16.12.1955
Neðri deild: 36. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 217 í B-deild Alþingistíðinda. (196)

126. mál, bráðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég vildi aðeins bæta því við það, sem ég sagði áðan, að störfum að fjárl. er það langt komið, að að mínum dómi og Framsfl. hefði verið hægt að ljúka þeim og ákveða tekjuöflun til ríkissjóðs í því sambandi. En málefni framleiðslunnar liggja á hinn bóginn þannig fyrir, að um þau hafa ekki verið teknar efnisákvarðanir, eins og hæstv. forsrh. tók fram. Ágreiningur sá, sem fyrir liggur, er því eingöngu um afgreiðslu fjárlaga.

Sumir segja, að fjárl. eigi að bíða, vegna þess að það sé ósýnt, hvort framleiðslan gangi. Ég álít, að það eigi yfirleitt ekki að gera því skóna, að framleiðslan stöðvist til lengdar, og þess vegna svara ég því neitandi, að það eigi að draga fjárlagaafgreiðsluna til þess að sjá, hvort framleiðslan geti gengið. Hver getur t. d. séð það fyrir, hvort verkföll eða aðrar truflanir verða í atvinnulífinu? Það er aldrei hægt að vita slíkt fyrir. Ef allt slíkt ætti að þurfa að vita fyrir, áður en fjárl. væru sett, þá yrði oft að stjórna fjárlagalaust á Íslandi. Það er af þessum ástæðum, sem ég hef haldið fram fast þeirri skoðun, að það ætti að afgr. fjárl. nú strax.