15.03.1956
Neðri deild: 87. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 601 í C-deild Alþingistíðinda. (1971)

112. mál, kaup og útgerð togara til atvinnuframkvæmda

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Frv. það, sem hér er til umr. og flutt er af okkur fjórum þm. fjögurra flokka, felur í sér þessi meginatriði:

Í fyrsta lagi, að fyrir atbeina ríkisins verði á næstu þrem árum, 1957-59, smíðaðir og keyptir hingað til lands 15 togarar af fullkomnustu gerð, þar af 3 smíðaðir í landinu sjálfu. 10 af þessum skipum skal heimilt að selja bæjar- og sveitarfélögum, samvinnufélögum, hlutafélögum, einstaklingum eða hverjum þeim lögformlegum aðilum, sem reka vilja slík skip hérlendis.

Í öðru lagi: Ríkið geri sjálft út eigi færri en 5 hinna nýju fyrirhuguðu togara, og skulu þeir fyrst og fremst afla hráefnis fyrir hraðfrystihús og önnur fiskiðjuver, sem ekki eru að fullu hagnýtt sakir skorts á hráefni.

Í þriðja lagi: Ríkisstj. sé heimilt að verja allt að 5 millj. kr. til að kaupa hlutabréf í hlutafélögum, sem stofnuð kunna að verða með þátttöku tveggja eða fleiri bæjar- eða hreppsfélaga til að reka togaraútgerð á þeim stöðum, þar sem atvinna er stopul og fiskvinnslustöðvar skortir hráefni.

Þá er ríkisstj. heimilað að ábyrgjast fyrir hönd ríkissjóðs lán, allt að 80%a af stofnkostnaði slíkra útgerðarfélaga, er bæjar- og sveitarsjóðir standa að.

Í fjórða lagi: Ríkisstj. er heimilað að taka 50 millj. kr. lán, sem endurlánað verði bæjar og sveitarfélögum til byggingar og endurbóta á frystihúsum, fiskimjölsverksmiðjum, lýsisvinnslustöðvum og til annarra mikilvægra fiskvinnslustöðva.

Þá hefur frv. og að geyma lánsheimildir vegna togarakaupanna og þeirra framkvæmda annarra, sem hér eru ráðgerðar.

1. flm. þessa frv., Hannibal Valdimarsson, hefur þegar gert svo glögga grein fyrir málinu, að ég tel ekki þörf á eða ástæðu til að fjölyrða mjög um efni þess í einstökum atriðum. Þess í stað vil ég leitast við að svara tveim spurningum, en jákvætt svar við þeim er alger forsenda þess, að frv. slíkt sem þetta eigi rétt á sér. Spurningarnar eru þessar: Er þörf á því að auka fiskiskipaflotann og bæta og efla fiskiðnaðinn víðs vegar um landið? - og: Er vit í því, eins og högum útgerðarinnar er komið, að festa fé þjóðarinnar í auknum fiskiskipaflota og fiskiðjuverum?

