15.03.1956
Neðri deild: 87. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 631 í C-deild Alþingistíðinda. (1976)

112. mál, kaup og útgerð togara til atvinnuframkvæmda

Gunnar Jóhannsson:

Herra forseti. Góðir tilheyrendur. Út af ummælum hv. 2. þm. N-M. um áhuga Framsfl. fyrir aukningu togaraflotans á nýsköpunarárunum vil ég benda þessum hv. þm. á, að núverandi hæstv. fjmrh. kallaði nýsköpunartogarana gums og lét blað sitt, Tímann,flytja hverja árásargreinina eftir aðra á þá ráðstöfun nýsköpunarstjórnarinnar að láta smíða 33 fullkomna togara. Þannig var stuðningur framsóknarmanna við þetta stórmál þá, hvað sem líður skoðun þeirra nú. Mætti segja, að batnandi mönnum sé bezt að lifa. Annars var auðheyrt á báðum þeim hv. þm. stjórnarliðsins, sem hér töluðu áðan, að kominn var í þá allmikill kosningaskjálfti, og láir það þeim enginn. Ferill þeirrar ríkisstj., sem syngur nú sitt síðasta vers, er með slíkum endemum, að einsdæmi mun vera. Spor þeirrar hæstv. ríkisstj. hræða, enda hefur annar aðalstuðningsflokkur hennar, Framsfl., yfirgefið hina strönduðu þjóðarskútu og leitar nú til pólitískra fanga á nýjum miðum.

Eitt af aðalstefnuskrármálum okkar sósíalista hefur verið og er stóraukning togaraflotans og alhliða uppbygging atvinnuveganna. Þing eftir þing hafa þm. flokks okkar flutt frv. hér á Alþ. um kaup á nýjum togurum, um nýsmíði togara innanlands og stuðning ríkis við bæjar og sveitarfélög til atvinnuframkvæmda. Ekkert af þessum frv. hefur þó náð fram að ganga. Þau hafa ekki einu sinni hlotið afgreiðslu í nefndum þingsins. Sömu sögu má segja um hliðstæð frv., sem þm. Alþfl. og Framsfl. hafa flutt um lík mál. Nú er þó svo komið, að þm. úr öllum flokkum, þar með talinn að nokkru leyti Sjálfstfl., telja sig vera fylgjandi aukningu togaraflotans, enda standa nú kosningar fyrir dyrum. Þykir það ekki vænlegt til væntanlegs kosningafylgis að beita sér á móti slíku máli. A hinu leikur nokkur vafi, hvort hugur fylgir máli, en úr því sker reynslan.

Í upphafi var togaraútgerð að mestu leyti rekin frá Reykjavík og Hafnarfirði, enda hefur atvinnulíf og fjárhagsafkoma alls almennings í þessum bæjum, svo og bæjarfélaganna sjálfra að miklu leyti byggzt á togaraútgerð. Eins og kunnugt er, voru keyptir til landsins 33 nýir togarar á nýsköpunarárunum. Síðar var svo samið um kaup á 10 togurum til viðbótar.

Síðan á árinu 1949 hefur enginn kaupsamningur verið gerður um smíði á togurum fyrir Íslendinga, ef frá er dreginn samningur um smíði á einum togara i Þýzkalandi í staðinn fyrir Egil rauða, sem strandaði. Ekki hefur þó togaraútgerð Reykjavíkurbæjar samið um kaup á skipi í staðinn fyrir togarann Jón Baldvinsson, sem strandaði fyrir ári. Bendir það ekki til mikils áhuga hjá foringjum Sjálfstfl. fyrir aukningu togaraflotans. Það virðist því vera kominn tími til þess, að farið sé að athuga fyrir alvöru um kaup á nýjum togurum.

