14.12.1955
Neðri deild: 32. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 660 í C-deild Alþingistíðinda. (1988)

119. mál, lífeyrissjóður togarasjómanna

Flm. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Það frv., sem við hér flytjum saman, hv. 6. þm. Reykv., hv. 4. landsk. og ég, er svo til komið, að á síðasta flokksþingi Sósfl. var sem að vanda rætt allmikið um vandamál sjávarútvegsins og þar með alveg sérstaklega um þau vandræði, sem hafa verið að manna togaraflotann af nægilega dugandi sjómönnum, og í umræðunum um það mál kom einn af yngri verkalýðsleiðtogunum hér í Reykjavík, einn af efnilegustu mönnunum, sem þar eru að vaxa upp, Guðmundur J. Guðmundsson, fram með þá uppástungu, að það yrði athugað, hvort ekki mætti koma á fyrir togarasjómenn lífeyrissjóði, svipað og þeim, sem embættismenn nú njóta. Þessi ungi verkamaður þekkir sjálfur til lífs togarasjómanna. Hann er sjálfur sonur togarasjómanns, sem áratugum saman hefur unnið á íslenzku togurunum.

Eftir að ég hafði svo ásamt öðrum þm. Sósfl. unnið úr þessari hugmynd, hef ég þegar heyrt, að þessar hugmyndir hafa verið nokkuð uppi hjá togarasjómönnum. Ég átti m. a. nýlega tal við formanninn fyrir Sjómannafélagi Akureyrar, Tryggva Helgason. Hann sagði mér frá því, að togarasjómenn á Akureyri hefðu rætt þetta mál um nauðsynina á lífeyrissjóði fyrir togarasjómenn allmikið hjá sér, og stjórn Sjómannafélags Akureyrar hafði síðan rætt þetta mál við stjórn útgerðarfélagsins þar á Akureyri, en það mál verið fellt í útgerðarfélagsstjórninni. Ég efast ekki um, að þetta sé þess vegna hugmynd, sem margir togarasjómenn hafa verið með og áreiðanlega á vinsældum að fagna hjá þeim. En það, sem er aðalatriðið fyrir okkur, þegar við flytjum þetta mál hér inn í þingið, er að athuga, að hve miklu leyti þetta gæti orðið til þess að hjálpa okkur til þess að leysa eitt vandamálið í sambandi við togarareksturinn undanfarið, og það er að fá nógu góða menn á togarana.

Mér var sagt nú nýlega, þegar karfaveiðin var hvað bezt hjá togurunum, að það hefði staðið þannig á, að togararnir hefðu fyllt sig á þrem dögum og komið inn, uppgripin hefðu verið slík. En það hefði verið mikið af þeim gömlu, vönu togarasjómönnum farið í land áður, hefði verið allmikið af óvönum mönnum um borð, og það hefði þess vegna yfirleitt tekið um sex daga að fylla sig. Það er engum efa bundið, að með okkar stórkostlega auðugu fiskimiðum og með þeim uppgripamiklu tækjum, sem við höfum í togurunum, hefur það úrslitaáhrif, hvernig skipshöfnin er.

Það er þess vegna lífsnauðsyn fyrir okkar þjóðfélag, sem byggir helminginn af öllum sínum útflutningi á starfi togarasjómanna, að reyna að sjá til þess, að á togarana veljist í fyrsta lagi sem allra beztir og duglegastir menn, og í öðru lagi, að þeir fáist til þess að vera þar áfram. Það má máske segja sem svo, að það sé þá fyrst og fremst að launa þá vel. Það er vissulega ákaflega þýðingarmikið atriði í þessum efnum, en það er mál, sem togarasjómenn eiga við togaraútgerðirnar og Alþ. hefur ekki látið til sín taka. Hins vegar getur Alþ. látið til sín taka með máli eins og þessu. Það getur veitt togarasjómönnum alveg sérstök fríðindi, sem engir aðrir starfsmenn í landinu hafa, eins og lagt er til með þessu frv. Það getur þannig sýnt þeim í verki, að það meti þeirra störf það mikils, að það vilji vinna að því, vilji gera mjög alvarlegar ráðstafanir til, að ekki aðeins fáist mjög dugandi menn á togarana, heldur líka sé þannig að þessum dugandi mönnum búið, að þeir fáist til þess að vera þar áfram. Það er mannvalið á okkar togurum, sem ræður úrslitum um, hvernig gengur að afla fisksins, og eins og oft hefur verið tekið hér fram, er helmingsins af okkar fiski aflað af þeim 1200 mönnum, sem á togurunum eru, eða af 1/5 hluta sjómannastéttarinnar.

