24.03.1956
Neðri deild: 93. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 577 í C-deild Alþingistíðinda. (1948)

94. mál, bifreiðalög

Skúli Guðmundsson:

Það er nú langt liðið, síðan ég lagði fram þetta frv. hér í hv. d., og hefur dregizt nokkuð lengi að fá afgreiðslu á því frá hv. allshn. Ég get fallizt á brtt. meiri hl. n. á þskj. 516 við 1. gr. frv. Ég tel að vísu fjárhæðina, sem þeir hafa sett í tölul. a, nokkuð háa, en geri ekki ágreining um það. En öðru máli gegnir um brtt. þeirra við 2. gr. frv.

Í 2. gr. frv. er lagt til, að bifreiðarstjóri, sem ekur bifreið undir áhrifum áfengis eða neytir áfengis við bifreiðarakstur, skuli sviptur ökuleyfi sínu að fullu. Meiri hl. vill breyta þessu þannig, að sá, sem gerir sig sekan um slíkt, skuli sviptur ökuleyfi um ákveðinn tíma, þó eigi skemur en eitt ár, eða fyrir fullt og allt, ef miklar sakir eru eða um ítrekað brot er að ræða. Ég er ekki ánægður með þessa brtt. Það er svo alvarlegt afbrot að aka bifreið undir áhrifum áfengis eða neyta áfengis við akstur, að sjálfsagt er að taka hart á slíku. Og ef þau ákvæði verða sett í lög, að hver sá, er gerir sig sekan um slíkan verknað, verði sviptur ökuleyfi sinu að fullu, þá má fastlega vænta þess, að slík afbrot verði miklu fátíðari en þau eru nú og að bifreiðaslysum fækki.

Ég vil enn fremur benda á, að þó að frvgr. verði samþ. óbreytt, þá stendur í lögunum heimild fyrir dómsmrh. til þess að veita manni, sem hefur verið sviptur ökuleyfi eða réttindum til að fá það i lengri tíma en 3 ár, ökuleyfið á ný, eftir að 3 ár eru liðin frá sviptingunni, enda séu færðar sönnur fyrir því, að viðkomandi hafi verið bindindismaður um neyzlu áfengis, frá því að hann var sviptur ökuleyfinu. Slíkt leyfi má þó aðeins veita einu sinni sama manni. Þessi ákvæði eru í 39. gr. bifreiðalaganna, og er þannig ekki útilokað, þó að frv. mitt yrði samþ. óbreytt, að maður, sem í eitt skipti gerði sig sekan um að aka bifreið undir áhrifum áfengis eða neyta áfengis við bifreiðarakstur, gæti fengið slíka endurreisn einu sinni, ef hann hefði verið bindindismaður ákveðinn tíma.

Af nál. kemur fram, að tveir hv. nm. telja ekki rétt að afgreiða frv. nú og vitna til þess, að mþn. sé að athuga bifreiðalögin og álits hennar megi vænta fyrir næsta þing. Jafnvel þótt svo væri, að álit þessarar n. kæmi áður en langt líður, sem ég skal nú ekkert um segja, þá lít ég svo á, að hér sé svo alvarlegt mál á ferðinni, bifreiðaslysin eru það mörg og stór, að ég tel ekki rétt að fresta því að gera ráðstafanir, sem verða mættu til þess, að þessum hörmulegu slysum fækkaði. Vænti ég þess, að meiri hl. hv. d. geti á það fallizt, að rétt sé að gera slíkar ráðstafanir með því að samþykkja þetta frv.