Um þörfina á auknum fiskiskipaflota, fleiri og stærri hraðfrystihúsum og betri aðstöðu til fiskiðnaðar ætla ég að þurfi naumast að deila. Þó eru til menn, sem halda því fram vegna algers misskilnings á orsökum ríkjandi öngþveitis í fjárhags- og dýrtíðarmálum, að nú beri að skera stórlega niður fjárveitingu til þeirra atvinnugreina, sem eiga við rekstrarerfiðleika að etja, en þar er sjávarútvegurinn efstur á blaði. M.ö.o.: Viss öfl eru að leitast við að læða inn hjá þjóðinni þeirri falskenningu, að sjávarútvegurinn sé orðinn hálfgerður ómagi á þjóðinni og því beri að verja fjármagninu til arðbærari atvinnugreina. En skyldi ekki fara svo, að mörgum tæki að þykja þröngt fyrir dyrum, þegar svo hefði verið þjarmað að sjávarútveginum, að hann ætti sér ekki viðreisnar von? Hann er þó sá atvinnuvegur, sem nálega öll gjaldeyrisöflun þjóðarinnar byggist nú á. Og eigi þess að vera nokkur kostur á næstu árum að auka útflutningsverðmætin og þar með þá fjármuni, sem þjóðin hefur úr að spila sér til lífsframfæris og margvíslegra framkvæmda, þá er efling sjávarútvegsins fljótvirkasta og stórvirkasta leiðin til að ná því marki. Ég vil ekki fullyrða, að þeir menn, sem mestu hafa ráðið um stjórnarstefnu síðustu ára, hafi sagt það berum orðum, að sjávarútvegurinn sé orðinn ómagi á þjóðinni, en hitt er staðreynd, að sumar aðgerðir þeirra benda ótvírætt í þá átt, að þeir líti þannig á. Alger kyrrstaða hefur ríkt að því er varðar viðhald og stækkun togaraflotans, þeirra veiðiskipa, sem ein geta í skjótri svipan og með sæmilegu öryggi bætt úr óviðunandi atvinnuástandi í tilteknum landshlutum, þar sem vélbátaútgerð er margvíslegum annmörkum háð sakir langvarandi aflatregðu og ofboðslegrar ágengni erlendra fiskiskipa. Nú eru 8 ár liðin síðan nýr togari hefur verið keyptur til landsins, en með tilliti til eðlilegs viðhalds togaraflotans eingöngu þyrfti að kaupa sem svarar tveimur skipum á ári a.m.k. Sér hver maður, hversu óheppilegt það er, ef allur togarafloti landsmanna verður gamall og úreltur svo að segja samtímis. Vitanlega ætti að stefna að því í framtíðinni að endurnýja flotann og auka sem jafnast, láta ekki mörg ár liða án þess, að ný skip bætist í hópinn. Að sjálfsögðu er það óhentugra á alla lund að hafa þann hátt á að láta endurnýjun skipastólsins liggja niðri árum saman, en neyðast síðan til að endurnýja hann nálega allan á skömmum tíma. Og því aðeins taldi ég réttmætt að flytja frv. um byggingu svo margra togara i senn sem hér er ráð fyrir gert, að okkur er þess full þörf að auka flotann, jafnframt því sem endurnýjun hans hefur verið vanrækt nú um langt skeið. Síðan ætti að stefna að því, að nýsmíðar togara gætu orðið sem allra jafnastar, og að sjálfsögðu hlýtur það að vera keppikefli okkar, að þær geti orðið íslenzk atvinnugrein. Stálskipasmíði er þegar hafin hér á landi, þótt í smáum stíl sé, og virðist gefa góða raun. Án efa er hér um að ræða vísi að innlendum skipasmíðaiðnaði í miklu stærri stíl en enn á sér stað. Til þess að styðja þá þróun og flýta henni leggjum við flm. þessa frv. til, að leitað skuli samninga við íslenzkar skipasmíðastöðvar um smíði þriggja hinna fyrirhuguðu togara. Erum við þeirrar skoðunar, að jafnvel þótt þeir togarar verði eitthvað dýrari en skip smíðuð erlendis, beri að gera þessa tilraun. Má og tvímælalaust gera ráð fyrir því, að með bættri aðstöðu og aukinni reynslu fari sá verðmunur minnkandi. Um hitt þarf ekki að fara í neinar grafgötur, að það er ekki aðeins metnaðarmál, heldur einnig hagsmunamál okkar Íslendinga, að innlendur stálskipaiðnaður eflist og þróist sem bezt. Slíkar smíðar veita ekki aðeins atvinnu fjölda iðnaðarmanna og spara gjaldeyri, heldur má vænta þess, að áður en langt um líður fáum við betri skip en ella, sniðin eftir íslenzkri reynslu og þörfum og miðuð við staðhætti hér við land. Sú hefur reynslan orðið um innlendar bátasmíðar, og svipað mundi án efa gerast að því er togara og önnur stálskip varðar. Við eigum þegar álitlegan hóp sérmenntaðra manna á sviði skipasmíða, og ég er sannfærður um, að þeir munu reynast þess megnugir að leysa af hendi vandasöm verkefni, sjálfum sér til sóma og þjóð sinni til gagns.

