16.12.1955
Neðri deild: 36. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 234 í B-deild Alþingistíðinda. (204)

126. mál, bráðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði

Einar Olgeirsson:

Hæstv. forsrh. spurði míg, af hverju ég vildi fara að fá útreikninga þessara manna, sem reiknuðu allt til andskotans. Jú, mig langaði nefnilega til þess að sjá þá, vegna þess að ég hef séð þá dálítið áður, þegar erfiðlega hefur staðið á í íslenzku þjóðfélagi að áliti ríkisstjórnarinnar. Ég sá útreikninga þessara manna og fór yfir þá m. a. í fjhn. bæði 1949 og 1950, þegar gengislækkunin var undirbúin, og ég veit, að það eru að nokkru leyti núna, a. m. k. þeir, sem mestu ráða, þeir sömu og þá var. En ég benti hæstv. forsrh. á það þá, hvernig þeir menn, sem lögðu þá útreikningana fyrir ríkisstj., sem farið var eftir, mundu hafa reiknað út 1944, þegar verkföllin voru í september þá og október, allt var að stöðvast og ýmsir vísir menn sögðu, að nú væri ekki um neitt annað að gera en að taka upp ægilega stéttabaráttu í landinu og lækka svo og svo gífurlega kaup alls almennings. Hvernig hefðu þessir menn — ég býst við, að Benjamín Eiríksson sé nú einn aðalsérfræðingurinn eins og áður í þessu — reiknað út, ef þeir hefðu átt að reikna út 1944, hvað hefði komið út úr þeim útreikningi hjá þeim þá? Hefði það komið út úr þeim útreikningum, að við hefðum átt að kaupa togara 1944? Nei, það hefði komið út úr þeirra útreikningum, að ríkið hefði ekki átt að kaupa neina togara. Það hefði átt að lofa einstaklingum, sem hefðu kært sig um það, að leggja í það, og það hefðu í hæsta lagi verið keyptir 6 togarar með því móti, annað ekki. Þetta er sú stefna, sem byggt hefur verið á þessi síðustu ár. Þessir hagfræðingar, sem hafa reiknað út fyrir ríkisstj. þessi síðustu ár, hafa reiknað allt vitlaust, af því að þeir skilja ekki íslenzka þjóðhætti, skilja ekki undirstöðuna að íslenzku atvinnulífi, skilja ekki nauðsynina á því að afla okkur framleiðslutækja, heldur hugsa um það eitt, hvernig ákveðið hjól í peningamálunum getur gengið. Þess vegna er það, að mig hefði langað til að sjá framan í þessa útreikninga einu sinni enn þá til þess að geta í tíma hrakið þá.

Svo talaði hæstv. forsrh. um, að vandinn væri sá að reyna að ganga úr skugga um þarfir útvegsins, og var að tala um það viðvíkjandi skilunum á reikningunum. Á ekki ríkið sjálft eitt hraðfrystihús? Hvernig er útkoman á því 1954? Eru ekki til nokkur hraðfrystihús í Vestmannaeyjum, sem vitað er dálítið um, hvernig hafi gengið? Heyrt hef ég fullyrt, án þess að á móti væri mælt, að eitt stærsta hraðfrystihús í Vestmannaeyjum hafi grætt í fyrra 3 millj. kr. Hvernig er það með fiskimjölsverksmiðjuna Klett? Er það rétt, að hún hafi verið að kaupa tvo togara núna nýlega? Skyldi ekki vera einhvers staðar gróði, þegar aflinn bara er kominn í land, á þessum hlutum, svo að maður tali ekki um þegar gjaldeyririnn gengur eitthvað lengra? Nei, ég held, að ríkisstj. hefði átt að geta gert sér nokkurn veginn hugmynd um þetta og a. m. k. gert ráðstafanir til þess, að útvegurinn gæti gengið, þó að hún væri ekki búin að reikna allt hárnákvæmt út.

Hæstv. forsrh. var að spyrja um, hvort útvegurinn hefði nokkurn tíma stöðvazt í tíð nýsköpunarstjórnarinnar. Ég skal segja honum það, að ég held, að hann hafi ekki stöðvazt um nein áramót þá. Ég held hann hafi gengið. Ég man ekki betur en hann hafi gengið. En meira að segja eftir að nýsköpunarstjórnin er farin frá og stjórnarkreppa er í landinu, þá man ég ekki betur en sá ráðherra, sem þá hafði með sjávarútvegsmálin að gera, hafi lagt fyrir í desemher 1946, þegar dálitlir erfiðleikar voru, frv. um fiskábyrgð, sem hafi verið samþ. í þinginu, þó að engin stjórn hefði þá meiri hluta í þinginu og stjórnin sæti aðeins til bráðabirgða, — verið samþykkt, ef ég man rétt, með öllum atkv. þm. að einum undanteknum. Meira að segja þegar nýsköpunarstjórnin var dauð, en hélt þó áfram að fara með ríkisstjórn, reyndist hún hafa kraft í sér til þess og þm. allir, stjórnarandstaðan líka, þá ábyrgðartilfinningu að láta hlutina ganga og afgreiða fyrir nýár þannig sjávarútvegsmálin, að það væri haldið áfram að reka sjávarútveginn eftir nýár. Svona gekk það þá. Það er bara svo langt liðið síðan og hæstv. forsrh. búinn að lifa svo margar leiðinlegar stjórnir, sem hafa orðið honum til angurs og armæðu síðan, að hann getur nú ekki lengur gert sér í hugarlund, að það hafi nokkurn tíma yfirleitt verið þannig, að sjávarútvegurinn hafi fyrir nýár verið tryggður með að ganga.

