur í heimavist og er að öllu leyti búinn út á nýtízku hátt, þannig að hann getur innt af hendi bóklega og verklega kennslu í öllum þeim fræðum, sem verkalýðshreyfingin vill leggja höfuðáherzlu á, og þykir

vera hin glæsilegasta menningar- og menntastofnun verkalýðsins. Á sama hátt er í ráði hjá Dönum að endurbyggja hinn myndarlega skóla sinn í Hróarskeldu alveg á næstu árum, og það verður þeirra næsta verkefni, en fullráðið er, að þriðji verkalýðsskólinn verði reistur í Danmörku innan fárra ára, að meginstofni til kostaður af danska ríkinu eins og aðrir skólar, en gert einnig ráð fyrir miklum fjárframlögum af hendi verkalýðshreyfingarinnar bæði til stofnkostnaðar og til rekstrarins, til þess að þarna sé aðeins reiknað með sams konar kostnaðarhlutföllum af hendi ríkisins og til annarra skóla.

Í þessu frv. er alveg á sama hátt gert ráð fyrir því, að íslenzka ríkið kosti skólann ekki að öllu leyti, eins og það þó gerir bæði um sjómannaskóla og iðnskóla og bændaskólana báða, heldur sé ríkisins hlutur að kostnaði til, bæði um stofnkostnað og rekstrarkostnað, áþekkastur framlögum ríkisins til skóla gagnfræðastigsins. Þar er sveitarfélögunum ætlað að bera verulegan hluta af kostnaðinum, en í þessu frv. er ætlunin, að verkalýðshreyfingin leggi fram svipað fjármagn og sveitarfélögin leggja fram til skóla gagnfræðastigsins. Þessi skólastofnun er því ekki hugsuð sem nein steikt gæs, sem fljúgi í munn verkalýðssamtakanna, heldur er þeim ætlað að taka á sig allverulegar byrðar og enda ráða að mestu leyti starfrækslu stofnunarinnar.

Sama er að segja um Norðmenn. Þeir hafa sinn verkalýðsskóla, Svíar eiga tvo og Finnar eiga einnig sinn verkalýðsskóla og eru nú í óða önn að ganga frá byggingu annars skóla. Þetta eru allt saman skólastofnanir, sem kosta milljónir króna hjá þessum þjóðum, og er hvorki til sparað af ríki né verkalýðssamtökum að búa þá sem bezt úr garði.

Ég sé, að nokkrir þingmenn Framsfl. hafa nú á þessu þingi flutt till. um, að skipuð verði nefnd til þess að rannsaka, með hvaða hætti verði bezt fyrir komið nauðsynlegri fræðslu í fræðum verkalýðssamtakanna, þannig að sú fræðsla verði óhlutdræg, eins og að orði er komizt. Og sérstaklega er vikið að því, hvort ekki mundi tiltækilegt, að Háskóli Íslands tæki að sér slíka fræðslu. Í grg. þessa frv. er að því vikið, að þess séu dæmi í þjóðfélögum, sem sízt eru kennd við sósíalisma, að jafnvel háskólar þeirra landa og ríkja kosti skóla f sambandi við háskólana, þar sem verkalýðsfræði séu kennd og rædd. Þannig er það t.d. í Ameríku. Má vera, að fyrir þingmönnum Framsfl. vaki að fara heldur hina amerísku leið í þessu efni sem ýmsum öðrum, og gæti það út af fyrir sig verið ágætt, að Háskóla Íslands væri gert að skyldu og honum gert mögulegt að hafa námskeið fyrir trúnaðarmenn verkalýðshreyfingarinnar í verkalýðsfræðum. Þó hygg ég, að það gæti ekki verið einhlítt. Ég held, að það verði á allan hátt að teljast eðlilegt, að verkalýðssamtökin íslenzku hafi eigin fræðslu- og menntastofnanir, eins og þau hafa í okkar nágrannalöndum, og það verði að álítast, að það sé þjóðhagsleg nauðsyn, að þau hafi slíkar menntastofnanir, til þess að hver sá maður, sem vandasömum störfum gegnir fyrir þjóðfélagið í verkalýðssamtökunum, sé undir það búinn og til þess fær að gera það af fullri þekkingu.

Ég hygg, að framsóknarmenn mundu setja upp undrunarsvip, ef það væri talið óeðlilegt, að samvinnuhreyfingin hefði eigin skóla, og ef það væri orðfært, að þeirra fræðsla gegnum slíkan skóla, sem samvinnuhreyfingin réði yfir, væri ekki örugglega óhlutdræg og þess vegna væri betra að hafa þetta í höndum einhverrar annarrar stofnunar, utan og ofan við samvinnuhreyfinguna sjálfa, eins og t.d. háskólann.

Alveg á sama hátt er þetta með verkalýðshreyfinguna. Ég held, að það sé óumdeilanlegt, að sú fræðsla, sem veitt er í verkalýðsfræðum, eigi að vera veitt í menntastofnunum, sem verkalýðshreyfingin hafi sjálf veg og vanda af og beri ábyrgð á. Hvað svo sem þjóðfélagið vill gera að öðru leyti til þess að tryggja góða og örugga fræðslu í þessum málum, eins og i gegnum háskólann, þá hef ég, eins og ég áðan sagði, ekkert á móti því og hygg ekki, að samvinnumenn í landinu hefðu neitt á móti því, þótt samvinnufræðum væri einnig ætlað nokkurt rúm í Háskóla Íslands eða í tengslum við hann.

Ég tel á sama hátt og það er eðlilegt og nauðsynlegt, að landbúnaðurinn eigi sína skóla, að samvinnumenn eigi sinn skóla, að verzlunarstéttin eigi sinn skóla, að iðnaðarstéttin eigi sína skóla, eins sé höfuðnauðsyn, að fjölmennasta stétt þjóðfélagsins, verkalýðsstéttin, eigi sinn skóla, og ég sé ekki nokkra minnstu ástæðu til þess, að þjóðfélagið eigi ekki á sama hátt að kosta þá stofnun verkalýðsstéttarinnar eins og menntastofnanir hinna annarra vinnustétta í landinu.

Ég skal svo ekki fjölyrða frekar um þetta mál. Það er sannað mál, að verkalýðsfræðsla í skólaformi er talin höfuðnauðsyn, hvort sem við lítum til Ameríku eða til nágrannalanda okkar, og þessari fræðslu er fundið form í skólastofnunum, ýmist sem verkalýðshreyfingin sjálf ræður yfir eða með því að tengja þessa fræðslu háskólastarfinu. Við hvorugt eigum við að búa á Íslandi, og verður að bæta úr þessu, fyrst og fremst með því að koma upp skóla, sem verkalýðshreyfingin sjálf tæki þátt í að móta og koma á fót, og í annan stað þá einnig, að Háskóli Íslands veitti þar framhaldsfræðslu, því að það er vissulega nauðsynlegt, að verkalýðsstéttin eigi vel menntuðu fólki á að skipa til þess að standa fyrir sínum víðtæku hagsmuna- og menningarmálum.

Ég vil vænta þess, að þessu frv. verði að umr. lokinni vísað til hv. heilbr.- og félmn.