Fiskur úr togurum, verkaður hér innanlands, hefur á undanförnum árum bætt stórlega atvinnuástandið á þeim stöðum, þar sem hans hefur verulega notið. En mörg eru þau kauptún og sjávarþorp, sem orðið hafa í þessu efni afskipt að mestu eða öllu leyti, og þar hefur atvinnuleysið víða herjað með öllum þeim afleiðingum, sem það hefur í för með sér. Fjölda vinnufúsra handa á Vestur-, Norður- og Austurlandi hefur skort verkefni á undanförnum árum, einkum að vetrinum. Menn hafa aðeins átt um tvo kosti að velja, að sitja heima aðgerðalitlir og bjargarsnauðir eða hrekjast að heiman í atvinnuleit. Oftar en skyldi hafa þeir menn, sem síðari kostinn völdu, horfið frá íslenzkri framleiðslu og í stað þess tekið upp vinnu við hervirkjagerð eða önnur þjónustustörf fyrir erlent herlið. Þetta hefur gerzt hjá þjóð, þar sem óleyst verkefni og ónotaðir möguleikar blasa hvarvetna við, bæði til sjávar og sveita.

Hefur þá ekkert verið gert af opinberri hálfu til að bæta aðstöðu þess fólks, sem skort hefur atvinnu um lengri eða skemmri tíma ár hvert? Nokkrir tilburðir hafa verið til þess hafðir, en meira hefur verið þar um fálm og kák en föst tök og varanlegar úrbætur. Nokkrum milljónum hefur verið varið í þessu skyni, en ýmist úthlutað eins og fátækrabrauði eða pólitískri náðargjöf. Þess eru dæmi, að forvígismenn sveitarfélaga hafa leitað á náðir hins opinbera vegna atvinnuframkvæmda, sem hreppsfélög þeirra stóðu í, en komið að harðlæstum dyrum. Síðan hafa landskunnir skuldakóngar, sem gutla í pólitík, verið látnir taka að sér erindreksturinn, og þá hafa allar hurðir og fjárhirzlur hrokkið galopnar. Svo eiga þakkirnar fyrir aðstoðina að koma á kjörseðlinum við næstu kosningar. En lítið er þá eftir af skapi Íslendinga, ef þær þakkir koma allar til skila með þeim hætti, sem valdhafarnir ætluðust til.

Árið 1952 skipaði félmrh. svonefnda atvinnumálanefnd ríkisins, er skyldi rannsaka og gera till. um, á hvern hátt megi með mestum árangri vinna gegn því árstíðabundna atvinnuleysi, sem orsakast af því, hve atvinnuvegir landsmanna eru háðir árstíðum. Var n. einkum ætlað að miða rannsóknir sínar og till. við kauptún og kaupstaði, þar sem veruleg brögð höfðu verið og voru að atvinnuleysi. Nefnd þessi vann mikið og að mörgu leyti merkilegt starf, og fyrir rúmu ári kom út fjölrituð bók, sem nefndist „Álit og tillögur atvinnumálanefndar ríkisins“. Rit þetta hefur að geyma mikinn fróðleik um atvinnuástand og atvinnuskilyrði í 44 kaupstöðum og kauptúnum víðs vegar um land svo og ábendingar og till. um það, hvað nauðsynlegt sé og tiltækilegt að gera á þeim mörgu stöðum, þar sem atvinnutæki eru ýmist af skornum skammti eða ekki fullnýtt einhverra hluta vegna. Þar með hafði n. lokið sínu starfi, og kom nú til kasta Alþingis og ríkisstj. að hagnýta þessar upplýsingar og ábendingar og leggja grunninn að skipulegu viðreisnar- og endurbótastarfi. En hver eru afrekin? Hver hefur verið forusta ríkisstj. í þessu mikilvæga máli? Harla vesæl og fálmkennd, svo að ekki sé fastara að orði kveðið. Atvinnumálanefndin leggur réttilega á það ríka áherzlu, að aukið magn af fiski til vinnslu og bætt aðstaða til fiskiðnaðar sé mjög víða skjótasta og hentugasta úrræðið atvinnulífinu til eflingar, annar iðnaður og iðja þurfi að vísu að rísa upp á ýmsum stöðum og þróast á heilbrigðan hátt, en hitt sé þó í bili veigamest og árangursríkast, að fiskiðnaðurinn nái að eflast. Sums staðar geti aukin vélbátaútgerð verið úrræðið, en á öðrum stöðum sé naumast um annað að ræða en fisk úr togurum. Telur n., að sérstakra ráðstafana sé þörf í þessu efni að því er varðar ýmsa staði á Austurlandi, Norðurlandi og Vestfjörðum. Í till. n. er sérstök áherzla lögð á það, að bæta þurfi útgerðarskilyrði á þessum stöðum, svo sem með endurbótum á fiskiðjuverum, en jafnframt óg ekki síður beri að gera ráðstafanir til þess, að fiskiðjuverin fái aukið hráefni til þess að vinna úr. Um þetta atriði farast nefndinni m.a. orð á þessa leið:

