16.12.1955
Neðri deild: 36. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 220 í B-deild Alþingistíðinda. (199)

126. mál, bráðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. sagði, að ágreiningurinn væri eingöngu um afgreiðslu fjárlaganna, og svo sagði hann, að hin málin væru ekki á því stigi, að efnislegur ágreiningur hafi komið til. Með öðrum orðum: Hæstv. ríkisstj. er ekki komin svo langt enn þá, 16. desember, að hún sé farin að ræða það fyrir alvöru, hvaða úrlausnir mönnum geti yfirleitt dottið í hug, til þess að bátafloti og togarafloti landsmanna gangi 1. janúar. Svo kemur hæstv. forsrh. hér upp á eftir og segir, af hverju ekki sé ágreiningur um þetta: Við erum ekki komnir það langt, að við séum farnir að athuga þetta. — Þeir hafa haft tvær n. starfandi. Það er sem sé ekki ein n., eins og hv. 5. landsk. var að minnast hér á áðan, nei, það eru tvær n. starfandi, önnur er hagfræðinganefnd og hin einhver sérfræðinganefnd, en þessar n. hafa bara ekki lokið störfum, þær eru sem sé ekki búnar að skila enn þá. Ég held nú, að ef svona upplýsingar hefðu komið fram frá stjórnarandstöðunni um, að þetta væru vinnubrögðin hjá ríkisstj., þá hefði verið sagt, að þetta væri einhver rógur. Þetta er sem sé stjórnarfarið á Íslandi í dag. Það er jafnvel við því búizt, að flotinn geti stöðvazt 1. janúar. 16. des. eru tvær n., sem ríkisstj. hefur skipað, ekki búnar að skila áliti, ríkisstj. ekki farin yfirleitt að koma málunum á það stig, að hún sé farin að ræða, hvort það sé nokkur efnislegur ágreiningur, vegna þess að það eru yfirleitt ekki farnar að koma fram till. um þetta, sem hún gæti rætt. Ef þetta er ekki stjórnleysi, þá veit ég ekki, hvað stjórnleysi er. Það er sem sé bara látið reka á reiðanum.

Ég hafði ofur litla hugmynd um þetta, þegar ég skrifaði það bréf, sem hæstv. forsrh. minntist á, og það bréf kom í raun og veru ekkert því við, hvort víð frestuðum útvarpsumræðum eða ekki. Við gátum vel hugsað okkur að sleppa hæstv. ríkisstj. við að ergja hana með útvarpsumræðum eða fara að bera fram vantraust núna eða knýja fram eldhúsdagsumræður, ef það hefði verið hægt að fá hana til þess að ræða um þau alvarlegu mál, sem liggja fyrir. Og ég verð að segja það, að við, sem sitjum nú á þingi og nú erum í stjórnarandstöðu, höfum á þeim tímum, þegar stöðvanir hafa vofað yfir í atvinnulífi þjóðarinnar, alveg eins getað fundið úrlausnir og jafnvel betur en þeir menn, sem nú skipa ríkisstj., þannig, að það er bezt fyrir hæstv. ríkisstj., um leið og hún kemur með svona gjaldþrotayfirlýsingu, að spara öll frýjunarorð í slíku sambandi. Ef hæstv. forsrh. hefur það traust á alþýðusamtökunum, að þau væru fær um að leysa þetta mál núna, sem ég hef traust á, þá held ég væri sæmst, að þau fengju að taka við og það strax og að Sjálfstfl. og Framsfl. hér á Alþingi sæju þá sóma sinn í því að fylgja þeirri stjórn, sem alþýðusamtökin skipuðu. Ég held, að við mundum þá sjá til þess, að þetta gæti gengið. Það er ekki sá vandi að leysa úr þessum málum. Þið hafið þó nógu góð tæki til þess að vinna með, þið hafið nóg fiskimið hérna fyrir utan, og við skulum útvega þá markaði, sem þið viljið kannske ekki nota. Það er ekkert sem vantar hér í þessu landi annað en almennilega stjórn, og ef þið eruð sjálfir komnir að þeirri niðurstöðu núna, að það, sem vanti, sé, að alþýðusamtökin séu nógu voldug gagnvart ríkisstj., þá skuluð þið láta þau bara skipa ríkisstj. og styðja hana og styðja hana vel. Þau hafa gert það áður. Alþfl. og Sósfl. hafa setið með hæstv. forsrh. í ríkisstjórn og alþýðusamtökin lýst ánægju sinni og stuðningi sínum við þá stjórn. (Gripið fram í.) Við höfðum fulla ástæðu til þess, því að þið lifið enn þá á því í dag, sem við gerðum þá. Af því er þó þetta í gangi, að það hefur verið hægt að láta ykkur hafa nokkur hundruð milljóna til þess að eyða sumpart í vitleysu, af því að togararnir, sem við keyptum inn, hafa gengið. En hverjir eru svo, sem standa uppi núna 16. des. og geta ekki tryggt, að þeir gangi 1. jan.? Það eruð þið, sem stjórnið landinn núna. Þið skylduð sjá, hvort það gengi ekki, ef við stjórnuðum því.