Ég þarf ekki að gera grein fyrir þörf þjóðarinnar á því að tryggja sér dugandi sjómenn. Þessir 1200 menn, sem á togurunum eru, standa undir helmingnum af verðmæti útflutningsins, og sá helmingur er milli 400 og 500 millj. kr. Ég ætla ekki heldur að fjölyrða hér um þörf togarasjómannanna á þessu. Það hafa áður verið flutt hér mál og borin fram til sigurs á Alþ., það hefur þurft nokkurn tíma, en Alþ. hefur ætíð að lokum skilið nauðsyn þessara mála. Stundum hafa sjómenn að vísu orðið að knýja þau fram með verkföllum. Og ég býst við, að þá fari skilningurinn vaxandi á því, að það sé bæði virðingu Alþingis meira samboðið og heppilegra fyrir þjóðfélagið, að Alþ. sýni framtak í þessum efnum og hafi sjálft forgöngu um að vilja taka vel undir þær hugmyndir, sem fram koma hjá sjómönnum sjálfum um bætur á þeirra kjörum.

Í þessu frv. er gert ráð fyrir nokkru betri og skjótari tryggingu sjómönnunum til handa hvað lífeyrissjóð snertir en nú er hjá starfsmönnum. Það er gert ráð fyrir því, að lífeyririnn hækki fyrr með starfsaldrinum. Hér áður fyrr var það svo, að eftir 15 ára starf á togurum var bakið farið hjá öllum þorranum af þeim, sem stunduðu vinnuna, meðan hún var verst. Það er til allrar hamingju betra nú, eftir að hvíldartíminn var tryggður og lengdur. En hitt er vitanlegt, að fyrir togarasjómennina, þá sem á annað borð eru orðnir vanir að vinna á sjónum, er orðið erfitt að taka upp vinnu í landi. Hins vegar er vinnan á togurunum, ekki sízt eins hörð og sóknin er nú, þannig, að menn verða fyrr útþrælkaðir menn með því að stunda áratugum saman togarasjómennsku en með því að vera embættismenn í landi. Þess vegna er ekki nema rétt, að reiknað sé með því, að skjótar hækki lífeyririnn og fyrr nái menn sæmilegum lífeyri eða eftirlaunum með því að stunda togarasjómennsku.

Í þessu frv. er gengið út frá, að ríkissjóður leggi fram 6% af heildarárskaupi á móti mjög litlu framlagi frá togarasjómönnum sjálfum. Ég efast að vísu ekki um, að á þessu mundi mega fá nokkra breyt. og togarasjómenn mundu gjarnan vera til í það að hækka sitt framlag, ef þeir sæju fram á, að alvarlega yrði tekið á þessu máli. En hitt efast ég ekki um, að fyrir ríkið er rétt, að það leggi fram sjálft verulegan hluta og helzt ekki minni en lagður er nú til embættismannanna, sem er 6%. Ríkið stendur nú undir hallanum af rekstri togaranna að verulegu leyti með framlögum til þeirra, sem togarana eiga, og það er ekki ósanngjarnt, að ríkið þess vegna, þegar það hefur slíkan ríkisrekstur á tapinu á togurunum, sýni sig í því að vilja létta undir með að tryggja það, sem þýðingarmest er viðvíkjandi togararekstrinum, góða menn á togarana og öryggi fyrir þá, sem á togurunum vilja vinna og halda áfram að starfa þar.

Menn munu segja, að þetta þýði e. t. v., að ríkið sé meira og minna að líta á togarasjómennina sem opinbera starfsmenn, að þetta stefni í áttina til þjóðnýtingar á togurunum. En sú þjóðnýting er nú þegar að gerast. Tveir þriðju af togurunum eru þegar reknir af bæjum eða af hlutafélögum, sem bæirnir eiga mikinn eða mestan þátt í, og ríkið skoðar togarareksturinn vegna hins mikla þjóðnýta gildis hans svo mikilvægan, að það gerir sérstakar ráðstafanir til þess að halda honum gangandi, enda eðlilegt, þar sem það tekur með lögum allan gjaldeyrinn af togurunum og ráðstafar honum eftir sinni vild.

Ég þarf ekki að fjölyrða um hin einstöku atriði þessu frv.

Með 2. gr. er gengið út frá, að togarasjómenn hafi þau fríðindi fram yfir opinbera starfsmenn, að þau réttindi, sem þeim væru veitt með þessu frv., ef það yrði að lögum, skuli í engu rýra önnur réttindi, sem þeir fá samkvæmt alþýðutryggingalögunum.

Með 4. gr. er svo fyrir mælt, að þriggja manna stjórn skuli skipuð, einn maður tilnefndur af Alþýðusambandi Íslands, annar af ríkisstj. og þriðji af sjóðfélögum eða félagsskap þeirra.

Í 6. gr. er mælt fyrir um framlögin, iðgjöldin eru þar ákveðin 1% frá togarasjómönnum sjálfum, 3% frá togaraeigendum, eða til samans 4% þar frá, en 6% frá ríkinu, eins og nú er til starfsmanna ríkisins.