„Þegar n. leitaði eftir tillögum frá hinum ýmsu útgerðarstöðum um úrræði gegn atvinnuleysinu, voru flest svörin á eina leið: Við þurfum fyrst og fremst að fá meira hráefni fyrir fiskiðjuverið til að vinna úr. Víst er þessi ósk eðlileg, eins og sakir standa nú. Bak við óskina um aukið hráefni mun búa hugsunin um upplögn togarafisks til frystingar, herzlu og saltfiskverkunar. Eins og nú er háttað sölumöguleikum okkar á togarafiski, er þessi leið að ýmsu leyti álitleg,“ segir i áliti nefndarinnar. Síðan ræðir nefndin nánar um möguleika til öflunar aukins hráefnis handa fiskiðjuverum og fjallar þar m.a. um þær tvær leiðir, sem áherzla er lögð á í því frv., sem hér er nú til umræðu, stofnun hlutafélaga til togaraútgerðar, þar sem bæjar- og sveitarfélög væru aðilar, er hið opinbera kæmi til aðstoðar, og ríkisútgerð togara til atvinnujöfnunar. Það má því telja, að frv. okkar fjórmenninganna sé helzta umtalsverða tilraunin í þá átt að bæta úr brýnni atvinnuþörf fjölmargra kaupstaða og kauptúna og koma þar með í framkvæmd nokkru af því, sem atvinnumálanefnd ríkisins telur brýnasta nauðsyn til bera, ef leysa á einn hinn stærsta vanda, sem að okkur steðjar á sviði atvinnumála.

Nú kunna einhverjir að álykta eitthvað á þessa leið: Það væri vafalaust mjög æskilegt að auka togaraútgerð landsmanna og þar með atvinnu manna og heildarframleiðslu þjóðarinnar, en þar sé sá hængur á, að togaraútgerð beri sig ekki, hún sé nú að færast í kaf í vaxandi flóði óstöðvandi verðbólgu og sé nú einungis haldið á floti með stórfelldum styrkjum. Þetta er að vísu rétt, svo langt sem það nær. Hér er við sérstakt vandamál að etja, vandamál, sem valdhafar þjóðarinnar hafa hvorki haft vilja né getu til að leysa. Hin skefjalausu gróðasjónarmið burgeisanna, sem ráða Sjálfstfl., hafa ráðið lögum og lofum með þeim afleiðingum, að útvegurinn er mergsoginn og tap hans síðan þjóðnýtt. Á sama tíma getur verið gróðavegur að verka sjávarafla, annast um flutning hans til markaðslanda og sjá um sölu hans þar. Þeir, sem komið hafa sér vel fyrir í verzlun og viðskiptum og fá að ráðstafa þeim gjaldeyri, sem fyrir sjávaraflann fæst, virðast margir hverjir hagnast prýðilega og þá ekki sízt þeir, sem selja hinum þrautpínda sjávarútvegi nauðsynjar hans. Hér þarf að sjálfsögðu að verða gerbreyting á. Rekstrarfyrirkomulagi útvegsins þarf að breyta í það horf, að þeir, sem eiga lífsafkomu sína undir fiskveiðum, fái aukna hlutdeild um reksturinn og sem fyllsta tryggingu fyrir því, að sannvirði vinnu þeirra falli þeim f skaut, en gufi ekki upp að verulegu leyti einhvers staðar á leiðinni. Útgerðarsamvinnufélög, sem njóta stuðnings og fyrirgreiðslu ríkisvaldsins, eru án efa ein þeirra leiða, sem fara verður í stórum stíl til að ná þessu marki. Þá verður og að koma á fullum tengslum milli útgerðarinnar og fiskiðnaðarins. Það er ein meginforsenda þess, að þeir, sem að sjávarútvegi vinna, njóti þess alls, sem fiskveiðarnar gefa í aðra hönd. Hið sama gildir raunar um verzlun með fisk og fiskafurðir svo og verzlun með nauðsynjar útvegsins. Jafnframt ber og brýna nauðsyn til þess, að lagt sé til atlögu við verðbólguna og leitazt við að bæta svo sem verða má fyrir þau afglöp, sem einkennt hafa allan feril þeirrar óstjórnar, sem hér hefur helzt til lengi hangið við völd.

