19.01.1956
Neðri deild: 44. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 667 í C-deild Alþingistíðinda. (1997)

133. mál, bann við að taka íbúðarhúsnæði til annarrar notkunnar en íbúðar

Flm. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Þetta frv., sem við hv. 6. þm. Reykv. (SG) og ég flytjum hér, er ekki sérstaklega víðtækt frv., það er aðeins um mjög takmarkað svið. Við höfum áður flutt hér á þingi mál, sem nær yfir húsnæðismálin almennt og enn hefur ekki verið afgr. úr heilbr.- og félmn., og í því er að finna till. okkar sósíalista um heildarlausn í sambandi við húsbyggingamálið.

Þetta mál, sem hér liggur fyrir, er raunverulega aðeins um að bæta úr einu sérstöku vandkvæði, sem sýnt hefur sig að koma í ljós, eftir að lögunum um húsnæði frá 1943 var gerbreytt og meginatriði þeirra afnumin fyrir um þrem árum. Það er alveg auðséð, sérstaklega hér í Reykjavík og á þeim stöðum, sem fólkið streymir mest til, að erfiðleikarnir um íbúðarhúsnæði fara lítt batnandi, og ég vil segja það við þá, sem kynnu að halda, að það væri svo mikið verið að gera til þess að leysa þessi vandamál nú, að því fer fjarri, að þær aðgerðir dugi enn í því efni.

Ég sé t. d. í sumum blöðum í morgun, að það er sagt frá, að á síðasta ári, 1955, hafi verið byggt meira í Reykjavík en nokkru sinni fyrr. Þetta er ekki rétt. Það er upplýst nú eftir skýrslu byggingarfulltrúa, að á síðasta ári hafi verið byggðar í Reykjavík 564 íbúðir, m. ö. o. fulllokið við, og það er það, sem alltaf er miðað við í skýrslum, 564 íbúðir. Þetta er að vísu meira en hefur verið á Marshallárunum undanfarið, eftir að Ameríkumenn fóru að skipta sér af því, hve mikið við mættum byggja hér. En þetta er minna en var, á meðan við réðum því sjálfir, Íslendingar. 1946 voru fullbyggðar hér í Reykjavík 634 íbúðir, og eftir skýrslum, sem þá voru gerðar, var sýnt fram á, að það þyrfti a. m. k. að byggja 600 íbúðir á ári til þess að byggja yfir þá, sem bætast hér við, og útrýma óhæfu og heilsuspillandi húsnæði. Á öllum þessum árum og ekki heldur á síðasta ári hefur þeirri tölu verið náð, sem álitið var að nauðsynleg væri 1946 og líka hefur verið fullyrt að væri það allra minnsta, sem Reykjavík kæmist af með síðar.

Það er þess vegna auðséð, að það þarf að gera ráðstafanir til þess, að það sé meira íbúðarhúsnæði en verið hefur, a. m. k. hér í Reykjavík, og svo býst ég við að sé einnig um suðvesturkjálka landsins, sem þetta frv. mun vafalaust fyrst og fremst taka til, eins og 4. gr. ákveður um.