Eftir kröfu ýmissa bæjarfélaga víðs vegar um land úthlutaði nýsköpunarstjórnin og fjárhags ráð 11 togurum til bæjarfélaga utan Reykjavíkur og Hafnarfjarðar eða hlutafélaga, sem bæjirnir voru hluthafar í. Síðan hefur tala þeirra togara, sem eru gerðir út frá stöðum utan Reykjavíkur og Hafnarfjarðar, hækkað allverulega. Það er máske óþarfi að lýsa þeirri hrifningaröldu, sem greip hugi fólksins á hinum ýmsu stöðum úti á landi, þegar hin nýju og glæsilegu skip sigldu til hafnar í fyrsta sinn. Við komu þessara glæsilegu togara glæddust vonir fólksins um aukna atvinnu, betra líf og meiri framfarir. Á sumum þessara staða var atvinnuleysið í algleymingi, og alger auðn og flótti vofði yfir heilum byggðarlögum, enda hafði síldarleysi og aflatregða herjað byggðarlögin árum saman. Fyrstu árin sigldu togararnir nokkrar ferðir til Englands og Þýzkalands með aflann. Þessar söluferðir gáfust misjafnlega, og í mörgum tilfellum var um stórtap að ræða. Það var ekki fyrr en Englendingarnir settu á hið margumtalaða löndunarbann, að farið var að vinna úr aflanum hér heima í stórum stil til hraðfrystingar. Hagstæðir markaðir fengust fyrir mikið magn af hraðfrystum fiskflökum í Rússlandi og fleiri sjávarafurðum auk þeirra markaða, sem fyrir voru í öðrum löndum.

Löndunarbann ensku útgerðarmannanna varð því til þess að stórauka atvinnu verkafólks í landi og til aukins gjaldeyris í þjóðarbúið. Talið er, að togarafarmur, sem lagður er á land til vinnslu í hraðfrystihúsi, gefi i vinnulaun yfir 200 þús. kr., þar með talin öll vinna við fiskinn og fiskúrgang, frá því að hann er lagður á land og þar til afurðirnar eru fluttar um borð í skip til útflutnings, svo og ýmis vinna við skip og veiðarfæri. Í þessu sambandi má minna á, að togararnir hafa svo að segja á hverju árifundið ný fiskimið eða sótt á fjarlæg mið til veiða, svo sem við Grænland og víðar, þar sem skipin hafa ausið upp tugum milljóna verðmæta, sem áhugsandi hefði verið að Íslendingar hefðu getað notað sér án þess að eiga fullkomna togara. Þetta sýnir, hve stórvirk atvinnutæki togararnir eru og hvers mætti vænta til úrbóta á atvinnuleysi sjávarþorpanna víðs vegar um land, ef togaraflotinn væri aukinn um 15 skip og þau látin leggja upp afla til vinnslu á þeim stöðum, þar sem fólk býr nú við stöðugt atvinnuleysi 4–6 mánuði ár hvert. Með slíkri stóraukningu togaraflotans mundu svo gjaldeyristekjur þjóðarinnar vaxa á annað hundrað milljóna.

Það er því furðulegt, að til skuli vera íslenzkir menn, sem telja það til stórkostlegs taps fyrir land og þjóð, að Englendingar skyldu setja löndunarbann á íslenzkan togarafisk. Það er í sjálfu sér einkamál Englendinganna sjálfra, hvort þeir vilja kaupa ísvarinn fisk af íslenzkum togurum.a.m.k. verður ekki séð, að það sé hagsmunamál fyrir íslenzkt verkafólk. Fyrir togaraeigendurna sjálfa er slík verzlun hið mesta happdrætti, þar sem fiskurinn er ekki seldur á föstu verði, heldur á uppboði og þá oft og tíðum við hin verstu skilyrði. Ekki verður útkoman glæsilegri, ef athuguð er gjaldeyrishlið málsins. Þar hef ég sýnt fram á, að gjaldeyrisverðmæti af afla eins togara, sem leggur upp fisk til yinnslu hérlendis og stundar veiðar allt árið, sé um 11-12 millj. kr. yfir árið. Togari, sem eingöngu selur á erlendum markaði ísfisk og fer 12 söluferðir yfir árið og selur að meðaltali fyrir 8500 sterlingspund í túr, gefur i heimkominn gjaldeyri um 4 millj. kr. Mismunurinn verður því hvorki meira né minna en 7–8 millj. kr. á skip. Af þessu sést, að stórfellt gjaldeyristap hlýzt af því, ef togaraflotinn færi aftur að sigla með afla sinn til sölu á erlenda markaði að nokkru ráði.