Hæstv. forsrh. var að tala um, að það væri ekki ástæða fyrir mig til að fara að selja skinnið af birninum, áður en búið væri að skjóta hann. Ég var aldrei að tala um að skjóta björninn núna. Ég var að lýsa því yfir, að mér sýndist hann vera að verða sjálfdauður. Hins vegar vil ég vekja athygli hæstv. forsrh. á því, ef honum skyldi hafa sézt yfir það og hann þess vegna geri sér of miklar gyllivonir um, að það væri nú hægt að halda áfram þessari vonlausu stjórnarsamvinnu, að hæstv. fjmrh. sagði fyrst, að hann hefði ákveðið að vinna áfram í ríkisstj., sem gaf það til kynna, að hann hefði verið að hugsa um að hætta við það, og síðan sagði hann, að hann vildi ekki stofna til stjórnarkreppu nú, þ. e. 16. des. En hvað verður 5. jan.? M. ö. o.: Stjórnarkreppunni er frestað fram yfir nýár. Það er ekkert annað, sem hæstv. fjmrh. var að segja.

Það, sem við vorum að bjóðast til, var raunverulega ákaflega fallega boðið, ef stjórnin hefði haft vit á að þiggja það. Það var, að stjórnarandstaðan sæti með þeim hér og reyndi að leysa þetta mál, af því að stjórnin er auðsjáanlega ófær til þess. Við ætluðum ekki að sitja hérna til þess að hafa útvarpsumræður um kaup á nýjum togurum eða útvarpsumræður um eldhús eða útvarpsumræður um vantraust. Nei, við ætluðum að reyna að leysa þessi mál með þeim, og það er það, sem þeir hafa ekki þekkzt, sömu hæstv. ráðh. sem lýsa því yfir hérna, að þeir séu ekki enn þá búnir að fá álitið frá sérfræðinganefndunum, sem þeir hafa skipað.

Ég vil nú segja það, að þegar þessi vandamál hafa verið leyst á Íslandi á þann hátt, sem gæfuríkastur hefur orðið fyrir þjóðina, þá komu engar slíkar sérfræðinganefndir nærri. Það var hér í þingsölunum, sem það var leyst og leyst vel.

Svo þótti mér nú að sumu leyti bera nýrra við, þegar hæstv. formaður Sjálfstfl., hæstv. forsrh., fór allt í einu að mæla með því, að menn færu að kjósa Alþfl., og hæstv. fjmrh. tók mjög undir þetta. Þetta minnti mig dálítið á gamla daga, fyrir nokkuð löngu, þegar sumum þótti horfa mjög illa í stjórnmálum á Íslandi og mynduð var svokölluð þjóðstjórn, sem þeir, sem í voru, hafa helzt ekki mátt minnast á síðan. Þá var sem sé byrjað með því að skella á gengislækkun. Þá voru að vísu látnar fara fram kosningar, en það var skellt á gengislækkun og haldið áfram með hver þrælalögin á fætur öðrum og endað með gerðardómslögunum, þannig að Alþfl. fór þá út úr ríkisstjórninni. Ég gæti trúað, að hæstv. forsrh. ætti ofur lítið að hugsa um söguna, áður en hann fer að mælast til þess við Alþfl., að hann fari inn á þá braut að vinna aftur með Sjálfstfl. og Framsfl. að því að koma á gengislækkun og kaupbindingu og láta enda með því að sparka sér út á gerðardómslögum. Og eitt mega þeir báðir vera vissir um, sem sæti áttu í gömlu þjóðstjórninni, hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh., að hvað sem Alþfl. kynni nú að vilja gera í slíkum málum, — og ég held, að hann kæri sig ekki um að fara í þau spor aftur, án þess að ég hafi heimild til að gefa nokkrar yfirlýsingar fyrir hann, — þá mega þeir vera vissir um það, að alþýðusamtökin a. m. k. gera það ekki. Og það, sem um er að ræða í þessum málum, sem nú standa fyrir dyrum hjá þjóðinni, er, hvort hægt sé að stjórna landinu þannig, að alþýðusamtökin sætti sig við það. Það hefur verið gert einu sinni áður á Íslandi með samstarfi bæði Sósfl. og Alþfl. og í það skipti við Sjálfstfl., og a. m. k. enginn af þeim, er í þeirri stjórn sátu, mun mótmæla því, að það hafi verið einhver bezta stjórn, sem á Íslandi hefur setið. Það sýnir sig, að ef alþýðusamtökin eru saman um að skipa ríkisstjórn hér á Íslandi, með hverjum svo sem það er, þá verður það sú ríkisstjórn, sem hér verður bezt, og um leið sú eina ríkisstjórn, sem tryggt getur frið í landinu og tryggt getur það, að landsmenn sameinist að því að vinna þau stórvirki, sem hægt er að vinna. Og það er út frá þeirri reynslu, út frá þeirri ábyrgðartilfinningu, sem við höfum fyrir því, að tækifærin, sem þjóðin hefur, séu notuð, sem við höfum gert okkar till.

Svo vil ég aðeins að endingu taka undir það, sem hv. 5. landsk. þm. kom hér fram með, að það er rétt fyrir ríkisstj. að láta þm. fá tækifæri til þess að fylgjast með því, sem sérfræðinganefndir hennar eru að reikna út. Ég er hins vegar hræddur um, að það verði ekki of mikið vit í þeim útreikningum og þeim niðurstöðum, þannig að það væri betra, að ráð stjórnarandstöðunnar kæmu til í tíma við hæstv. ríkisstj. um lausn á þeim málum, sem fyrir liggja. Það hefur reynzt bezt, þegar harðvítug átök hafa orðið hjá þjóðinni eins og í vor, og ég held þess vegna, að það hefði líka verið bezt núna að láta stjórnarandstöðuna fylgjast með þessu, láta hana fá tækifæri til þess að gera sínar till. við hæstv. ríkisstj. Stjórnarandstaðan hefur sýnt fulla ábyrgð í slíkum efnum, og ég held, að það mundu koma jafnvel hollari ráð frá henni en þeim sérfræðingum, sem ég er stundum hræddur um að reikni allt til andskotans.