Það mun naumast dyljast nokkrum hugsandi manni, að eina von íslenzkrar þjóðar til viðreisnar og bjargar er gerbreytt stjórnarstefna, þar sem auðhyggju- og gróðasjónarmiðin verða að þoka, en alþýðustéttirnar til sjávar og sveita ná að taka höndum saman í þróttmiklu starfi við uppbyggingu íslenzks atvinnu- og efnahagslífs, sem nú er að hrynja i rúst. Ríkjandi stjórnarstefna hefur beðið algert og óumdeilanlegt skipbrot. Verðbólga, skattpíning, brask og hermang eru þau fjögur orð, sem gleggst einkenna feril hennar og munu verða þau eftirmæli, sem hún hlýtur á spjöldum sögunnar. Með hinum ofboðslegu nýju skattaálögum, sem hún dembdi á þjóðina fyrir nokkrum vikum, mátti svo heita, að hún kórónaði öll sín fyrri verk. Afleiðingar þeirra glapa bitna nú á þjóðinni með síauknum þunga og munu gera það í æ ríkari mæli næstu mánuði og missiri. En hvað tekur við? munu margir spyrja. Hverjar horfur eru á því, að nú létti senn því svartnætti afturhalds, sem grúft hefur yfir þjóðinni? Er nú loksins að því komið, að þeir menn, sem helzt til lengi og af furðulegri auðmýkt hafa þjónað öflum íhalds og auðhyggju, bæti ráð sitt og segi: Hingað og ekki lengra. Nú ætlum við að snúa við og taka að byggja það upp, sem við höfum hjálpað íhaldinu til að rífa niður. — Engir mundu fremur enn við þjóðvarnarmenn fagna slíkum sinnaskiptum, en þau verða að lýsa sér í verki, ekki aðeins í orði, ef nokkur vitiborinn maður á að taka það trúanlegt, að slík tíðindi hafi gerzt.

Á flokksþingi Framsfl., sem lauk fyrir tveimur dögum, var samþykkt stjórnmálaályktun, sem vekja mun ærna athygli og umtal. Fjögur eru þau atriði, sem vert er að leiða hugann að sérstaklega í þeirri ályktun. Hið fyrsta er þetta: Þar kemur fram svo ljóslega sem verða má, að stjórnarstefna íhalds og Framsóknar hefur leitt hinn mesta ófarnað yfir land og þjóð. Er þar með viðurkennt af Framsfl., að hin harða gagnrýni okkar þjóðvarnarmanna á stefnu núverandi ríkisstj. hefur verið á fullum rökum reist og algerlega réttmæt. Hitt kann að vera mannlegt, þótt stórmannlegt sé það ekki, er framsóknarmenn vilja nú í vertíðarlokin skella allri skuld á íhaldið af þeim margvíslegu óhappaverkum, sem þessir tveir flokkar hafa framið í svo innilegu bróðerni, að þar hefur ekki gengið hnífurinn á milli.