Til viðbótar hinu mikla gjaldeyristapi kæmi svo, eins og ég hef áður bent á, geigvænlegt atvinnuleysi á þeim stöðum, þar sem togararnir hafa lagt upp afla sinn til vinnslu.

Ég held, að þeir menn, sem nú standa í samningamakki við enska útgerðarmenn um að fá upphafið löndunarbannið fyrir íslenzkan togarafisk, séu að vinna allt annað en þarft verk, að maður nú ekki tali um það, ef á móti ættu svo að koma skuldbindingar í sambandi við landhelgismál, Íslendingum í óhag, en á því er yfirvofandi hætta, hvað sem líður svardögum og fullyrðingum hv. þm. N-Ísf. hér áðan.

Því er mjög á lofti haldið, að togaraflotinn sé rekinn með stórfelldu tapi og af þeim ástæðum sé hin mesta fjarstæða að auka togaraflota landsmanna frá því, sem nú er.

Með nýjum lögum frá Alþ. er svo ráð fyrir gert, að greiddar verði í ár með hverjum togara 5000 kr. á hvern úthaldsdag. Þessi styrkur mun koma til með að nema yfir 1~1/2 millj. kr. á hvert skip, eða samtals 66 millj. kr. yfir árið. Enginn neitar því, að þetta er há upphæð. Í sambandi við togararekstur er rétt að athuga þá fjárhagslegu aðstoð, sem fiskibátafloti landsmanna fær. Í ársbyrjun 1951 var settur á svokallaður bátagjaldeyrir til stuðnings bátaútveginum. Þessi aðstoð til bátaflotans hefur numið að meðaltali yfir 100 millj. kr. ár hvert, en í ár eru líkur fyrir því, að þessi aðstoð verði ekki undir 180 millj. kr., þar með taldar væntanlegar uppbætur á síld, veidda við Suðvesturland og í Austurdjúpi, sem eru áætlaðar 10 millj. kr.

Minna má á, að togararnir hafa ekki notið neinnar fjárhagslegrar aðstoðar þar til á s.l. ári, að þeim voru greiddar 2000 kr. á hvern úthaldsdag. Togaraflotinn fiskar tæpan helming af öllu fiskmagni Íslendinga. Þessi hlutföll geta að sjálfsögðu breytzt bátaflotanum í hag, ef t.d. síldin færi að fiskast fyrir Norðurlandi. Þá hefur og bátaflotinn aukizt allverulega hin síðari ár, á sama tíma sem togurunum hefur fækkað. Eykur þetta að sjálfsögðu fiskimagn bátaflotans.

Þessi dæmi sýna, að þrátt fyrir 5000 kr. styrkinn á dag til hvers togara, sem stundar veiðar, nemur sú aðstoð þó helmingi lægri upphæð á hvert fiskikíló en sá styrkur, sem bátaflotinn fær.

Samanburður sá, sem hér hefur verið gerður á rekstri togaranna annars vegar og rekstri bátaflotans hins vegar, sýnir, að útgerð togaranna er þrátt fyrir allt hagstæðari fyrir þjóðarheildina en bátaútgerðin. Vert er og að hafa það í huga, er rætt er um þessi mál, að það er miklum örðugleikum bundið að gera út fiskibáta frá Vestfjörðum, Norðurlandi og Austfjörðum frá heimahöfnum yfir vetrarvertíðina. Veldur þar mestu um hin mikla aflatregða, sem verið hefur á þessum stöðum mörg undanfarin ár. Flestir stærstu mótorbátar þessara staða eru því gerðir út héðan frá höfnum við Faxaflóa, Vestmannaeyjum og sjávarþorpunum við Breiðafjörð. Það liggur því ljóst fyrir, að þessi skip geta ekki aukið atvinnu í landi í heimahöfn yfir vetrarvertíðina. Á þessu mundi þó verða stórbreyting til batnaðar, ef landhelgislínan yrði færð út. Með slíkri ráðstöfun mundu stórlega vaxa líkurnar fyrir auknum aflabrögðum fyrir fiskibátana, sem þar eiga heima, en stækkun landhelgislinunnar er langstærsta hagsmunamál Íslendinga. En svo merkilegt sem það kann að virðast, hefur þó hæstv. ríkisstj. stöðvað allar umr. um það mál á Alþ. Og þrátt fyrir það að 16 alþm. fjögurra flokka hafi verið með að flytja breytingartillögur um stækkun núverandi landhelgislinu, hafa þessi mál ekki fengizt afgr.

