15.03.1956
Neðri deild: 87. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 643 í C-deild Alþingistíðinda. (1978)

112. mál, kaup og útgerð togara til atvinnuframkvæmda

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Ég ætla nú ekki að tala hér um nýsköpunarstjórnina sálugu og ekki heldur um hið mikla hlutverk Þjóðvarnarflokks Íslands í sögu þjóðarinnar, sem hér var verið að lýsa áðan með nokkrum vel völdum orðum. En ég ætla að segja það við hv. þm. N-Ísf., að ég held, að hann eða Sjálfstfl. í Vestur-Ísafjarðarsýslu hafi ekkert upp úr því að ráðast á Eirík Þorsteinsson, hv. þm. V-Ísf., nú eftir að hann getur ekki svarað fyrir sig, út af togaranum á Þingeyri. Það mun vera rétt, að útgerð þessa togara hafi ekki gengið vel. Þetta var gamall togari frá því fyrir stríð, og sams konar togari, sem fenginn var til Skagastrandar á sama tíma, var nýlega seldur sem brotajárn, eftir því sem mér er sagt. Það hafa ekki verið birtir rekstrarreikningar þessa gamla Þingeyrartogara, sem nú er á Flateyri. Hann er þar eign manns, sem hefur mikið í veltunni og rekur þar fleiri en eitt hraðfrystihús, og er það kannske skýringin á því, að hann er enn í rekstri. En svo vita allir, hvernig sjálfir nýsköpunartogararnir ganga nú.

Út af því, sem hv. 9. landsk., Karl Guðjónsson, sagði um störf okkar Gísla Jónssonar, skal ég aðeins geta þess, að við höfum nýlega sent til ríkisstjórnarinnar frv. til laga um ráðstafanir til að stuðla að jafnvægi í byggð landsins, og geri ég ráð fyrir, að það frv. verði lagt fram.

Það er mín skoðun og þeirra, sem svipað hugsa um það mál, sem hér er til meðferðar, að þegar rætt er um að bæta nýjum skipum við togaraflotann, eigi það fyrst og fremst að vera með tilliti til þess að koma í veg fyrir fólksstraum suður að Faxaflóa úr sjávarbyggðunum norðan-, austan- og vestanlands. Efling atvinnulífsins í þeim 8 kaupstöðum og 30 sjávarþorpum öðrum, sem á þessu svæði eru, er mikilsverð til þess að stuðla að jafnvægi í byggð landsins. Í mörgum þessara sjávarplássa hefur í seinni tíð verið komið upp mannvirkjum í landi til hagnýtingar sjávaraflans og atvinnuaukningar. Mörg þessara nýju fiskiðjuvera berjast í bökkum, af því að þau hafa ekki nægan fisk til vinnslu eða verkunar og af því að vinnsla á smáfiski, ýsu og steinbít hefur verið þeim óhagstæð fjárhagslega. En almenningur á mikið undir því, að þessi atvinnutæki séu rekin og helzt sem lengstan tíma ársins. Í lögum frá þessu þingi var að tilhlutan Framsfl. ákveðin sérstök uppbót á þessar fisktegundir, smáfiskinn, steinbítinn og ýsuna, til hraðfrystihúsanna, sem ekki hefur áður verið, nema að nokkru leyti á ýsu, en ella hefðu þessar fisktegundir lækkað í verði til sjómanna. Þetta mun vera til mikils gagns fyrir mörg sjávarpláss í umræddum landshlutum. En jafnframt hafa margir áhuga á því úrræði að fá togarafisk til vinnslu. Til þess þarf sums staðar að bæta hafnarskilyrði. Og svo er annað: Hvernig eiga fámenn sjávarpláss og fátæk að geta ráðið við það að nota sér togaraútgerð, þegar eitt skip kostar, segjum 10 eða 12 millj., og hvernig eiga þau að ráða við rekstur á slíku skipi? Framsfl. hallast samkvæmt stefnu sinni og lífsskoðun að félagsútgerð í þessu skyni, og er þá spurningin, hvort nokkur félagsskapur reynist nógu öflugur til þessa nema sá, sem víðtækastur er, þ. e. a. s. félag þjóðarinnar allrar.