Sök Sjálfstfl. er vissulega stór, og skal ég sízt úr henni draga, en það veit allur landslýður, að engu hefði sá flokkur komið fram einn. Með fulltingi 16 framsóknarhanda á þingi og þriggja framsóknarráðherra í ríkisstj. hefur Sjálfstfl. tekizt að vinna öll sín óþurftarverk. Hvorugur getur stjórnarflokkurinn undan ábyrgðinni skotizt. Sameiginlega verða þeir að taka afleiðingum gerða sinna og standa frammi fyrir dómstóli þjóðarinnar, þegar dagur reikningsskilanna rennur upp.

Annað atriði, sem mikla athygli vekur i ályktun framsóknarþingsins, er samþykkt þess um herstöðvamálin, en aðalatriði hennar er á þá leið, að hafin verði endurskoðun herstöðvasamningsins með það fyrir augum, að Íslendingar annist sjálfir gæzlu og viðhald hinna svonefndu varnarmannvirkja, en herinn hverfi að því búnu úr landi. Fáist ekki samkomulag um þessa breytingu, verði málinu fylgt eftir með uppsögn samkvæmt 7. gr. samningsins. Hér hafa þau tíðindi gerzt, að einn af flokkunum, sem stóðu að hernáminu, hefur snúið við á þeirri braut, í orði kveðnu a.m.k. Efndirnar eru eftir. Áður hafði Alþfl. borið fram svipaða till., og eru þá tveir af hernámsflokkunum þremur komnir á augljóst undanhald í þessu stórmáli. Þeir hafa svignað undan þunga almenningsálitsins, og getur Þjóðvarnarflokkur Íslands vissulega vel við unað, því að hér er um að ræða augljósan árangur af baráttu hans. Nú er að reka flóttann, sem brostinn er í hernámsliðið. Allir þeir, sem eru heils hugar í þessu máli og vilja herinn á brott, verða nú að fylgja fast eftir og knýja til enn frekara undanhalds. Það mega menn vita, að hér er tæpast um sinnaskipti að ræða hjá ýmsum forustumönnum þessara tveggja flokka. Það er a.m.k. óvarlegt í mesta máta að gera ráð fyrir því. Hræðslan víð harðan dóm kjósenda er sú svipa, sem þessir menn hafa beygt sig fyrir í bili. Hvað eftir annað undanfarin ár hefur Eysteinn Jónsson staðið hér fyrir framan hljóðnemann og hamazt að okkur þjóðvarnarmönnum, kallað okkur fáráðlinga og allt að því glæpamenn fyrir að krefjast brottfarar hersins, fyrir að vilja láta landið vera óvarið, eins og það hefur verið orðað. Nú samþykkja þessir sömu menn allt í einu, að herinn skuli hverfa á brott. Sé hér um raunveruleg sinnaskipti að ræða, þá er það mikið fagnaðarefni, en því miður er meira en hæpið að gera sér vonir um það. Margir fulltrúanna á framsóknarþingi hafa vafalaust greitt ályktuninni um brottför hersins atkvæði af heilum hug. En um ýmsa þá forustumenn, sem hafa tögl og hagldir, þegar til framkvæmdanna kemur, gegnir öðru máli. Óttinn einber við dóm þjóðarinnar fyrir þjónkun þeirra við erlent vald hefur knúið þá til að láta undan í orði. Þó hafa þeir vaðið fyrir neðan sig og forma till. sína á þá leið, að eftir eru skildar útgöngudyr til að smjúga í gegnum, ef færi gæfist eftir kosningar. Og því má ekki gleyma, að þessir herrar, forustumenn í Alþfl. og Framsóknarfl., hafa áður svarið og sárt við lagt, en brugðizt þó gefnum heitum. Okkur er ekki úr minni liðið kjörorð Alþfl. fyrir kosningarnar 1949: „Aldrei herstöðvar á Íslandi á friðartímum“. Efndirnar komu 1951, þegar hernámssamningurinn var gerður. Einn er sá möguleiki, sem almenningur hefur til að knýja hernámsflokkana til algers undanhalds, ekki aðeins í orði, heldur og á borði; sá möguleiki er efling og aukið áhrifavald Þjóðvarnarflokks Íslands.