Vegna stærðar og ganghraða togaranna er það engum sérstökum erfiðleikum bundið að leggja upp afla hvar sem er á landinu, þar sem á annað borð eru til löndunarskilyrði og vinnslumöguleikar í landi. Það er því óumdeilanlegt, að aukning togaraflotans sé mikið hagsmunamál fyrir sjávarþorpin utan Reykjavíkur og eina raunhæfa leiðin, eins og nú er, til að bæta úr hinu mikla landlæga atvinnuleysi, sem er í mörgum bæjum og sjávarþorpum. Margt bendir þó til þess, að hæstv. ríkisstj. liti allt öðrum augum á þetta mál og telji það litla nauðsyn að auka togaraflota landsmanna. Eitt er víst, og það er, að hún lætur sig það litlu skipta, þótt atvinnuleysi sé algert í sumum sjávarþorpum marga mánuði ár hvert. Í bezta tilfelli úthlutar hæstv. fjmrh. nokkrum tugum þúsunda kr. af atvinnubótafé til pólitískra gæðinga og máske til þeirra staða, sem verst eru staddir. Aðstoð þessi er í langflestum tilfellum það lítil, að engin raunhæf lausn fæst á ástandinu og atvinnuleysið er jafntilfinnanlegt eftir sem áður.

Í sambandi við aðgerðaleysi hæstv. ríkisstj. í því að leysa atvinnuvandræði hinna ýmsu byggðarlaga er rétt að benda á eftirfarandi dæmi:

Í Reykjavíkurhöfn hefur legið einn af nýsköpunartogurunum í fjárhagslegu reiðileysi. Að nafninu til mun togari þessi vera talinn í eigu Keflavíkurbæjar. Nú virðist ekkert hafa verið sjálfsagðara en að ríkisstj. hefði yfirtekið skipið og gert það út til veiða og látið það leggja upp aflann á þeim stöðum, þar sem mest var þörf fyrir aukna atvinnu. Ef ríkisstj. hefði ekki talið sig hafa umboð til slíkrar útgerðar, var henni í lófa lagið að gefa út bráðabirgðalög þar um.a.m.k. var hæstv. félmrh. ekki hikandi við að gefa út bráðabirgðalög til að ógilda löglega kjörskrá i Kópavogshreppi í sambandi við bæjarstjórnarkosningarnar, sem þar fóru fram í haust. Ef þetta skip hefði nú verið gert út á vegum ríkisins þann tíma, sem það er búið að liggja ónotað í Reykjavikurhöfn, og látið leggja upp afla sinn til vinnslu t.d. í sjávarþorpunum í Strandasýslu og Húnavatnssýslu, en þar mun nú vera eitt versta atvinnuástand hér, hefði verið hægt að veita verkafólki á þessum stöðum stöðuga atvinnu fyrir milljónir króna á ári, auk þess hefði svo togarinn lagt til þjóðarbúsins nokkrar millj. kr. í auknum gjaldeyri.