Ég er því fylgjandi og mínir flokksmenn, að þessu frv. verði vísað til 2. umr. og til gaumgæfilegrar athugunar í n., eins og gert hefur verið um önnur slík mál. En varla mun hér verða af gagnlegum framkvæmdum, nema takast megi að breyta núverandi ástandi í málum þjóðarinnar.

Vel mætti ræða fleira í þessu sambandi, t. d., hversu mikilsvert það er fyrir Norður- og Austurland, að haldið sé uppi skipulagðri leit að fiskimiðum á hinu víðáttumikla grunnsævi fyrir norðan land og austan. En um þetta efni fluttum við nokkrir þm. Framsfl. úr þessum landshlutum till. til þál. og fengum samþ. á þingi í fyrravetur, og það var framkvæmd nokkur fiskimiðaleit s. l. sumar, eins og kunnugt er.

Um útfærslu friðunarlínunnar hefur hv. þm. V-Ísf., Eiríkur Þorsteinsson, rætt hér í kvöld, en á það mun nú verða að hætta að hefja einhverjar aðgerðir í því máli, jafnskjótt sem hentugt þykir. Ég tel ekki svaraverð ýmis ummæli, sem hér hafa fallið í kvöld varðandi það, sem fram hefur farið í því máli undanfarið.

Í umr. í kvöld hefur verið vikið að ályktunum þeim, er gerðar voru á flokksþingi framsóknarmanna, sem nú er nýlokið. Ég mun því af þessu tilefni nota nokkuð af ræðutíma mínum til þess að segja frá meginatriðum í stjórnmálayfirlýsingu þeirri, sem samþykkt var við atkvgr. samhljóða á sjötta degi flokksþingsins aðfaranótt þriðjudags í þessari viku. Ég skal geta þess, að þetta flokksþing var hið fjölmennasta, sem haldið hefur verið, og var sótt þangað mjög almennt hvarvetna af landinu, en samtals mættu þar rúml. 400 fulltrúar með atkvæðisrétti. Það er því að vonum, að flokksþinginu og störfum þess hefur verið veitt mikil athygli um gervallt landið, en það heyrði ég fulltrúa segja, langt að komna, sem setið hafa á mörgum flokksþingum, að þeim yrði ógleymanlegur sá samhugur og sú eining, er þar varð um málalyktir.

Það eru einkum tvö atriði í stjórnmálayfirlýsingu flokksþingsins, sem mesta athygli hafa vakið og nú eru mest rædd: 1) Ályktun þess varðandi brottför varnarliðsins, sem dvalið hefur hér á landi. 2) Ályktunin um efnahagsmálin, nauðsyn á nýju pólitísku samstarfi og kosningar á næsta sumri.

Ályktun flokksþingsins varðandi brottför varnarliðsins er orðrétt á þessa leið:

„Með hliðsjón af breyttum viðhorfum, síðan varnarsamningurinn frá 1951 var gerður, og með tilliti til yfirlýsinga um, að eigi skuli vera erlendur her á Íslandi á friðartímum, verði þegar hafin endurskoðun á þeirri skipan, sem þá var tekin upp, með það fyrir augum, að Íslendingar annist sjálfir gæzlu og viðhald varnarmannvirkja, þó ekki hernaðarstörf, og að varnarliðið hverfi úr landi. Fáist ekki samkomulag um þessa breytingu, verði málinu fylgt eftir með uppsögn samkvæmt 7. gr. samningsins.“

Ég vil aðeins bæta því við, að þessi mikilvæga ákvörðun var tekin á flokksþinginu að mjög vandlega athuguðu máli með hliðsjón af breyttu ástandi í alþjóðamálum og þeirri stefnu, sem flokkurinn tók í öndverðu, að hér ætti ekki að vera varnarlið í landi, nema um ófrið eða yfirvofandi ófriðarhættu væri að ræða. Við þetta var líka gerð varnarsamningsins miðuð og einhliða uppsagnarákvæði í hann sett.

