23.11.1955
Sameinað þing: 17. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 567 í C-deild Alþingistíðinda. (1943)

94. mál, bifreiðalög

Flm. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Umferðaslys eru mjög tíð hér á landi á síðari tímum. Með vaxandi umferð og stórauknum ferðahraða hefur slysunum fjölgað mjög. Flest eru þessi slys í sambandi við akstur bifreiða. Dauðaslysin eru mörg, og fjöldi manna verður fyrir meiri eða minni líkamsmeiðslum í bifreiðaslysum, þó að þeir hljóti þar ekki bráðan bana. Skemmdir á ökutækjum og öðrum verðmætum af völdum bifreiðaárekstra eru einnig gífurlega miklar, og fara þar miklir fjármunir forgörðum á hverju ári.

Ýmsar orsakir liggja til hinna tíðu bifreiðaslysa. Vegirnir eru ekki svo góðir sem skyldi, en bifreiðaumferðin mjög vaxandi, og veldur þetta erfiðleikum og aukinni slysahættu. En mörg slysin og oft þau mestu stafa af kæruleysi ökumanna, ekki sízt af óafsakanlega hröðum akstri. Þess má geta, að gangandi fólk á vegum og götum fer oft ógætilega, þar sem bifreiðaumferð er mikil, og verður fyrir slysum af þeim sökum.

Vegna þess, hve bifreiðaslysin eru tíð og valda miklu tjóni, er þess vissulega þörf, að tekið sé til alvarlegrar íhugunar, hvort ekki sé unnt að gera einhverjar ráðstafanir, sem orðið gætu til þess að fækka þeim. Breytingar á lögum og reglum, einkum að því er snertir viðurlög, þegar um vítaverðan akstur er að ræða, gætu vafalaust orðið til þess, að ökumenn sýndu meiri varkárni en þeir gera nú margir hverjir, og í því frv. á þskj. 105, sem ég flyt hér, er lagt til, að slíkar breytingar verði gerðar á bifreiðalögunum.

Þegar alvarleg bifreiðaslys ber að höndum, þar sem fólk verður fyrir meiðslum eða týnir lífi, fer fram lögreglurannsókn á orsökum þeirra, og síðan ganga dómar um málin. En þó að ökumenn valdi fjárhagslegu tjóni, án þess að um meiðsli á fólki sé að ræða, er mér sagt, að þeir komist oft hjá afskiptum lögreglunnar af árekstrunum. Er þá látið nægja, að þeir, sem skemmdunum valda, tilkynni það tryggingarfélaginu, sem hefur bifreið þeirra í tryggingu, en félagið greiðir síðan bætur til þeirra, er fyrir skaðanum verða.

Í 1. tölulið 1. gr. frv. er lagt til, að nýtt ákvæði verði sett inn i 36. gr. bifreiðalaganna um það, að tryggingarfélagi sé ekki heimilt að borga skaðabótakröfu, nema lögreglurannsókn hafi farið fram á því slysi eða tjóni, sem krafan er gerð út af. Líkur eru til, að ökumenn fari gætilegar, ef þeir vita, að þeir geta ekki sloppið við lögreglurannsókn á skaða, sem þeir valda. Löggæzlan mundi þá einnig hafa fullkomið yfirlít um það tjón, sem hver einstakur ökumaður veldur, en slíkar upplýsingar þurfa að vera til, svo að unnt sé að gera viðeigandi ráðstafanir gagnvart þeim, sem valda síendurteknu tjóni með ógætilegum akstri.

Í 36. gr. bifreiðalaganna eru ákvæði um það, að tryggingarfélag hafi endurkröfurétt á tryggingartaka, hafi hann valdið tjóni af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi. Nú er mér sagt, að tryggingarfélögin, sem taka bifreiðar í tryggingu, hafi ekki notað þennan rétt, fylgi ekki þeirri reglu að krefja ökumenn um endurgreiðslu á tjóni, sem þeir valda og tryggingarfélögin þurfa að borga. Ég legg til f 2. tölulið 1. gr. frv., að á þessu ákvæði verði gerð sú breyting, að félögunum sé skylt að krefjast endurgreiðslu hjá tryggingartaka á a.m.k. 30% þeirra skaðabótaupphæða, sem þau hafa þurft að greiða, en eftir sem áður stendur það óhaggað, þó að þetta verði samþykkt, að tryggingarfélögin hafa heimild til þess að krefja tryggingartaka um endurgreiðslu á öllum skaðabótunum.

Það getur vitanlega verið álitamál, hvort á að fyrirskipa félögunum á þennan hátt að krefja um endurgreiðslu á öllum skaðabótunum eða þá hve miklum hluta, en ég hef þarna í frvgr. sett ákvæðið þannig, að skylt væri að krefja um eigi minna en 30% af tjóninu.

Að því er stefnt með þessu ákvæði frv., að ökumenn, sem valda tjóni af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi, eins og í lagagr. stendur, verði sjálfir fyrir fjárútlátum i því sambandi, því að vafalaust yrði það þeim hvöt til að gæta meiri varúðar við aksturinn.

