15.11.1955
Neðri deild: 19. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 585 í C-deild Alþingistíðinda. (1964)

99. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

Flm. (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Samkv. lögum um síldarverksmiðjur ríkisins eru þessar verksmiðjur undanþegnar aukaútsvari til bæjar- og sveitarfélaga. Í stað þess er ákveðið í lögunum, að verksmiðjurnar skuli greiða svokallað framleiðslugjald af útfluttum vörum til hlutaðeigandi bæjar- eða sveitarsjóðs, og nemur þetta gjald hálfum af hundraði, þó með þeim takmörkunum, að það megi ekki fara fram úr tilteknum hluta álagðra útsvara. Nú síðustu árin hefur verið mjög lítil vinnsla i verksmiðjum, af því að síldarafli hefur verið mjög lítill og tiltölulega meira saltað af síldinni en áður. Þær tekjur, sem hlutaðeigandi bæjar- og sveitarfélög hafa haft af framleiðslugjaldinu, hafa því nú í seinni tíð orðið miklu mínni en gert hafði verið ráð fyrir á þeim stöðum, þar sem síldarvinnsla hafði verið, er ákvæði laganna voru sett, og hefur þetta komið hart niður. Því var það, að á síðasta Alþ. voru sett sérstök lög um það, að framleiðslugjald það, sem síldarverksmiðjurnar greiða til Siglufjarðarbæjar, skyldi ekki fara niður fyrir 100 þús. kr. á ári, enda þótt framleiðslan væri minni en sem því svarar. Með setningu þessara laga var litið á þörf Siglufjarðarbæjar, en hann taldi sig hafa orðið mjög hart úti í þessu efni, þar sem framleiðslugjaldið hafði orðið mjög lítið síðustu árin, en á þeim tíma, sem síldarverksmiðjulögin voru sett, var þarna um verulegan tekjustofn að ræða, sem bæjarstjórnin að sjálfsögðu reiknaði með, en það liggur í augum uppi, hversu óþægilegt það er fyrir bæjarstjórn eða sveitarstjórn, að þessi tekjustofn skuli hafa rýrnað svo mjög og að ekki skuli vera hægt að reikna með neinni ákveðinni upphæð sem lágmarki, þegar fjárhagsáætlun er gerð.

Alþ. féllst á sjónarmið Siglufjarðarbæjar í fyrra, og því voru þessi lög sett. Nú hefur hreppsnefndin á Raufarhöfn snúið sér til mín varðandi þetta mál þar á staðnum, og ég hef því leyft mér að flytja frv. á þskj. 114 þess efnis, að framleiðslugjald verksmiðjunnar á Raufarhöfn til Raufarhafnarhrepps fari ekki niður fyrir 50 þús. kr. á ári.

Þetta frv. er í raun og veru alveg hliðstætt frv., sem samþ. var í fyrra varðandi Siglufjörð, og efnislega eins að öðru leyti en því, að hér er ekki farið fram á nema 50 þús. kr. lágmark, í staðinn fyrir að þar var gert ráð fyrir, að gjaldið færi ekki niður fyrir 100 þús. kr.

Til frekari rökstuðnings þessu máli, að því er varðar Raufarhöfn, vil ég leyfa mér að vísa til grg., sem fylgir frv., en á henni geta hv. þingmenn séð, hversu mikil breyting hefur orðið á framleiðslugjaldi verksmiðjunnar á Raufarhöfn í seinni tíð, og farið nærri um það, hvaða afleiðingar það hefur fyrir hreppsfélagið, þegar þessi tekjustofn hefur rýrnað svo mjög. Á þessum stað eru möguleikar til álagningar útsvara fremur takmarkaðir, en hreppsnefndin hefur nú síðustu árin vegna þess, hve framleiðslugjaldið hefur rýrnað, orðið að hækka útsvörin meira en eðlilegt hefur verið að gera.

Á Raufarhöfn er mikil þörf framkvæmda af hálfu hreppsins, sem ekki verður komizt hjá, og stafa þær framkvæmdir að töluverðu leyti einmitt af tilveru síldarverksmiðjunnar þarna og starfrækslu, þannig að það er í sjálfu sér mjög eðlilegt, að síldarverksmiðjur ríkisins beri allverulegan hluta af útgjöldum hreppsins, enda viðurkennt af Alþ. á sínum tíma með þeirri lagasetningu, sem ég hef áður drepið á.

Ég vil leyfa mér að vænta þess, að á sama hátt sem hv. deild og hv. Alþ. leit með skilningi og velvild á þörf Siglufjarðarbæjar í þessu máli í fyrra, þá verði nú einnig litið með skilningi á þörf þess hreppsfélags, sem hér á hlut að máli. Að öðru leyti er ég reiðubúinn til að gefa þeirri hv. n., sem væntanlega fær þetta mál til meðferðar, frekari upplýsingar um málið eða afla þeirra, ef þess er óskað.

Ég vil svo leyfa mér að leggja það til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjhn., en í þeirri n. ætla ég að sams konar frv. hafi verið til meðferðar á síðasta þingi.