Þegar gamla húsaleigulöggjöfin frá 1943 var að mestu afnumin, mun hafa verið gengið út frá því af þeim, sem því réðu, eða a. m. k. hlýt ég að ganga út frá því, að þeir hafi haldið, að ástandið mundi verða svo stórum batnandi út af nýjum íbúðarhúsabyggingum, að það væri ekki þörf á að halda þeim ráðstöfunum, sem þá áttu að koma í veg fyrir hækkun húsaleigu og þá áttu að koma í veg fyrir, að íbúðir væru teknar úr notkun. Nú hefur það sýnt sig um afnám húsaleigulaganna frá 1943, að það afnám, sem var framkvæmt fyrir þrem árum, hefur þegar haft ægilegar afleiðingar fyrir þjóðina. Það hefur fyrst og fremst haft þær afleiðingar, að húsaleiga, sérstaklega í gömlum íbúðum, hefur hækkað ákaflega mikið, þannig að nú er svo komið, að húsaleiga í öllum þeim húsum, sem byggð voru yfirleitt fyrir stríð, þ. e. helmingurinn af húsunum í Reykjavík, er yfirleitt tíföld móts við það, sem hún var fyrir 10 árum. Á sama tíma sem kaupgjald hefur tvöfaldazt, hefur húsaleiga í þessu húsnæði fyrir tilstilli Framsfl. og Sjálfstfl. tífaldazt í fjölmörgum tilfellum. Ég skal taka það fram, að það er síður en svo, að það sé í öllum. Það eru margir húseigendur, sem leigja út, sem hafa haldið við það að fara hóflega í þessar sakir. En það eru aðrir, sem hafa dregizt með inn í hringiðu brasksins og hækkað húsaleiguna gífurlega. Enn fremur hefur afnám húsnæðislöggjafarinnar gömlu haft þau áhrif, að það hefur farið fram stórkostleg fjárfesting í gömlum íbúðum, að gamlar íbúðir hafa verið seldar á hækkuðu verði. Menn hafa fest sitt fé í því að kaupa þær, og það, að menn hafa farið að kaupa þær máske á fimm- og tíföldu verði við það, sem þær kostuðu upphaflega, stafar af því, að leigan var gefin laus í þessum gömlu íbúðum og hún fékk að hækka. Þannig hefur farið fram á undanförnum árum fjárfesting, sem skiptir tugum millj. kr. í gömlum íbúðum, fjárfesting sem hefur ekkert annað en verðbólguáhrif, festing á fé, sem dregið er út úr því að vera skapandi, sem sé að hjálpa til að byggja nýjar íbúðir eða ný atvinnutæki, og dregst inn í það að braska með gamlar íbúðir og gamlar lóðir.

Afnám gömlu húsaleigulöggjafarinnar sýnir sig nú í vaxandi mæli að hafa ægilega skaðleg áhrif fyrir þjóðfélagið, og það er langt frá því, að öll þau skaðlegu áhrif séu enn þá komin í ljós. Og það er enginn efi á því, að þessar aðgerðir Framsfl. og Sjálfstfl., að afnema húsaleigulögin gömlu frá 1943, eru eitt af því, sem einna mest hefur valdið þeirri verðbólgu, sem hér hefur verið í landinu undanfarið, enda veit ég ekki til þess, að neinar af okkar nágrannaþjóðum hafi haft þennan hátt á. Þvert á móti hefur húsaleigu í gömlum íbúðum verið haldið niðri hjá öllum þessum þjóðum, m. a. verið gert frá sjónarmiði atvinnurekenda til að koma í veg fyrir, að hækkuð húsaleiga knýi fram hækkað kaupgjald. En þetta vildi ég nú aðeins minnast á sem eitt af þeim slæmu afleiðingum, sem afnám gömlu húsaleigulaganna hefur haft. Hins vegar er þessu frv. ekki ætlað að bæta úr þeim göllum, til þess þyrfti róttækari löggjöf, sem nú að nokkru leyti er til.

