23.11.1955
Sameinað þing: 17. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 574 í C-deild Alþingistíðinda. (1945)

94. mál, bifreiðalög

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Það er mjög mikilsvert mál, sem hér er til umræðu og hreyft hefur verið með þessu frv. hv. þm. V-Húnv. Ég tel þann tilgang, sem að baki frv. liggur, tvímælalaust vera heilbrigðan og merg málsins í frv. vera til bóta. Ég er einnig sammála kjarnanum í því, sem hæstv. dómsmrh. sagði um nauðsyn á því að gera ráðstafanir til þess að sporna við hinum sívaxandi umferðarslysum og að koma í veg fyrir, að menn aki bifreiðum undir áhrifum áfengis. Ég vil sérstaklega taka undir þau ummæli hans, að það yrði án efa mjög árangursrík ráðstöfun í þessu skyni, líklega sú árangursríkasta, sem völ er á, að taka það upp sem fasta .reglu að skýra opinberlega frá öllum, sem brotlegir gerast við lagaákvæði um þessi efni.

Það, sem kom mér til að kveðja mér hljóðs og segja örfá orð, var að skjóta fram athugasemdum um atriði, sem ef til vill mætti gera til viðbótar þeim breyt., sem stungið er upp á í frv.

Ákvæði frv. eru í raun og veru þrenns konar í fyrsta lagi, að tryggingarfélagi skuli ekki skylt að greiða skaðabótakröfu, nema lögreglurannsókn hafi áður farið fram, í öðru lagi, að tryggingarfélagi skuli skylt að innheimta eigi minna en 30% af því tjóni, sem valdið hefur verið af ásetningi eða vítaverðu gáleysi, og svo i þriðja lagi, að svipta skuli ökuleyfi að fullu þann mann, sem ekur bifreið undir áhrifum áfengis. Það er sérstaklega um fyrri atriðin tvö, sem mig langaði til að bæta fáeinum orðum við það, sem sagt hefur verið um þau.

Þessi ákvæði, ef samþykkt yrðu, mundu án efa gera skipti manna við tryggingarfélögin með nokkuð öðrum hætti en verið hefur og að ýmsu leyti erfiðari. Þau mundu getað torveldað mönnum, sem verða fyrir tjóni af völdum annarra, að ná rétti sinum gagnvart þeim, sem tjóninu veldur, eða fulltrúa hans, sem er tryggingarfélag, og sömuleiðis mundi að sjálfsögðu samþykkt síðara ákvæðisins hafa í för með sér, að tryggingarfélögin mundu fá stórauknar tekjur eða réttara sagt, sem kemur í sama stað niður, stórminnkuð útgjöld, þar sem þau mundu alltaf fá greitt eigi minna en 30% af tjónum, sem valdið hefur verið af ásetningi eða vítaverðu gáleysi, og ætti þá að sjálfsögðu að gera ráðstafanir til þess um leið, að iðgjöld tryggingarfélaganna lækkuðu. Þau mundu hafa heimild til þess nú samkvæmt núgildandi lögum að innheimta bætur fyrir allt tjón, sem valdið er af ásetningi eða vítaverðu gáleysi. Samkeppni tryggingarfélaganna mun hins vegar hafa valdið því, að þau hafa gert of lítið að þessu. Það er algerlega rétt hjá hv. flm., að félögin hafa gert allt of lítið að því að láta þá, sem valdið hafa tjóni af ásetningi eða vítaverðu gáleysi, standa ábyrga fyrir gerðum sinum, og veldur því auðvitað samkeppni þeirra á milli, sem svo hefur auðvitað haft í för með sér, að iðgjöldin hafa verið hærri en eðlilegt væri og vera þyrfti. Í kjölfar þessarar breytingar ætti að sjálfsögðu að eðlilegum hætti að fylgja veruleg lækkun á iðgjöldunum. En það, sem ég vildi sérstaklega benda á í þessu sambandi, er, að mér er nokkuð til efs, að það eitt sé fullnæging alls réttlætis á þessu sviði að gera tryggingarfélögunum skylt að innheimta vissan lágmarkshluta hjá þeim, sem veldur tjóni af ásetningi eða vitaverðu gáleysi. Sannleikurinn mun nefnilega vera sá, og það held ég að öllum sé fullkunnugt um, sem lengi hafa átt bifreiðar eða stundað akstur, að sá, sem verður fyrir tjóni, sem annar maður veldur af ásetningi eða vítaverðu gáleysi, verður ávallt fyrir meira eða minna tjóni í raun og veru, fær aldrei bætt að fullu það tjón, sem hann verður fyrir af hálfu annars aðila. Þær reglur, sem tryggingarfélögin fylgja í þessum efnum og eiga sér án efa stoð í lögum, eru þær að kosta viðgerðina á ökutækinu, sem fyrir skemmdunum varð. Aftur á móti er nær aldrei beitt almennum réttarreglum um skaðabætur eða miskabætur, og það er mjög erfitt að fá slíkar bætur tildæmdar. Það hafa bifreiðarstjórar tjáð mér, sem verða fyrir tjóni, missa t.d. sitt ökutæki úr umferð i langan tíma, vegna þess að á það hefur verið ekið af öðrum aðila, að þær bætur, sem dómstólar dæma þeim til handa vegna atvinnumissis, séu mjög litlar. dómstólarnir eru mjög varkárir, ef til vill mætti segja íhaldssamir á þessu sviði, því að þeir hafa ekki aðrar réttarreglur við að styðjast í þessum efnum en hinar almennu réttarreglur um skaðabætur eða miskabætur. Spurningin er, hvort ekki væri full ástæða til að kveða sérstaklega strangt á um skaðabætur einmitt í bifreiðalögunum, þegar valdið er tjóni af ásetningi eða vitaverðu gáleysi, hvort á ekki beinlínis í bifreiðalögunum að heimila eða skylda þann, sem slíku tjóni veldur, til þess að greiða þeim, sem hann veldur tjóninu hjá, mjög ríflegar skaðabætur, ekki aðeins til þess að kosta viðgerð á ökutækinu, heldur einnig skaðabætur, þó að ekki sé um atvinnutæki að ræða, sem notað sé í atvinnuskyni, og mjög ríflegar bætur fyrir tekjumissi, ef um er að ræða tæki, sem notað er i atvinnuskyni.