2. gr. frv. er um breytingu á lagaákvæðum um ökuleyfissviptingu. Í lögunum, eins og þau nú eru, 39. gr., 1. mgr., segir, að bifreiðarstjóri, sem ekur bifreið undir áhrifum áfengis eða neytir áfengis við bifreiðarakstur, skuli sviptur ökuleyfi sínu um ákveðinn tíma, þó eigi skemur en þrjá mánuði, eða fyrir fullt og allt, ef miklar sakir eru eða um ítrekað brot er að ræða. Þó er tekið fram í þessari sömu mgr., að ef sérstakar málsbætur séu fyrir hendi og kærði hafi ekki áður orðið sekur um sams konar eða annað verulegt brot gegn skyldum sinum sem bifreiðarstjóri, þurfi ekki auk refsingar að beita ökuleyfissviptingu.

Ég legg til í 2. gr. frv., að bifreiðarstjóri, sem ekur bifreið undir áhrifum áfengis eða neytir áfengis við bifreiðarakstur, skuli sviptur ökuleyfi sínu að fullu. Mörg hörmuleg slys hafa orðið vegna bifreiðaraksturs ölvaðra manna. Ber því brýna nauðsyn til að gera ráðstafanir, er verða mættu til þess að koma í veg fyrir akstur drukkinna manna. Engin ástæða er til og engum til hags, að vægt sé tekið á afbroti þeirra, er aka bifreið undir áhrifum áfengis. Miklar líkur eru til þess, að slíkum brotum muni fækka, ef tekið er í lög að svipta þá ökumannsrétti að fullu, sem verða uppvísir að því að aka bifreið undir áhrifum áfengis. Mönnum er þá ljóst, að ef þeir gera sig seka um slíkt, eiga þeir ekki afturkvæmt í ökumannssæti. Þetta ætti öðru fremur að verða þeim aðvörun og hvöt til að vanda framferði sitt í þessum efnum.

Það skal tekið fram, að þetta er það atriði frv., sem ég legg mesta áherzlu á að nái fram að ganga.

Í 2. gr. frv. er einnig ákvæði um breytingar á lagagreininni að því er snertir ökuleyfissviptingu af öðrum ástæðum en vegna ölvunar. Í lagagreininni, eins og hún nú er, segir, að ökuleyfissviptingu megi beita, hafi kærður orðið sekur um mjög vítaverðan akstur eða ef telja verður með hliðsjón af eðli brotsins og öðru framferði kærða sem bifreiðarstjóra varhugavert vegna öryggis umferðarinnar, að hann hafi ökuleyfi. Ég legg til, að sú breyting verði á þessu gerð, að í staðinn fyrir heimild til að svipta slíkan mann ökuleyfi skuli svipta hann ökuleyfinu um ákveðinn tíma, er ekki sé skemmri en eitt ár, eða fyrir fullt og allt, ef hann hefur orðið sekur um mjög vítaverðan akstur eða telja verður, eins og nú stendur i lögunum, að það sé varhugavert vegna öryggis umferðarinnar, að hann hafi ökuleyfi.

Í þessu sambandi er þó rétt að geta þess, að í 2. mgr. 39. gr. laganna er ákvæði um það, að hafi maður verið sviptur ökuleyfi eða réttindum til að fá það I lengri tíma en þrjú ár, þá getur dómsmrh., er þrjú ár eru liðin frá sviptingunni og sérstakar ástæður mæla með því, ákveðið, að honum skuli veitt ökuleyfið á ný eða rétturinn til að öðlast það, enda séu færðar sönnur fyrir því, að viðkomandi hafi verið bindindismaður um neyzlu áfengis, frá því er hann var sviptur ökuleyfinu. Ég tel, að það geti orkað tvímælis, hvort þessi heimild fyrir dómsmrh. á að standa áfram, en hef þó ekki í þessu frv. lagt til, að hún verði niður felld. Verður þá, þó að mitt frv. verði samþykkt, eftir sem áður, að þessu óbreyttu, sú heimild til, að dómsmrh. geti að þremur árum liðnum veitt eða ákveðið að veita manni ökuréttindi, sem af honum hafa verið tekin, enda, eins og segir í lögunum, verða þá að liggja fyrir sönnur fyrir því, að viðkomandi hafi verið bindindismaður, frá því er hann var sviptur ökuleyfinu.

Ég tel, eins og ég sagði áðan, að það geti verið álitamál, hvort það á að standa, og mætti athuga það nánar, en eins og lögin eru nú, þá er þó ekki heimilt að endurreisa mann á þennan hátt nema einu sinni þó að þetta verði látið standa óbreytt.

Það má vel vera, að á fleira mætti benda eða fleiri breytingar gera á bifreiðalögunum heldur en þær, sem ég ber hér fram tillögur um, sem gætu orðið til þess að fækka slysum og orðið mönnum hvöt til þess að fara gætilegar. Er það að sjálfsögðu vel þegið, ef einhverjir hv. þingmenn koma auga á slíkt og bera fram tillögur um það, og eins vænti ég, að hv. n., sem fær málið, taki til athugunar, hvort ástæða væri til að gera fleiri breytingar, sem stefndu í sömu átt.

Ég legg svo til, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. allshn.