Svo fór hæstv. forsrh. að tala um, að það væri víst einhver hræsni eða skinhelgi hjá mér, hann vissi eiginlega ekki almennilega, hvernig hann átti að skilja það, sem honum fannst vera umhyggja fyrir togurunum og annað slíkt. Ég held nú, að hæstv. forsrh. ætti að fara gætilega í að bera mér eða okkur hræsni eða skinhelgi á brýn í sambandi við okkar áhuga á þessum efnum. Það hefur verið gert áður og þannig, að þeir, sem það gerðu, endurtaka það áreiðanlega ekki. Ég man ekki betur en ég hafi verið kallaður alveg sérstaklega tungulipur hræsnari, þegar ég flutti mína ræðu hér um togarana og að við ættum að kaupa togara, því að það þótti svo fjarlægt, að það væri lagt út í annað eins og að fara að kaupa togara, þannig að það kemur satt að segja úr hörðustu átt hjá þessum hæstv. forsrh. að fara að bera mér hræsni eða skinhelgi á brýn í sambandi við umhyggju fyrir togurunum. Okkur varðar um þessa togara og þeirra rekstur, ekki bara vegna þess, að þessir togarar hafa einu sinni verið kallaðir „skýjaborgirnar“ okkar, heldur vegna þess, að velferð verkalýðsins og velferð þjóðarinnar í heild er undir því komin, að þeir gangi. Og svo vil ég minna hæstv. forsrh. á það, að 2/3 af þeim togurum, sem nú eru reknir á Íslandi, eru reknir af bæjarútgerðum eða bæjarfélögunum með þátttöku einstaklinga í bæjunum á einn eða annan hátt. Togararnir eru þannig að tveim þriðju hlutum nokkurs konar þjóðnýtt útgerð, sem okkur er sannarlega ekki sama um, hvernig fer um, sem við viljum að gangi, ekki aðeins vegna hagsmuna verkalýðsins, sem vinnur við þá, og þar af leiðandi hagsmuna þjóðarinnar, heldur einnig vegna hagsmuna þeirra bæjarfélaga, sem eiga sína atvinnu yfirleitt undir því, að þessir togarar gangi. En hvernig hefur verið farið með þessar bæjarútgerðir? Jú, þessar bæjarútgerðir allar afla með sínum togurum gjaldeyrisins, en gjaldeyririnn er tekinn af þeim og fenginn auðvaldinu hérna í Reykjavík til þess að græða á honum. Tapið er skilið eftir hjá bæjarútgerðunum, og það er ætlazt til þess, að þær meira eða minna standi undir því eða brotni undir því. Þegar nýsköpunartogararnir voru keyptir og þegar þær ráðstafanir voru gerðar að ráðstafa þeim út um allt land og ráðstafa þeim m. a. til bæjarútgerðanna, þannig að 2/3 þeirra væru eign bæjarútgerðanna að meira eða minna leyti, var sagt af einum auðmanni hér í Reykjavík: Og þeir skulu á endanum allir koma til okkar. — Það var meiningin að brjóta niður þetta kerfi, sem alþýðusamtökin í landinu þá voru að byggja upp í sameiningu, að bæjabúar sjálfir, að landsmenn sjálfir ættu að mjög miklu leyti á einn eða annan hátt sína togaraútgerð. Það var meiningin, að á endanum kæmi þetta allt saman aftur til auðvaldsins í Reykjavík. Og ein aðferðin til þess að brjóta þetta niður og koma þessu aftur í hendurnar á auðvaldinu í Reykjavík er að láta þessa togara ganga með halla, taka af þeim gjaldeyrinn handa auðvaldinu í Reykjavík, sem síðan stórgræðir á honum, græðir margfalt meira á gjaldeyrinum frá togurunum en nemur því tapi, sem bæjarútgerðirnar verða fyrir. Þess vegna er okkur ekki sama um, hvernig þetta gengur. Við viljum ekki aðeins, að það sé tryggt, að almenningur hafi atvinnuna við þessi stóru tæki og þau gangi, heldur líka, að bæjarútgerðirnar séu ekki látnar brotna saman fjárhagslega undir þessum þunga, á meðan auðvaldið í Reykjavík safnar auði og lifir í vellystingum praktuglega, eins og það gerir núna og sér ekki neitt fyrir endann á því. En í öllum þeim útreikningum, sem hagfræðingar ríkisstj. hafa verið með, sem alltaf komast að sömu niðurstöðu um, að hægt væri að lækka kaupgjaldið hjá almenningi, eins og vissir menn héldu fram líka 1944, þá er aldrei komið inn á, að það þurfi að lækka lífs-„standardinn“ hjá auðmannastéttinni í Reykjavík, að það sé hægt að minnka gróðann, sem vissir auðmenn hér og vissar ríkisstofnanir hafa. Þess vegna hefði ég viljað sjá framan í þessa útreikninga, sem þarna var um að ræða. Þess vegna vil ég segja hæstv. forsrh., að það er ekki hræsni eða skinhelgi hjá okkur, það er lífsbarátta alþýðunnar í landinu fyrir því, að hún eigi stór og góð tæki, tæki, sem ganga í sífellu, tæki, sem hún eigi, og arðurinn af þeim sé ekki tekinn af þessum tækjum og af hinum raunverulegu eigendum þeirra og afhentur auðvaldinu í Reykjavík til þess að braska með.