16.12.1955
Neðri deild: 36. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 230 í B-deild Alþingistíðinda. (203)

126. mál, bráðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Því verður varla neitað, að málflutningur hæstv. forsrh. er harla einkennilegur í þessum efnum, og reyndar mætti kannske segja, að hann hefði hér hagað málflutningi sínum þannig, að það væri með öllu óþarfi að standa hér upp á eftir honum og elta frekar ólar við það, sem hér hefur farið fram. En ég ætla samt að fara um þetta nokkrum orðum.

Fyrst sagði hæstv. ráðh., að það væri að vísu rétt, að hann hefði ekki þurft að semja við mig eða stjórnarandstöðuna neitt um frestun á þingfundum. Hann varð sem sagt að viðurkenna þá staðreynd, að þetta var með öllu fyrir utan alla samningaþörf og því auðvitað alls ekki neinn samningsgrundvöllur fyrir því. Þetta varð hann að játa. Þar að auki segir hann í öðru orðinu, eins og allir tóku eftir, að frestun nú á þingfundum sé alveg óhjákvæmileg, af því að till. ríkisstj. liggi ekki fyrir. En svo í hinu orðinu er samt sem áður sagt: Ja, frestunin var m. a. vegna þess, að 11. landsk. samdi nm það, og það var hann, sem lagði sérstaka áherzlu á það, að frestunin færi fram. — Þetta getur maður nú kallað samkvæmni og boðlegt hæstv. forsrh. að halda hér fram. Það þurfti ekkert að semja um málið við stjórnarandstöðuna, þingfrestun var óhjákvæmileg, vegna þess að till. eru ekki fyrir hendi, en samt var það stjórnarandstöðunni að kenna, hún fór fram á það, að þingfundum yrði frestað.

Frekari umr. þarf nú auðvitað ekki að hafa um þetta. Hver maður sér, hvernig í þessu máli liggur. Hið rétta er, að það var aðeins samið um það, sem var óhjákvæmilegt að semja um, en það var: Áttu þær umr. um ákveðið frv. okkar, sem var skylda að láta fara fram, útvarpsumræður, að verða nú fyrir jól, eða átti að fallast á að fresta þeim? Um það var samið.

Þá minntist hæstv. forsrh. á það, að ég hefði látið orð falla um, að togararnir hefðu fengið á yfirstandandi ári heldur lítinn styrk, 2000 kr. á dag, eða alveg ófullnægjandi, en skaut því inn í um leið, að þeir hefðu fengið allt, sem ég hefði lagt til að þeir fengju. Ja, þetta er svona álíka satt og hitt og í fullu samræmi. Hér hafa farið fram umr. um þetta áður, og það liggja fyrir opinber gögn um þetta. Þetta er með öllu ósatt. Hann veit, að sá litli styrkur, sem togararnir hafa fengið, nær hvergi nærri því, sem mþn. í togaramálum, sem ég átti sæti í, taldi alveg óhjákvæmilegt, og tók sú n. þó greinilega fram, að það væri miðað við tiltekna launahækkun skipverja, sem síðan reyndist strax á eftir verða miklu meiri. Enn fremur voru ýmsar fylgitill. frá n., sem var alveg óhjákvæmilegt að hæstv. ríkisstj. kæmi í gildi, en ríkisstj. gerði það ekki. Miklu meira mætti vitanlega segja um það, en þetta er jafnrangt og hið fyrra hjá hæstv. forsrh., og hann veit það mætavel sjálfur. En svo þegar menn eru komnir í sjálfheldu eins og þessa, þá segja þeir bara sí og æ: Ja, hv. þm. er staðinn að því að fara með rangt mál. — Hann orðaði það nú sérstaklega í sambandi við það, sem ég hafði sagt, að formaður togaraeigendafélagsins, bróðir hæstv. forsrh., sem m. a. færi með hans umboð í togaraeigendafélaginu, — og það er rétt, hæstv. forsrh. er einn af eigendum Kveldúlfs, og bróðir hans fer þar með umboð þess félags, — hefði lagt fram þessa till., og það var því allt nákvæmlega rétt, sem ég sagði. En hann afgreiðir þetta einfaldlega með því að segja: Ja, þingmaðurinn er staðinn að því að fara með rangt mál. — Ég kann í rauninni engin tök á því að ræða frekar málin, þegar svona er á málum haldið.