Þetta er um varnarsamninginn. En áliti sínu á núverandi ástandi í efnahagsmálum og stjórnmálum lýsti flokksþingið m. a. á þessa leið, eftir að gerð hafði verið grein fyrir áhrifum Sjálfstfl. á tiltekna þætti stjórnarfarsins, orðrétt úr yfirlýsingunni :

„Í stað jafnvægis, sem ríkt hafði, hefur nú skapazt hið alvarlegasta ástand í atvinnulífinu, sem m. a. kom fram í verðhækkun innlendrar framleiðslu og stórauknum álögum á þjóðina með löggjöf í byrjun þessa árs. Þjóðin býr nú við römmustu gjaldeyrishöft, þótt frelsi sé í orði. Fram undan eru verðhækkanir, sem enn auka framfærslu- og framleiðslukostnað og skapa nýjan vanda. Fjármagnsmyndun hefur á ný dregizt stórlega saman á þessu ári. Reynslan hefur ótvírætt sýnt, að hinn aðsteðjandi vandi efnahagsmálanna verður ekki leystur af stjórn, sem styðst við Sjálfstæðisflokkinn.“ — Og enn fremur: „Það er skoðun flokksþingsins, að með öllu sé óverjandi, að landsmenn bíði aðgerðalausir á stjórnmálasviðinu í því stundarhléi, sem nú kann að verða vegna ráðstafana þeirra, sem gerðar hafa verið til bráðabirgða til þess að koma í veg fyrir stöðvun framleiðslunnar. Þvert á móti telur flokksþingið skylt að horfast í augu við erfiðleika komandi tíma. Telur flokksþingið óhjákvæmilegt og sjálfsagt, að Framsfl. beiti sér nú þegar fyrir því, að komið verði á nýju stjórnmálasamstarfi til lausnar þeim mikla vanda, sem fram undan er, og að afla slíku samstarfi nægilegs fylgis meðal þjóðarinnar. Framsóknarflokkurinn er enn sem fyrr þeirrar skoðunar, að þess sé ekki að vænta, að jafnvægi náist til frambúðar í þjóðarbúskapnum og að grundvöllur verði lagður að öruggri framfarastefnu, nema því aðeins að hinar vinnandi stéttir við sjávarsíðuna eigi sinn eðlilega þátt í því að móta stjórnarstefnu og bera ábyrgð á henni. Flokksþinginu er ljóst, að höfuðnauðsyn beri til, að nýtt viðhorf í þessa átt skapist nú sem fyrst, áður en holskefla sú, sem nú er risin, ríður yfir efnahags- og atvinnulíf landsins. Enn fremur er þinginu ljóst, að til þess að hið nýja viðhorf skapist, þarf að efna til nýrra kosninga nú á næsta sumri, og að við þær kosningar þurfa lýðræðissinnaðir umbótamenn að haga svo baráttu sinni og vinnuaðferðum, að því fólki, sem styrkja vill þriðja aflið í stjórnmálum landsins, takist að samstilla krafta sína og tryggja sér hreinan meiri hluta á Alþingi.“ — Og enn fremur: „Með skírskotun til alls þessa telur flokksþingið ekki fært að halda áfram núverandi stjórnarsamvinnu og ályktar, að flokkurinn beiti sér fyrir því, að þjóðinni gefist kostur á að ganga til kosninga á næsta sumri. Jafnframt ákveður flokksþingið að bjóða Alþfl. samstarf í kosningunum í þeim tilgangi að skapa aðstöðu til þess, að þessir flokkar sameiginlega hafi meiri hluta á Alþingi, enda náist samkomulag milli þeirra fyrir fram um sameiginlega stefnuskrá í kosningum og framkvæmd hennar. Heitir flokksþingið á alla þá, er sjá nauðsyn þjóðlegrar og almennrar samfylkingar umbótamanna gegn sérhagsmunastefnu Sjálfstfl. og sundrungaröflum, að styðja samfylkingu Framsfl. og Alþfl. í kosningunum, hverjum sem þeir kunna áður að hafa fylgt að málum.“