Í sambandi við aukningu togaraflotans er rétt að benda á þá staðreynd, að í bæjum eins og t.d. Ísafirði, Siglufirði og Akureyri er togaraútgerðin orðin einn stærsti og öruggasti atvinnuvegur þessara bæjarfélaga. En þrátt fyrir það að t.d. séu gerðir út tveir togarar frá Siglufirði með siglfirzkum sjómönnum og þrátt fyrir það að togararnir leggi upp afla sinn að staðaldri til vinnslu í landi, er langt frá því, að atvinnuástandið sé þar viðunandi. Á hverjum vetri verður mikill fjöldi af dugandi verkafólki að sækja atvinnu sína til verstöðvanna hér við Faxaflóa og víðar. Þannig er atvinnuástandið í flestum bæjum og sjávarþorpum á Vestur-, Norður- og Austurlandi. Úr þessu ástandi verður ekki bætt á neinn raunhæfari hátt en þann, að til þessara landsfjórðunga fáist nokkrir nýir togarar til viðbótar, sem svo verði gerðir út af bæjarfélögunum, hlutafélögum eða ríkinu til atvinnujöfnunar.

Fjórði og síðasti efniskafli frv. er um stuðning ríkisins við bæjar- og sveitarfélög til atvinnuframkvæmda. Í þessum kafla er lagt til, að ríkissjóður taki 50 millj. kr. lán, sem endurlánað verði bæjar- og sveitarfélögum, fyrst og fremst til þess að koma upp mest aðkallandi framkvæmdum til framtíðarúrbóta í atvinnumálum. Augljóst er, að margir útgerðarstaðir mundu, ef þeir ættu þess kost, gera nauðsynlegar umbætur og nýbyggingar til þess að tryggja sér togarafisk til vinnslu. Þessi kafli frv. er því f beinu framhaldi af hinum fyrri og nauðsynlegur þáttur í því, að hægt sé að auka togaraútgerð í hinum ýmsu bæjum og sjávarþorpum, sem verst eru á vegi stödd með atvinnu. Án fjárhagslegrar aðstoðar hins opinbera geta fæst bæjar- og sveitarfélög lagt út í slíkar framkvæmdir.

Oft heyrist um það talað, að það sé hin mesta fásinna, jafnvel fjárhagslegt glapræði að auka togaraflotann frá því, sem nú er, hér sé öll útgerð rekin með stórtapi og ríkisstyrk. Jafnvel þótt gengið sé út frá því, að um taprekstur yrði að ræða hjá togaraútgerðinni, á þetta frv. fyllsta rétt á sér. Með því er, ef að lögum yrði, ráðizt á eina alvarlegustu meinsemd í okkar þjóðfélagi, atvinnuleysið. Það kostar þjóðina tugi milljóna króna, að hundruð og þúsundir verkamanna skuli þurfa að ganga atvinnulausir mánuð eftir mánuð ár hvert, en úr því mundi verða bætt með þeim framkvæmdum, sem gert er ráð fyrir í frv.

Það er oft um það talað, að gera þurfi raunhæfar ráðstafanir til að halda við jafnvægi í byggð landsins og stöðva flóttann til Suðurlandsins. Samþykkt og framkvæmd þessa frv. er ábyggilega raunhæfasta leiðin til úrbóta í þessu máli.

Þá er það gömul og ný mótbára á móti flestum nýjum framkvæmdum, að ekki séu til peningar. Það má vel vera, að örðugleikar séu á því að fá innanlandslán til slíkra framkvæmda, eins og nú er á þeim málum haldið hjá aðalbönkum landsins. Hins vegar eru miklir möguleikar til að útvega fjármagn erlendis til að koma í framkvæmd togarakaupum þeim, sem gert er ráð fyrir í frv. Kunnugir menn telja t.d., að hægt muni vera að semja um smíði á tíu eða fleiri skipum i Austur-Þýzkalandi með skjótum afgreiðslutíma og að greiðsla fyrir skipin gæti farið fram í sjávarafurðum. Enn fremur er ekkert líklegra en að þau lönd, sem eru stórkaupendur að hraðfrystum fiski okkar, mundu fáanleg til að lána fé í sama tilgangi, sem fengist svo að endurgreiða með sjávarafla.