Hæstv. forsrh. minntist á það og vildi gefa frekari upplýsingar í sambandi við væntanlega stöðvun togaranna, að ég hefði m. a. krafizt þess að fá tryggingarvíxil, sem ég hefði undirskrifað fyrir hönd minnar útgerðar, afhentan aftur, þegar hætta var á því, að togararnir hættu við sína stöðvun. En mætti ég spyrja hæstv. forsrh.: Af hverju skyldi ég og fleiri hafa farið fram á það að fá afhentan tryggingarvíxil, sem við vorum látnir leggja fram, nema vegna þess, að togaraeigendur voru búnir að samþ. að stöðva og það var búið að samþ. það svo rammlega samkvæmt till. formanns togaraeigendafélagsins, að togaraeigendur voru látnir skrifa upp á víxil til tryggingar því, að þeir stæðu við gerða samþykkt um það, að togararnir yrðu stöðvaðir um áramót? Þegar nú átti að taka þessa samþykkt aftur, þá vitanlega vildu þeir, sem höfðu gefið slíka víxla, óska eftir því að fá þá til baka. Þetta sannar því fullkomlega mitt mál, að það er rétt, að togaraeigendur höfðu samþykkt þetta. Ég hins vegar lýsi því hreinlega yfir, að ég er því andvígur að taka þessa samþykkt aftur, því að það er óeðlilegt og það er hreinlega brot á þeim samtökum, sem togaraeigendur eru í í þessum efnum,

Og svo kom síðasta atriðið. Forsrh. varpaði þeirri spurningu til mín í sambandi við þá stöðvun, sem nú er öllum sýnileg, hvort ég væri eigandi að hraðfrystihúsi eða hefði með hraðfrystihús að gera. Ég svaraði þessu játandi, eiginlega fyrst og fremst til þess að heyra, hvað á eftir ætti að koma, því að ég vissi, að ef ég segði nei, þá vitanlega næði þetta ekki lengra. Ég er vitanlega ekki eigandi að hraðfrystihúsi. Ég er hins vegar formaður í stjórn hraðfrystihúss ég hef nokkuð með það að gera, svo að það gat nú alveg eins mátt heita svo, að ég svaraði þessu játandi. Og hvað kom svo? Jú, svo kemur þetta: Þarna er sökudólgurinn, segir hann, maðurinn, sem hefur með þetta frystihús að gera. Það er honum að kenna, að stöðvunin verður nú um áramót, vegna þess að það er ekki búið að gera upp reikninga 1955, meðan árið 1955 er ekki liðið. Þetta eru sökudólgarnir, þeir bera ábyrgðina á því, að allt stöðvast. — Ja, í ýmis strá er nú gripið. Nú á sem sagt að nota það sem afsökun, að vegna þess m. a., að frystihúsin í landinn og væntanlega togararnir og bátarnir eru nú, 16. des. 1955, ekki búnir að gera upp ársreikninga sína, er ekki hægt að vita, hvernig afkoman er, og þar með er ekkert hægt að gera. En ég get bara frætt hæstv. forsrh. á því, að það eru allar líkur til þess, að flestöll frystihús í landinu og ég held ábyggilega öll togaraútgerðin í landinu verður ekki búin að gera upp sina reikninga og skila þeim fyrr en langt er komið á vetrarvertíð. Það hefur verið svo á undanförnum árum, það veit hæstv. forsrh., það hefur verið svo á hverju einasta ári, og ekki hefur hingað til þurft að bíða eftir því. En hér er aðeins verið að grípa í vonlaust hálmstrá til þess að reyna að afsaka, hvernig komið er, það hefur verið hægt að ráða fram úr þessum málum, stundum í fyrri hluta janúar, og alltaf án þess að reikningar yfirstandandi árs hjá þessum fyrirtækjum lægju fyrir. Það liggja alveg nægar upplýsingar fyrir um það, hvernig afkomunni er varið og hvernig þessi mál yfirleitt standa, og það mun væntanlega verða enn eins á þessu ári, að það verða gerðar einhverjar ráðstafanir, áður en reikningar fyrir 1955 liggja fyrir. Það er því með öllu haldlaust hjá hæstv. ríkisstj. að ætla að skjóta sér undan þessum vanda með því að segja: Vegna þess að þessi frystihúseigandi er ekki búinn að skila reikningum, vegna þess að þessi reikningshaldari hefur ekki skilað reikningum fyrir árið 1955, er ríkisstj. löglega afsökuð með að gera ekki neitt. (Gripið fram í: En 1954?) Ja, þeir reikningar liggja fyrir fyrir löngu. (Gripið fram í: Hefur ríkisstj. fengið þá?) Ja, hún hefur ekki beðið mitt frystihús um þá, ég verð bara að segja það. Ef ríkisstj. biður um þá, þá skal hún fá þá undireins, það hefur ekkert staðið á því. Og reyndar vil ég líka taka það fram í sambandi við þann sökudólg, sem hann benti á, þar sem ég var í þessu tilfelli, að ríkisstj. hefur enn ekki beðið mig eða mitt frystihús um reikninga fyrir 1955 eða neinar upplýsingar.