Hið þriðja atriði, sem athygli vekur í stjórnmálaályktun framsóknarþingsins, er sú ákvörðun að slíta stjórnarsamvinnunni við Sjálfstfl. og efna til kosninga í sumar. Jafnframt er felldur harður dómur yfir samstarfsflokknum og honum bornar á brýn ýmsar vammir og skammir. Síðan er svarið og sárt við lagt, að endurnýjun stjórnarsamvinnunnar komi ekki til mála. Ekki dreg ég það í efa, að margir af fulltrúum þeim, sem þingið sátu, mæla þetta af heilum hug. Mikill meiri hluti kjósenda Framsfl. vill tvímælalaust slíta allri sambúð við íhaldíð og taka upp heiðarlega og afdráttarlausa vinstri stefnu. En það hafa þeir áður viljað og gert samþykktir í sömu átt. En hver hefur árangurinn orðið? Hafa ekki forustumenn flokksins þrátt fyrir allar fyrri samþykktir framsóknarþinga hlaupið beina leið í faðm íhaldsins og myndað með því stjórn eftir kosningar? Mönnum er því spurn: Á nú ekki að endurtaka enn einu sinni gamla leikinn, hlaupast úr íhaldssamvinnunni og gerast býsna róttækir nokkra mánuði fram að kosningum, betla um atkvæði vinstri sinnaðra manna og bregða sér svo í íhaldsflatsængina eftír kosningar? Slíkan blekkingaleik er hægt að leika einu sinni, kannske tvisvar, en ekki endalaust.

Menn eru nú dýrkeyptri reynslu ríkari. Í kosningunum 1946 þóttist Framsfl. mikill íhaldsandstæðingur, og ef ég man rétt, var Alþfl. að burðast víð að láta líta svo út sem hann væri það líka. Eftir kosningar mynduðu þessir tveir flokkar stjórn með íhaldinu, Stefaníu sálugu, sem svo var kölluð. Fyrir kosningarnar 1949 gerðu framsóknarforingjarnir harða hríð að íhaldinu, sóru og sárt við lögðu, að samstjórn með því kæmi aldrei til greina. Að kosningum loknum voru allir svardagar gleymdir, og Framsókn og íhald mynduðu ríkisstjórnina Steingrímu. Fyrir kosningar 1953 gekk mikið á, eins og flestir muna. Flokksþing framsóknarmanna samþ. þá að slíta stjórnarsamvinnunni við íhaldið eftir kosningar. Sérstakt vantraust var samþ. á Bjarna Benediktsson í sæti dómsmrh. Eftir kosningar gekk Framsókn enn á ný í eina sæng með íhaldinu. Þá fæddist Ólafía, og Bjarni Benediktsson hefur verið dómsmrh. fyrir náð Framsóknar fram á þennan dag. Er ekki von, þótt margir spyrji: Á nú einu sinni enn að leika þennan leik, búa til baráttumál við íhaldið, þótt fram á þennan dag hafi ekki gengið þar hnífurinn á milli, reyna að fleka einlæga vinstri menn til stuðnings við bandalag hægri aflanna í Framsfl. og Alþfl., en láta síðan fallast í náðarfaðm íhaldsins að loknum kosningum? Svo mikið er víst, að Sjálfstfl. er ekki ýkja smeykur við það, sem nú er að gerast hjá Framsókn. Hann þykist þekkja allt sitt heimafólk. Í Morgunblaðinu í gær, þar sem rætt er um þá ákvörðun framsóknarþings að rjúfa stjórnarsamstarfið og efna til kosninga, er komizt svo að orði: „Þessi yfirlýsing Framsóknar þarf engum að koma á óvart. Það er háttur hinnar gömlu maddömu að ókyrrast í ríkisstj., þegar liður á kjörtímabil. Hún rauf samstarfið um samsteypustjórn Stefáns Jóh. Stefánssonar haustið 1949. Vorið 1953 lýsti flokksþing hennar yfir, að Framsfl. mundi rjúfa samstarfið við Sjálfstfl. og ráðh. hans segja af sér að kosningum loknum. Nú hefur sama sagan endurtekið sig.“ Þetta segir aðalmálgagn Sjálfstfl., og það má lesa það á milli línanna, að sagan muni endurtaka sig, ekki aðeins um það, sem gerist fyrir kosningar, heldur einnig um hitt, sem átt hefur sér stað eftir kosningar. Og því miður eru teikn á lofti, sem benda í þá átt, að hægri öflin í Framsfl. hafi fullan hug á að knýja fram þann vilja sinn að kosningum loknum, hvað sem öllum samþykktum líður. Naumast er það góðs viti, að eindregnustu vinstri mennirnir, sem áttu sæti í miðstjórn Framsfl., skyldu felldir frá kosningu í miðstjórn, svo að nú er miðstjórn flokksins skipuð eindregnara hægra liði en nokkru sinni fyrr.