Í 7. gr. er svo fyrir mælt, að að 5 árum liðnum skuli þetta frv. endurskoðað, og ég held, að þau ákvæði ættu að tryggja út af fyrir sig, að það, sem kynni að koma í ljós af göllum á þessu frv. frá líftryggingarlegu sjónarmiði, væri þá hægt að lagfæra, vegna þess að í 10. gr. frv. er ákveðið, að lífeyririnn komi yfirleitt fyrst til útborgunar fyrir menn, sem hafa verið 5 ár á togurunum, eftir að þessi lög hafa öðlazt gildi, þannig að það er þess vegna engin hætta á, að á fyrstu 5 árunum verði hætta á nokkrum halla og nokkru tapi á rekstri þessa lífeyrissjóðs.

Hinsvegar mundu togarasjómenn undireins njóta þeirra hlunninda, sem lífeyrissjóði fylgja, að geta fengið lán úr honum. Og það er vitanlegt, að eins og starfsmenn ríkisins leggja nú mikið upp úr því að geta fengið lán úr lífeyrissjóði til húsabygginga, eins mundu togarasjómenn leggja ákaflega mikið upp úr slíku, og það er alveg sérstök ástæða til þess að aðstoða þá með slíkt, því að þeir eiga allra verkamanna erfiðast hvað þetta snertir. Fjöldinn af verkamönnum þrælar nú kvöld og helgar við að reyna að koma upp þaki yfir höfuð sitt, en sjómennirnir á sjónum úti hafa enga aðstöðu til þess að nota sinn vinnukraft á slíkan hátt, þannig að það er alveg víst, að bæði er réttlátt að veita þeim þessa möguleika og eins mundi þetta koma sér mjög vel fyrir þá. Ég held þess vegna, þótt að nokkru leyti sé farið inn á nýja braut hvað lífeyrissjóð snertir með þessu frv., að þá mundi þetta ákvæði í 7. gr. alveg tryggja, að að engu leyti væri teflt í neina tvísýnu. Sú endurskoðun, sem færi fram að 5 árum loknum, mundi strax geta byggzt á nokkurri reynslu í þessum málum, og hvað það snertir ætti þess vegna að vera óhætt að samþ. frv. eins og það er.

10., 11. og 12. gr. hef ég að mestu leyti sniðið eftir samsvarandi greinum í lögunum um lífeyrissjóð opinberra starfsmanna, þó með þeim breytingum þar á, sem leiðir af eðli málsins. Í staðinn fyrir, að ákveðið er, að hver geti orðið sjóðfélagi og fengið réttindi, sem verið hefur 10 ár, þegar um embættismennina er að ræða, þá getur hver togarasjómaður öðlazt þennan rétt, þegar hann hefur unnið 10 ár á togara, þar af 5 ár eftir að þessi lög hafa öðlazt gildi. Þó er undantekning um þetta hvað snertir 12. gr., þ. e., ef sjóðfélagi andast á þessum tíma, fær hans maki og hans börn að njóta jafnt réttarins og ef hann hefði unnið 5 ár á togurunum. Enn fremur stytti ég þann tíma, sem er hjá embættismönnum, þar er 65 ár, það styttum við niður í 60, og í staðinn fyrir 95 ára samanlagðan starfsaldur og aldur setjum við, að menn séu annaðhvort 60 ára að aldri eða hafi unnið 30 ár á togurunum.

Ég held þess vegna, að að svo miklu leyti sem þyrfti að gera þar nokkrar breytingar á, þá mundi ég treysta heilbr.- og félmn., sem er þeim málum mjög kunnug, til þess að líta þar á með velvilja og lagfæra, ef okkur kynni að hafa þar sérstaklega yfirsézt, sem ég þó held að sé nokkurn veginn óhætt að treysta að mundi ekki koma að sök á þeim tíma, sem á að líða, þangað til þetta yrði endurskoðað.

Ég efast ekki um, að samþykkt frv. eins og þessa mundi verða ákaflega mikilvæg til að tryggja landinu góða togarasjómenn og að tryggja það að veita togarasjómönnum, sem búa við á margan hátt ekki aðeins erfiðasta vinnu allra íslenzkra verkamanna, heldur líka þær sérstöku aðstæður að vera lengur fjær sínum heimilum en nokkrir aðrir verkamenn, — ég held, að þetta mundi að öllu leyti hjálpa til þess að sannfæra togarasjómenn um, hve mikils Alþ. metur þeirra vinnu og þeirra starf og hve mikið þjóðfélagið leggur upp úr því, að við fáum að halda hverjum dugandi sjómanni, sem á togarana fer, sem allra lengst þar, og að þjóðfélagið vilji búa sem bezt að þeim og þeirra fólki og sýna þannig skilninginn á þeirra vinnu.

Ég vil leyfa mér að vonast eftir, að hv. þm. taki þess vegna þessu máli með skilningi. Ég vil leyfa mér að óska þess, að það fari að lokinni þessari umr. til heilbr.- og félmn., og vildi mega óska þess, að þeirri nefnd mætti auðnast sem fyrst að skila um það áliti, þannig að það geti orðið að lögum nú á þessu þingi.