Þess skal að lokum getið, að flokksþingið samþykkti það sem fyrsta stefnuskrármál ríkisstj., er flokkurinn stæði að eftir kosningar, að hafa samstarf við félagssamtök bænda, verkamanna, vinnandi framleiðenda við sjóinn og opinberra starfsmanna um grundvallaratriði í kaupgjalds- og verðlagsmálum og um það takmark að efla atvinnuvegi landsmanna, tryggja stöðuga atvinnu og traust fjármálakerfi.

Tími minn er stuttur. Ég hef valið þann kost að láta ályktanir flokksþingsins sjálfar tala með óbreyttum orðum. Það hefur verið minnzt svo oft á þetta flokksþing í kvöld. Stjórnmálaályktunin hefur þegar verið birt í heilu lagi í aðalblaði Framsóknarflokksins. Fulltrúar úr kjördæmum landsins, þeir er þingið sátu, eru nú heim komnir eða á heimleið og geta gefið skýrslur um þær umr., sem fram fóru á flokksþinginu. Um það þurfa framsóknarmenn úti um land ekki sögusagnir manna úr öðrum flokkum, hvorki í þessum útvarpsumræðum né annars staðar. Fulltrúar úr öllum kjördæmum landsins áttu sæti í stjórnmálanefndinni, sem starfaði á þinginu og gerði till. um efni og orðalag þeirrar yfirlýsingar, er þingið samþykkti og ég hef lesið úr nokkrar helztu niðurstöður. Þingmenn flokksins allir og hin kjörna miðstjórn styðja ályktun flokksþingsins og munu vinna að framkvæmd hennar.

Kosningar standa væntanlega íyrir dyrum á næsta sumri. Sex ára stjórnarsamstarfi við Sjálfstfl. mun senn verða lokið. Ég hef, eins og aðrir þm. Framsfl., verið stuðningsmaður þessa samstarfs. Af því hefur margt gott leitt og í framfaraátt fyrir byggðir landsins. Mér hefur líkað vel að starfa með ýmsum þm. Sjálfstfl. að ýmsum málum. Hitt er okkur framsóknarmönnum ljóst, ekki sízt eftir svona langt samstarf, að þótt Sjálfstfl. hafi haft marga þm. og mikið atkvæðamagn í kosningum, sem að vísu hefur farið minnkandi, þá er hann samt í aðra röndina of veikur flokkur til þess, að hægt sé, eins og nú standa sakir, að vinna með honum með árangri að þeim vandamálum, sem nú krefjast lausnar. Það mun verða nánar rætt í kosningum og er rætt í stjórnmálayfirlýsingu flokksþingsins, í hverju þessi veikleiki Sjálfstfl. er fólginn. Við framsóknarmenn munum heita á kjósendur í öllum byggðum landsins og gera ýtarlega grein fyrir, hvers vegna við teljum það bezt samræmast hagsmunum og áhugamálum þeirra sjálfra, — við munum heita á þá að byggja upp þá samstarfsfylkingu Framsfl. og Alþfl., sem til er stofnað. Sú fylking á að geta orðið sterk, ef menn meta rétt þau rök, sem fyrir liggja. Miðað við síðustu kosningar ætti hún að geta fengið meiri hluta á Alþingi, þótt fylgi flokkanna væri óbreytt. Það er áróður einn, að Alþfl. sé lítill flokkur. Hann fékk í síðustu kosningum rúmlega 12 þúsund atkvæði, eða svipað og Sósfl., munaði aðeins rúmlega 300 atkvæðum á öllu landinu.