Fjórða atriðið í flokksþingssamþykkt framsóknarmanna, sem ástæða er til að fara um nokkrum orðum, er sú ákvörðun að bjóða Alþfl. allsherjar kosningabandalag við kosningar á komanda sumri. Það er raunar vitað, að nú um margra mánaða skeið hafa hægri klíkurnar í þessum flokkum báðum setið að samningamakki um þess konar bandalag. Óttinn einber við stórfellt fylgishrun hefur knúið þessa herra til að leita slíks úrræðis. Nú á að halda að þjóðinni þeirri firru, að hrörnandi Framsfl., sem kemur beint upp úr íhaldsflatsænginni, ótútlegur og illa til reika, geti með tilstyrk hægra arms Alþfl. náð hreinum þingmeirihluta, og vesalings Alþfl., þ.e.a.s. sá hluti hans, sem þessu tilboði sinnir, á nú að halda upp á fertugsafmæli sitt á þann sérkennilega hátt að leggja sjálfan sig að miklu leyti niður, hætta að lifa sjálfstæðri tilveru, en gerast eins konar annexía Framsfl. Almenningur hefur þegar gefið þessu fyrirtæki hægri afla Framsóknar og Alþfl. nafnið Hræðslubandalagið, og er það sannnefni. Allir einlægir vinstri menn, sem fram til þessa hafa fylgt þessum tveimur flokkum, munu hugsa sig um tvisvar, áður en þeir láta enn einu sinni hafa sig til þess að lyfta gömlu, íhaldssömu og værukæru hækjuliði til áhrifa og valda, hækjuliði, sem alltaf hefur reynzt reiðubúið til þjónustu við flokk auðhyggju og afturhalds, þegar honum hefur legið á.

Sjálfstfl. svokallaði á nú i nokkurri vök að verjast þrátt fyrir allt. Stefna hans, sem mestu hefur ráðið í núverandi ríkisstj., hefur þegar leitt mikinn ófarnað yfir þjóðina. Eina von þessa flokks til áframhaldandi aðildar að stjórn landsins er sú, að hann eigi nógu dauðtryggt hækjulið innan hinna svokölluðu vinstri flokka. Enn er það á valdi einlægra íhaldsandstæðinga innan Framsfl. og Alþfl. að gera úrslitatilraun til að knýja fram myndun vinstri stjórnar, sem þegar tæki upp hina erfiðu glímu við vandamál þau, sem við er að etja, knýja fram myndun ríkisstj., sem starfaði til loka kjörtímabilsins og sýndi í verki, að áhrifum og sjónarmiðum íhaldsins hefði verið bægt frá, en viðreisn atvinnu- og efnahagslífs hafin með fulltingi vinnandi stétta til sjávar og sveita og hagsmuni alþjóðar fyrir augum. En mistakist þetta, þá er öllum alþýðusinnum og vinstri mönnum, hvar í flokki sem þeir hafa staðið, í sjálfsvald sett að láta ekki lengur nota atkvæði sitt til að lyfta íhaldi og íhaldshækjum upp í valdastóla.

Þjóðvarnarflokkur Íslands óttast ekki kosningar, hvenær sem þær verða. Tilvíst hans og barátta hefur þegar borið mikinn ávöxt. Hann mun reynast trúr þeirri stefnu, sem honum var mörkuð þegar í upphafi, að berjast gegn íhalds-og afturhaldsöflum þessa lands og leitast við að sameina hin veglausu vinstri öfl á grundvelli lýðræðislegs stjórnarfars til verndar sjálfstæði þjóðarinnar, eflingar atvinnuvega hennar, efnahagslífs og menningar.