Ein aðalmótbáran, sem komið hefur fram á móti aukningu togaraflotans, er sú, að ekki fáist einu sinni menn á þá togara, sem fyrir eru, hvað þá heldur á 15 skip í viðbót. Hér er komið að einni alvarlegustu hlið þessa máls. Þessa örðugleika geta engir leyst nema Íslendingar sjálfir. Það má telja nokkurn veginn öruggt, að með því að afhenda fleiri togara út á land og þá til staða, þar sem fyrir er atvinnuleysi, mundu fjölmargir sjómenn fást á skipin. Það sýna okkur dæmin frá Ísafirði, Siglufirði, Ólafsfirði, Akureyri og Austfjörðum. Áður en togaraútgerð hófst á þessum stöðum, var það undantekning, að sjómenn frá þessum plássum væru á togurum hér sunnanlands. Á tiltölulega stuttum tíma hafa þarna alizt upp ágætis togarasjómenn, og í sumum tilfellum fá færri menn pláss á togurum þessara staða en þess óska.

Í þessu sambandi verður ekki hjá því komizt að benda á þá nöpru staðreynd, að á sama tíma sem aðalatvinnuvegir þjóðarinnar eru í vandræðum með að fá fólk til að vinna að framleiðslunni og eru neyddir til að flytja inn erlenda sjómenn og verkamenn, eru þúsundir Íslendinga hafðar í vinnu suður á Keflavíkurflugvelli og víðar til byggingar hernaðarmannvirkja. Slíkt ástand er áþolandi og öllum hugsandi mönnum hið mesta áhyggjuefni. Þetta verður að breytast og það fyrr en síðar. Hernaðarvinnunni verður að hætta, og það ágæta fólk, sem þar vinnur, verður að taka upp störf við okkar gömlu og góðu atvinnuvegi.

Til þess að tryggja, að hægt verði að fá nægilega marga dugandi sjómenn bæði á bátaflotann og togarana, verða kjör fiskimanna að stórbatna frá því, sem nú er. Það þarf að búa þannig að íslenzkri fiskimannastétt, að það verði eftirsóknarvert að verða sjómaður á togara eða mótorbát. Það eru augljós sannindi, að Íslendingar geta ekki lifað í landi hér, nema til séu á hverjum tíma nægilega margir menn, sem vilja stunda sjómennsku. Þetta er staðreynd, sem ekki þýðir að ganga fram hjá. Störf fiskimannanna verður þjóðfélagið að meta að verðleikum, ekki aðeins í orði, heldur og í verki. Gamall togaraskipstjóri, sem líka var togaraeigandi, sagði einu sinni við mig, að sér hefði alltaf fundizt það skylda hins opinbera að veita sjómönnum stórkostleg skattfríðindi. Þessi maður vissi vel, hvað hann var að segja, og honum var fullljóst í gegnum starf sitt í mörg ár, hvers virði sjómenn og sjómannastéttin er fyrir þjóðfélagið. Ég er þess fullvíss, að ef fiskimenn fengju slík fríðindi, mundi ástandið stórum batna frá því, sem nú er. Þetta hefur Sósfl. verið ljóst, enda hafa þm. flokksins flutt frv. um skattfríðindi ár eftir ár til handa sjómönnum án þess að fá kröfum þessum framgengt. Þá er og sjálfsagt að veita þeim togarasjómönnum, sem þá atvinnu stunda að staðaldri, stóraukna aðstöðu til húsbygginga, t.d. á sama hátt og lagt er til í frv. hv. 2. þm. Reykv, Einars Olgeirssonar, og fleiri þm. Sósfl. um lífeyrissjóð togarasjómanna. Slíkar ráðstafanir frá hendi þess opinbera mundu stórlega bæta ástandið í þessum efnum frá því, sem nú er. Auk þess kæmi svo til greina margt annað, svo sem hærra kaup og meira frí.