Hið sanna í málinu er það, eins og ég sagði, að ríkisstj. hefur skipað í málefnum togaranna fjölmenna þingkjörna n. til þess að rannsaka rekstrarafkomu þeirra, fengið allýtarlegar upplýsingar um það, hvernig þau mál liggja fyrir, og hún hefur á hverri stundu getað fengið frá samtökum togaraeigenda allar þær upplýsingar, sem hún hefur leitað eftir. En það hefur verið lítið, sem hún hefur gert í þeim efnum. Og ég hef ekki heyrt það fyrr hér á Alþingi, að samtök frystihúsaeigenda hafi alveg skorazt undan því að láta hæstv. ríkisstj. hafa þær upplýsingar í sambandi við sinn rekstur, sem óskað hefur verið eftir. Það hefði þá verið ákveðin ástæða til þess að taka það upp sérstaklega, ef samtökin neita því. Og það á a. m. k. ekki við um einstaka eigendur frystihúsa. Þetta er því með öllu haldlaus afsökun, algerlega haldlaus. Eftir stendur svo hitt, sem allir hafa vitað. Ríkisstj. var nákvæmlega ljóst, hvað til stóð, hefur vitað það allt árið út, að um áramót mundi draga til stöðvunar alls bátaflotans og togaraflotans og frystihúsanna, ef ekki yrðu komnar einhverjar nýjar till. til lausnar þessum vandamálum.

Þetta hafa allir landsmenn vitað. Og til ítrekunar á þessu hafa svo samtök útvegsmanna fyrir meira en mánuði tilkynnt almenna stöðvun. Það hefur verið gengið svo stíft eftir þessu frá hálfu útvegsmanna, frá hálfu þeirra manna, sem við allir vitum að hæstv. forsrh. þekkir mætavel til hjá, að enginn útvegsmanna skærist þar úr leik með fullkomna stöðvun, að þeir hafa verið látnir skrifa undir víxla, eins og forsrh. hefur hér minnzt á, ekki aðeins togaraeigendur, heldur og bátaeigendur um allt land, til þess að tryggja það, að engin fleyta hreyfi sig eftir áramót. Þetta hefur ríkisstj. líka vitað. Og það kom greinilega fram hér í yfirlýsingu hæstv. forsrh., að hann hefur vitað þetta. Það verður því enginn sakfelldur um það, að framleiðslan stöðvist um áramót, annar en ríkisstj. sjálf, varðandi það að leggja fram till. Það verður ekki hægt að benda hér með einum fingri á einhvern þm., hvorki hér í þingsalnum né annars staðar, og segja: Þarna er sökudólgurinn, það er honum að kenna. — Það verður miklu auðveldara, því að allir fingur í landinu munu benda á ríkisstj. eina og segja: Það er henni að kenna.