24.03.1956
Neðri deild: 93. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 579 í C-deild Alþingistíðinda. (1950)

94. mál, bifreiðalög

Frsm. (Jörundur Brynjólfsson):

Herra forseti. Þetta skulu vera aðeins örfá orð. — Út af því, sem hv. flm. frv., þm. V-Húnv. (SkG), sagði, vil ég benda á, að refsing fyrir það, ef manni verður á að neyta áfengis og hann snertir á stjórn ökutækis, er til muna þyngd frá því, sem er, þó að ekki sé hann sviptur ökuleyfi ævilangt. Og ég er í dálitlum vafa um, hvort það er rétt, að löggjöfin sé þannig, ef það eru smávægilegar sakir, að ekki sé um nein réttindi að ræða manninum til handa nema i gegnum náðun. Hvað lítilvægt sem það er, sem hann hefur brotið af sér, hefur hann til fulls tapað sínum réttindum, nema því aðeins að ráðherra leggi til, að hann verði náðaður síðar meir, þegar hann hefur eftir hæfilegan tíma sætt refsingu fyrir brotið, og þá getur hann öðlazt réttindin. Þetta er ég í nokkrum vafa um, sérstaklega ef það er mjög smávægilegt. Þá held ég að sé betra, að löggjöfin sé þannig, að innan tiltekins tíma, ef honum verður ekki neitt á, því að auðvitað er það undanskilið, öðlist hann réttindi, en ef um ítrekað brot er að ræða, tapi hann þeim, eins og hér er lagt til. En vitaskuld, ef sérstakar málsbætur eru, þá stendur áfram í lögunum þetta ákvæði, að ráðherra getur náðað manninn, svo að það breytir ekki því. En ég held, að einmitt upp á lagastaf og framkvæmd laganna sé hyggilegra að hafa þetta form á því en óheyrilega mikinn strangleik, sem ætlazt er þá til að ráðherra ráði bót á. Ég hef heldur vantrú á slíku. Mér finnst, að það sé alls ekki rétt að hafa það fyrirkomulag.

Hv. 3. þm. Reykv. gerði hér grein fyrir afstöðu sinni og hv. þm. Siglf. um það, að þeir teldu, að það hafði verið réttara að bíða með þetta, þar til endurskoðun þessarar löggjafar liggur fyrir. Þetta er vitaskuld matsatriði og ekki margt um að segja, en ég vil aðeins benda honum á, að við þessa endurskoðun fást nú sérfróðir menn, sem mikinn kunnugleika hafa, og þó að Alþingi gerði þessa smábreytingu nú á lögunum, þá er ekki eins og það raski á nokkurn hátt þeirra starfi eða hindri þá í að leggja það eitt til, sem þeir telja bezt og farsælast, og út frá því göngum við. En þar sem þessi lagabreyting, sem hér um ræðir, er þó í verulegum atriðum nokkur breyting frá því, sem er, og ætla má, að betur verði gætt í framkvæmdinni, að komið verði í veg fyrir slys, og þeir, sem eftirlit eiga að hafa í þeim efnum, geta haft í því starfi sínu talsverðan stuðning af þessari lagabreytingu, þá teljum við rétt að gera þessa litlu breytingu, og það hindrar vitaskuld á engan hátt þingið síðar meir í að gera þessu máli langtum betri skil, þegar endurskoðun löggjafarinnar liggur fyrir. En mér finnst fyrir mitt leyti, og þannig lítur meiri hl. n. á, að það horfi svo alvarlega í þessum efnum, að Alþingi megi ekki láta neins ófreistað að ráða bót á umferðarmálunum og reyna að koma í veg fyrir slysin, eins og þau mál ganga fyrir sig nú. Af þeim ástæðum er það, að við leggjum þetta til, meiri hl., eins og vafalaust hefur vakað fyrir hv. flm. þessa máls, að reyna að ráða bót á þeim ófarnaði, sem í þessum málum er.