Ég gat þess áðan, að þeir, sem stunda akstur, teldu þær bætur, sem þeim væru almennt tildæmdar vegna atvinnumissis, vera mjög lágar. Einkaaðili, sem ekur einkabifreið og verður fyrir því, að ekið er á bifreið hans af vítaverðu gáleysi, og missir hana þar af leiðandi úr notkun í viku til hálfan mánuð, — tjónið þarf ekki að vera mjög verulegt til þess, að um það sé að ræða, — fær samkv. þeim reglum og þeim réttarvenjum, sem gilt hafa, tjónið aðeins bætt á þann hátt, að kostuð er viðgerð á bifreiðinni, en bifreiðin verður næstum aldrei jafngóð eftir. Tryggingarfélögin eða hinn aðilinn telja sér ekki skylt að gera meira en kosta viðgerðina. Menn hafa því í fyrsta lagi eign sína skemmda og í öðru lagi hafa misst afnot hennar og eiga mjög torvelt með að fá nokkrar bætur fyrir það. Krafizt er mjög strangra sönnunargagna um það, að menn hafi orðið fyrir beinu fjárhagstjóni við að missa bifreiðina. Menn geta að vísu fengið endurgreidda reikninga, ef þeir hafa þurft að kaupa sér bifreið á stöð þann tíma, sem þeir hafa ekki haft eigin bifreið til afnota, en það gera menn nú ekki alltaf. Menn hafa ýmis óþægindi af því, menn þurfa oft að ganga og hafa af því óþægindi, kannske ýmsan óbeinan kostnað, og fyrir það eru engin tök að fá nokkrar bætur. Þetta er óeðlilegt og spurning, hvort ekki væri ástæða til þess að taka upp í bifreiðalögin ákvæði til þess að bæta úr þessu. Það hefði tvöfalda þýðingu. Það hefði annars vegar þá þýðingu að rétta hlut þeirra manna, sem nú og undanfarið hafa orðið fyrir tjóni án þess að geta fengið það bætt nema þá með óhæfilega miklum málarekstri, sem menn oft og einatt hliðra sér hjá eða nenna ekki að standa í, og hins vegar mundi það án efa geta haft þýðingu í þá átt að gera menn varkárari við akstur, ef menn ættu von á því að þurfa ekki aðeins að bæta beint tjón, sem þeir valda með ásetningi eða vitaverðu gáleysi, heldur einnig að þurfa að borga þeim aðilanum, sem þeir valda tjóninu hjá, allríflegar skaðabætur.

Þessum athugasemdum vildi ég aðeins skjóta fram, ef hv. nefnd, sem fær þetta mál til athugunar, vildi einnig taka þessa hlið málsins til athugunar.