16.12.1955
Neðri deild: 36. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 215 í B-deild Alþingistíðinda. (194)

126. mál, bráðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði

Forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Vegna niðurlagsorða hæstv. fjmrh. þykir mér rétt að gefa þessa yfirlýsingu:

Svo sem kunnugt er, hefur bátaflotinn undanfarin fimm ár notið hinna svokölluðu bátagjaldeyrisfríðinda. Fellur sá samningur úr gildi í lok þessa mánaðar. Hinn 1. ágúst 1954 var með bráðabirgðalögum, sem Alþ. síðar samþ., ákveðið að veita togurunum 2 þús. kr. uppbætur fyrir hvern úthaldsdag. Þau lög falla einnig úr gildi í lok þessa mánaðar, efnislega. Og nú í haust hefur verið ákveðið að veita uppbætur á útfluttar landbúnaðarafurðir ársins 1955, sem ætlað var að nema mundu um 15 millj. kr. Sérfræðingar hafa undanfarna mánuði unnið á vegum ríkisstj. að athugun á því, hvernig auðið verði að leysa vandamál útflutningsatvinnuveganna. Meðal þeirra vandamála, sem þar koma til greina, er, hvort halda beri áfram bátagjaldeyriskerfinu eða leggja inn á nýjar leiðir og þá með hverjum hætti auðið verði að afla þess fjár, sem með þarf til að hindra stöðvun framleiðslunnar. Athugunum þessum er enn ekki lokið, og hefur ríkisstj. þess vegna ekki getað gert sér grein fyrir því, hvaða stefnu beri að taka í málinu. Meðan svo standa sakir, hefur Sjálfstfl. ekki talið skynsamlegt og raunar tæpast auðið að afgreiða fjárl. ríkisins endanlega, en leggur hins vegar megináherzlu á að leysa þessi mál sem allra fyrst, og mun ríkisstj. vinna sleitulaust að undirbúningi þess í því þinghléi, sem nú er fyrirhugað. Að lokum þykir mér rétt að geta þess, að Sjálfstfl. hefði að sjálfsögðu kosið að ljúka báðum málunum fyrir áramót, en hefur að gaumgæfilega athuguðu máli komizt að þeirri niðurstöðu, að þess sé ekki kostur.