Það er annar galli sem komið hefur í ljós í sambandi við afnám gömlu húsaleigulaganna frá 1943, sem ætlað er að nokkru leyti að reyna að bæta úr með þessu. Þegar gömlu húsaleigulögin voru afnumin, en nokkru síðar lögunum um fjárhagsráð breytt, voru felld niður þau lagaákvæði, sem bönnuðu að rífa gömul hús og taka íbúðarhúsnæði úr notkun sem íbúðir og nota til annars. Hins vegar var með þeim nýju lögum, sem sett voru í staðinn fyrir fjárhagsráðslögin, bannað nema með sérstökum leyfum að byggja hús til annarra nota, til verzlunar, til skrifstofuhalds, samkomuhús og annað slíkt, þannig að þarna varð raunverulega misræmi á milli. Það var gefið mál, að það þurfti að leyfa þó nokkuð af byggingum bæði fyrir verzlunarhús, skrifstofuhús og annað slíkt, slíkt var nauðsynlegt, það var þörf á slíku, en það þurfti náttúrlega að hafa einhvern hemil á því. Hins vegar hefur sá háttur orðið á á undanförnum árum, að lítil leyfi hafa verið veitt til slíks, jafnvel á vissum tímum svo að segja engin, og þá hefur það orðið úr, að menn hafa farið í mjög ríkum mæli að breyta gömlum íbúðarhúsum í hús til annarrar notkunar. Ég efast ekki um, að þetta hefur oft verið nauðsynlegt fyrir þá, sem þannig breyttu til, og það var löglegt. En þetta þýddi hins vegar, að íbúðarhúsnæði minnkaði að þessu leyti. Ég álít og við flm. þessa frv., að þetta geti ekki gengið svona til. Núna þegar bannað er að byggja hús til verzlunar, skrifstofuhalds eða annars slíks, eru yfirvofandi stærri aðgerðir í því að breyta íbúðarhúsnæði í skrifstofur en áður hafa verið. Mér er kunnugt um hér í Reykjavík, að í húsum, sem hafa verið íbúðarhús nú í tuttugu ár, er búið að segja fólki upp frá 14. maí í vor til þess að breyta þessum húsum í skrifstofu- og verzlunarhúsnæði. Þetta er á góðum stöðum hér í bænum og freistandi fyrir eigendur að gera slíkt, en fólkið, sem í þeim býr, verður í sömu vandræðum með húsnæði fyrir það, og það er hætta á, að að þessu verði brögð í vaxandi mæli. Nú er það vitanlegt mál, að fyrir þá, sem gjarnan vilja koma upp verzlunarhúsnæði eða skrifstofuhúsnæði eða öðru húsnæði til annarrar notkunar en íbúðar, er það eitt óhagkvæmasta, sem hægt er að hugsa sér, að verða að taka gamalt íbúðarhúsnæði til þess að breyta því. Það eru stór verðmæti, sem fara forgörðum með því. Það er óhagkvæmt að gera þetta, og við, sem fylgjumst með, hvernig breytt hefur verið hér í Reykjavík skulum bara taka sem dæmi t. d. nýjar búðir, sem hafa risið upp neðarlega á Skólavörðustíg. Það er verið að taka þarna gamalt íbúðarhúsnæði á ágætum verzlunarstöðum, breyta því með ærnum kostnaði, kostar hundruð þús. kr. og er samt ófullnægjandi. Og þetta er allt saman gert vegna þess, að það er ekki leyfi til að byggja verzlunar- eða skrifstofuhús eða hús til annarrar notkunar. Það er þess vegna þjóðhagsleg eyðsla að láta þetta ganga svona. Þessa hluti þarf að samræma, og eru það stjórnarvöldin sjálf, sem hafa valdið á því að leyfa skrifstofuhúsnæði og verzlunarhúsnæði og húsnæði til samkomuhalds og annað slíkt, þannig að það er undir þeirra vilja komið, hvernig þarna er farið að. Alþ. hefur veitt þeim heimild til þess með lögum, og það er sem sagt spursmál um stjórnarframkvæmd. Hins vegar hvað snertir það fólk, sem nú býr í húsnæði, sem verið er að segja upp, eða verður að flytja burt, þá er ástandið fyrir þetta fólk alveg óþolandi, og ég held, að það hafi ekki getað verið tilgangur þeirra manna, sem upphaflega afnámu lögin um húsaleigu, lögin frá 1943, fyrir þrem árum, að svona færi.

Þess vegna leggjum við hér til, að hluti af þessum gömlu lögum sé raunverulega tekinn aftur í gildi. Það eru 4. og 5. gr. úr gömlu húsaleigulögunum frá 4. apríl 1943, sem við tökum hér upp að miklu leyti orðrétt og leggjum til að settar séu í gildi aftur, þannig að það verði nú bannað að taka íbúðarhúsnæði eða herbergi, sem ætluð eru til íbúðar eða notuð til íbúðar, úr notkun sem íbúð og breyta í annað. Þetta er sanngjarnt mál, og þetta er nauðsynlegt mál.

Það er auðséð, að þjóðfélagið, með öllum þeim ráðstöfunum, sem það hefur gert, og ekki síst þrátt fyrir þær miklu ráðstafanir, sem hæstv. ríkisstj. þóttist ætla að gera, þegar hún settist á laggirnar, hefur ekki bætt úr því vandræðaástandi, sem fyrir var. Þess vegna leggjum við til, að það sé bannað héðan af að taka íbúðarhúsnæði úr notkun í annað húsnæði. Og þetta er alveg nauðsynlegt að komist í gegn. Það vofa annars vandræði yfir fjölda fólks. Ég veit sérstaklega af því hér í Reykjavík, sem mér er kunnugast um, en ég býst fastlega við, að þannig sé þetta víðar. Ég skal taka það fram um leið, að við flm. þessa frv. værum reiðubúnir til þess, ef stjórnarfl. eða annar þeirra vildi hafa um það samstarf, ef þeim þætti núverandi heimild, sem ríkisstj. hefur í núgildandi lögum til að leyfa annað húsnæði, ekki nógu örugg til þess, að slíkt húsnæði væri leyft, og mér er fullkunnugt um, hver þörf er á því, að bygging slíks húsnæðis sé leyfð, — þá værum við reiðubúnir til að koma fram með till. í því efni, alveg ákveðnar, afmarkaðar till., sem tryggðu það, að menn fengju að byggja húsnæði til annarra hluta.

