06.02.1956
Efri deild: 62. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 700 í C-deild Alþingistíðinda. (2048)

150. mál, landshöfn í Keflavíkurkaupstað og Njarðvíkurhreppi

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Mér finnst þetta vera hreint fjárhagsmál. Hér er um það að ræða, hvort á að auka þá fjárfestingu, sem er í landinu, með því að leyfa nú, að þær ábyrgðir, sem ætlaðar voru til framgangs hafnargerð í Njarðvíkum, verði færðar til ótiltekinna annarra hafna í landinu. Þyki rétt að nota ábyrgðina, sem lögum samkvæmt á að veita vegna Njarðvíkur, til að auka fjárfestingu í landinu, þá er að athuga, hvort það á heldur að gera í höfnum, húsbyggingum eða annars staðar, og því tel ég málið hreint fjárhagsmál og eiga að fara til fjhn.