27.10.1955
Efri deild: 11. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 693 í C-deild Alþingistíðinda. (2037)

64. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Flm. (Haraldur Guðmundsson):

Herra forseti. Á síðasta þingi flutti ég frv. um þetta sama efni, sem ekki náði þá afgreiðslu.

Eins og kunnugt er, eru bætur, sem slysatryggingin eða Tryggingastofnunin greiðir í einu lagi, annaðhvort fyrir missi starfsorku eða til vandamanna við dauðsfall eða atvinnuslys, ekki skattskyldar, þ. e. a. s. slíkar eingreiðslur vegna orkutaps eða dánarbætur teljast ekki til skattskyldra tekna.

Þegar tryggingalögin fyrst voru sett, var nokkur hliðsjón höfð af persónufrádráttarákvæðum tekjuskattslaganna, en þó voru bótaupphæðir, t. d. lífeyrisupphæðir til gamalmenna og öryrkja, verulega hærri en persónufrádrátturinn þá var. Þegar svo tekjuskattslögunum, þ. e. a. s. er varðar tekjuskatt einstaklinga, var breytt síðast hér á Alþingi, var við ákvörðun persónufrádráttarins höfð nokkur hliðsjón af gildandi ákvæðum um lífeyrisupphæðir til öryrkja og gamalmenna, en þar var aðeins miðað við þær lágmarksupphæðir, sem tryggingalöggjöfin veitti rétt til. Hins vegar er í tryggingalöggjöfinni gert ráð fyrir því, að bæði til gamalmenna og öryrkja megi og beri í sumum tilfellum að greiða uppbætur á lífeyrisupphæðirnar, sem geti numið allt að 40%. Það kom þegar í ljós eftir afgreiðslu skattalaganna, að allir þeir, sem einhverra slíkra uppbóta nutu, urðu að greiða af þeim tekjuskatt.

Síðan þessum ákvæðum tekjuskattslaganna var breytt, hefur enn fremur það gerzt, að lífeyrisupphæðirnar hafa verið hækkaðar um 5% á árunum 1954 og 1955, þannig að þær almennu bótaupphæðir eru nú þegar orðnar heldur hærri en persónufrádráttur samkvæmt tekjuskattslögunum.

Á þessu ári voru svo kaupgreiðslur til opinberra starfsmanna hækkaðar, a. m. k. hjá hinum lægra launuðu, 1. júlí s. l., um h. u. b. 5%, og gert er ráð fyrir því, að við endurskoðun launalaganna í haust muni einhver frekari hækkun koma til.

Ég tel víst, að Alþ. fylgi þeirri reglu, sem það hefur fylgt til þessa, að hækka lífeyrisgreiðslur til öryrkja og gamalmenna nokkurn veginn í sama hlutfalli og laun opinberra starfsmanna breytast. Því hefur verið fylgt frá byrjun og fram að þessu, og ég vil mega vænta þess, að svo verði enn á þessu hausti. En ef svo verður, er sú almenna lífeyrisupphæð til gamalmenna og öryrkja komin talsvert upp fyrir það mark, sem persónufrádrátturinn er ákveðinn í gildandi skattalögum.

Til viðbótar kemur svo það, að þeir, sem njóta hækkunar, er getur orðið nú allt að 40% ofan á lífeyrinn, greiða að sjálfsögðu einnig skatt af þeim hluta, þó að engar aðrar tekjur séu fyrir hendi. En þeir, sem fyrst og fremst njóta slíkra hækkana, eru menn, sem af heilsufarslegum ástæðum þurfa umönnun og hjúkrun eða dvelja á elliheimilum eða öðrum slíkum hælum. Nú er það vitað, að þó að 40% séu greidd til hækkunar á ellilífeyri, þá vantar mjög mikið á, að sú upphæð hrökkvi til þess að greiða dvalarkostnaðinn á slíku hæli; í sumum tilfellum er það einn þriðjungur, sem vantar, og í öðrum tilfellum jafnvel heldur meira.

Það liggur því í augum uppi, virðist mér, að það sé fullkomlega óréttmætt og óeðlilegt að leggja tekjuskatt, þótt ekki sé hann hár eða tilfinnanlegur, á slíkar tekjur sem þessar, sem augljóst er að ekki hrökkva til brýnustu framfærslunauðsynja hjá hlutaðeigandi bótaþega. Það er líka óeðlilegt, ef borið er saman við það, að eingreiðslur, eins og ég sagði í upphafi máls míns, vegna dauðsfalla eða vinnuslysa, eru ekki skattskyldar, og því alveg óeðlilegt, að lífeyrisgreiðslur eða fastar árlegar greiðslur verði það heldur.

Eins og lögin eru nú, geta því bæði öryrkjar og gamalmenni og ekkjur, sem njóta lífeyris eftir lát manns síns, þurft að greiða tekjuskatt, þó að engar aðrar tekjur séu fyrir hendi en þær bótagreiðslur, sem ákveðnar eru í tryggingalöggjöfinni, og það er ómögulegt að neita því, að það er í fyllsta máta óréttmætt og óeðlilegt. Hitt er sjálfsagt, að ef tekjurnar fara fram úr því marki og aðrar tekjur koma í viðbót, þá gildi að sjálfsögðu um skattlagningu slíkra tekna alveg sömu ákvæði og gilda fyrir aðra borgara í landinu.

Ég vil því leyfa mér að leggja til, að þessu frv. verði að lokinni umr. vísað til hv. fjhn., sem ég vildi mega vona að tæki þá málið til athugunar og gæti komizt að annarri niðurstöðu en varð á síðasta þingi.