Mér hefur fundizt að sumu leyti vera dálítið óeðlilegt, hvernig þetta hefur verið undanfarið með leyfin í þessum málum, og mér er ekki alveg grunlaust um, að stundum hafi þetta bann við byggingu slíkra húsa stafað af því, að helmingaskiptareglan hafi komizt í eitthvert ólag, það hafi hlaupið þarna hnútur á, orðið eins konar verkfall í viðkomandi nefndum, sem slíkt hafi átt að leyfa, ef til vill vegna þess, að ekki hafi verið farið eftir helmingaskiptareglunni, ef til vill vegna þess, að aðstæður á ýmsan hátt hafi verið ólíkar fyrir aðilana. En hvað sem því kann að valda, ef stjórnarflokkarnir geta ekki leyst það mál, að landsbúar fái að byggja það húsnæði, sem þeim er nauðsynlegt til ýmissa hluta, þá er ekki nema eðlilegt, að Alþ. reyni að hjálpa þeim við það, og við værum sem sagt reiðubúnir til þess að koma fram með alveg nákvæmar tillögur í því efni, til lausnar í slíkum málum, tillögur, sem ég held að mundu vera bæði réttlátar og hagkvæmar.

En sökum þess að það mál, sem um ræðir í þessu frv., snýr fyrst og fremst að þeirri alþýðu manna, sem nú býr í húsnæði og er búin að búa í húsnæði alllengi, en það vofir yfir að vera rekin út úr því, eða jafnvel fólki, sem býst við að geta flutt inn í húsnæði, sem nú er í smíðum sem íbúðarhúsnæði, en hins vegar nokkur brögð að því, að jafnvel húsnæði, sem er í smíðum sem íbúðarhúsnæði, sé jafnvel tekið til annars, áður en það kemst í notkun, ef ég má svo að orði komast, þá er alveg gefið, að það er orðin full nauðsyn á, að þarna sé breytt um. Annars er bara farið að fara í kringum þessi lög, og það er aldrei gott fyrir ástandið í landinu.

Þarna er um brýnt verkefni að ræða. Það hefur sýnt sig, að allt það, sem gert hefur verið til þess að byggja t. d. hér í Reykjavík á undanförnum árum, hefur ekki nægt einu sinni til að ná því lágmarki, sem 1946 þótti nauðsynlegt, 600 íbúðum á ári. Það hefur ekki nægt til þess að ná þeim fjölda nýrra íbúða, sem þó voru byggðar t. d. hér í Reykjavík 1946. Það er þess vegna gefið, að það Alþingi, sem hefur ekki borið gæfu til þess, hvorki með lögum né með því að skipa ríkisstjórn, að tryggja úrlausn þessara húsnæðismála, verður að sjá til þess, að það sé ekki verið að taka úr íbúðanotkun í stórum stíl húsnæði, sem ýmist hefur verið notað til íbúðar eða á að nota til íbúðar. Þess vegna er þörf á að samþykkja þetta frv.

Ég vil leyfa mér að leggja til, að að lokinni þessari umr. sé því vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og félmn. Og ég vil endurtaka, að ef það væru óskir í þeirri n. um, að Alþ. leysti hin málin um leið viðvíkjandi byggingu annars húsnæðis en íbúðarhúsa, þá værum við reiðubúnir til þess að vinna að þeirri lausn og koma með tillögur í þeim efnum við þá nefnd.

Ég vil svo vonast eftir, að þetta frv. megi fá afgreiðslu frá þessari hv. n., þó að það gangi erfiðlega að fá afgreiðslu á því stóra máli, sem ég flutti hér fyrr á þinginu. Það er máske að sumu leyti skiljanlegt, það er það yfirgripsmikið og það róttækt mál, að það kann nokkuð að standa í meiri hl. nefndarinnar. En þetta mál er það takmarkað og það nauðsynlegt innan síns sviðs, að um það ætti að geta orðið samkomulag, og það vonast ég til að verði.