Ég hef nú rætt þetta frv. að nokkru. Ég hef sýnt fram á, hvílíkri gerbreytingu það mundi valda í atvinnulífi fólksins úti á landsbyggðinni, sem nú býr við atvinnuleysi, ef það næði fram að ganga, og að aukning togaraflotans er langstærsta og raunhæfasta leiðin til þess að bæta úr því ömurlega atvinnuástandi, sem víða ríkir. Sýnt hefur verið fram á, hvílík reginvilla það væri, ef íslenzkir togarar færu að staðaldri að sigla með afla sinn til sölu á erlendum markaði. Slíkt mundi kalla yfir heil héruð stóraukið atvinnuleysi. Auk þess mundi það þýða stórkostlega rýrðar gjaldeyristekjur.

Í hinni stórmerku og djörfu stefnuyfirlýsingu Alþýðusambands Íslands segir m.a.:

„Þegar í stað verði gerðar ráðstafanir til að kaupa erlendis og byggja innanlands allt að 20 togurum, og séu þeir gerðir út af ríkinu og bæjarfélögum með það höfuðmark fyrir augum að tryggja atvinnujafnvægi og atvinnuöryggi um allt land.“

Með þessari samþykkt hafa verkalýðssamtökin gert þessi mál að sinu máli, og það mega þeir menn vita, sem torvelda vilja framgang þessa frv., að verkalýðsfélögin munu fyrr eða síðar knýja það fram. Verkalýðssamtökin munu sjá til þess, að hver einasti frambjóðandi í væntanlegum þingkosningum muni verða að því spurður, hver sé afstaða hans og hans flokks til þessa máls.

Að þessu frv. standa nú þm. úr fjórum flokkum. Það mætti ætla, að þessu frv. væri þegar tryggður þingmeirihluti. Við sósíalistar teljum það vera prófstein á heilindi stjórnmálaflokkanna hér á Alþ. til eins mesta vandamáls okkar þjóðfélags, atvinnuleysisins, hvaða afstöðu þeir taka til þessa frv. Verkafólkið í hinum ýmsu sjávarþorpum víðs vegar um land, sem býr við atvinnuleysi marga mánuði ár hvert, mun fylgjast með því, hvaða afgreiðslu málið fær hér á Alþ. Alþýðan um allar byggðir Íslands er orðin langþreytt á fögrum loforðum ríkisstjórnarflokkanna. Hún krefst nýrrar stjórnarstefnu, sem bindi enda á það ófremdarástand, sem ríkir á flestum sviðum þjóðlífs okkar í dag. En fyrst og fremst krefst verkafólkið þess, hvar sem það á heima, hvort sem það er hér sunnanlands, vestur á Fjörðum, norður i Norðurlandi eða á Austfjörðum, að fá örugga atvinnu við lífræn framleiðslustörf. Þessi krafa verður aldrei látin niður falla, meðan fyrirfinnst atvinnulaust verkafólk á Íslandi, sem vill og getur unnið, Um gervalla byggð Íslands, frá yztu annesjum og fram til dala, rís krafan um aukna samvinnu og samstarf milli hins vinnandi fólks hærra og hærra. Einyrkjabændur í sveitum landsins, sjómenn á hafi úti og landverkafólk krefjast þess í þúsundatali, að stjórnmálasamtök vinstri flokkanna allra taki höndum saman og myndi ríkisstj., sem hafi að stefnuskrá alhliða endurbætur og nýsköpun á sem flestum sviðum á grundvelli stefnuyfirlýsingar Alþýðusambands Íslands. Hið vinnandi fólk til sjávar og sveitar krefst þess, að hinum pólitísku hjaðningavígum milli þeirra flokka, sem telja sig vera stjórnmálasamtök alþýðunnar, sé hætt og í staðinn fyrir flokkadeilur komi samstarf og samhugur um hagsmunamál hins vinnandi fólks. Afturhaldsöflin óttast hina vaxandi samfylkingaröldu alþýðunnar, þau skelfast við þá tilhugsun að missa völd sín og áhrif. Vinnandi stéttir Íslands, verið þess minnugar, að það eruð þið, sem öll velferð þjóðfélagsins hvílir á. Alþýðustéttir Íslands, sameinizt. –Góða nótt.