Þau mál, sem þessi samstarfsfylking beitir sér fyrir á Alþingi og í ríkisstjórn eftir kosningar í þágu almennings, ættu að eiga vísan stuðning þeirra þm. annarra, sem telja sig vini alþýðunnar, þótt trú þeirra á erlend máttarvöld geri stundum erfitt að hafa við þá náið samstarf.

Einhverjir eru nú með bollaleggingar um, að Alþýðusamband Íslands muni bjóða fram í næstu kosningum. Um það segi ég aðeins þetta: Það virðist ótrúlegt, að t. d. þm. Sósfl. geti stutt slíkt. Þeir, sem muna baráttuna í verkalýðshreyfingunni fyrir 18 árum, vita, að sá flokkur, Sósfl., hélt því fast fram þá, að Alþýðusambandið ætti að vera ópólitískt og ekki í tengslum við stjórnmálaflokka. Og þess er nú að vænta, að sá flokkur, sem stofnaður var eingöngu vegna setu varnarliðsins hér, þ. e. a. s. Þjóðvfl., sjái, þegar hann er búinn að hugsa sig um, — það eru víst þm. flokksins ekki búnir að gera enn þá, sem varla er von, — að þá sjái hann ekki lengur þörf á sérsamtökum sínum og að kjósendur hans gangi til samstarfs við umbótastefnu Framsfl. og Alþfl.

Ég sá það í aðalmálgagni Sjálfstfl. í dag, að þar var einkum deilt á Framsfl. fyrir tvennt í sambandi við yfirlýsingu flokksþingsins. Þetta var í fyrsta lagi orðað eitthvað á þá leið, að við framsóknarmenn mundum vera að svíkjast frá þeim verkefnum, sem núverandi ríkisstj. væri að leysa, og þó einkum 10 ára áætluninni um rafvæðingu dreifbýlisins; í öðru lagi, að ráðh. okkar bæru ekki fram neinar till. í ríkisstj. til að ráða varanlega bót á erfiðleikum atvinnuvega og viðskiptalífs. Báðum þessum ásökunum er fljótsvarað, og ég tel að athuguðu máli rétt að gera það á þessum vettvangi, um leið og ég lýk máli mínu. Ég veit ekki til þess, að neinum hafi dottið í hug, að lögfesting 10 ára áætlunarinnar um rafvæðingu væri samningur um 10 ára stjórnarsamstarf milli Framsfl. og Sjálfstfl. Því fer auðvitað fjarri. En það er annað alvarlegt í þessu máli. Áætlunarupphæðin, 250 millj. kr. á 10 árum. hefur því miður ekki lengur það gildi, sem hún hafði árið 1953. Ofþenslan í efnahagslífinu er á góðri leið með að kippa fótum undan rafvæðingaráætluninni, og við framsóknarmenn sjáum, að við svo búið má ekki standa. Flokksþingið var m. a. að leita að leið til þess að koma í veg fyrir, að áætlunin verði eyðilögð. Þá er hitt, að ráðherrar okkar hefðu átt að bera fram tillögur í ríkisstj. Þetta kemur auðvitað ekki til mála, því að flokksþingið byggði einmitt afstöðu sína á því, að þau úrræði, sem nú þarf að grípa til, væru ekki framkvæmanleg með Sjálfstfl., til þess að gera þau úrræði möguleg yrði að útiloka hin ráðandi öfl í Sjálfstfl. úr stjórn landsins. Hin ráðandi öfl í Sjálfstfl. eru ekki hinn rétti aðili til að standa að þeim ráðstöfunum, sem að miklu leyti hljóta að koma niður á þeim sjálfum. — Tími minn er þrotinn. — Góða nótt.