16.02.1956
Efri deild: 70. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 700 í C-deild Alþingistíðinda. (2051)

153. mál, hlutatryggingasjóður bátaútvegsins

Flm. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Lögin um hlutatryggingasjóð voru sett 1949. Síðan hefur að sjálfsögðu fengizt mikilsverð reynsla um framkvæmd þessara mála og starfsemi hlutatryggingasjóðs, svo að það er ekki óeðlilegt, þó að nú kynni að þurfa að breyta einstökum atriðum í þessari löggjöf.

Frv. það, er hér liggur fyrir á þskj. 372, fjallar þó aðeins um eitt afmarkað atriði, sem ég hef alveg sérstaklega orðið var við að hindrar oft eða tefur afgreiðslu mála hjá stjórn sjóðsins. Þetta atriði er um ákvörðun meðalveiðimagns. Lögin segja, eins og þau eru nú, að meðalveiðimagn skuli ákveða í reglugerð. Þetta er í rauninni óframkvæmanlegt. Veiðisvæðin skipta mörgum tugum, og meðalveiðimagn er breytilegt eftir veiðisvæðunum og breytist ár frá ári. Þess vegna liggur í augum uppi, að það er ekki framkvæmanlegt í sjálfu sér, að hver breyting á meðalveiðimagni sé jafnframt reglugerðarbreyting. Það er a. m. k. mjög óheppilegt. Hitt virðist eðlilegra, að taka upp í lögin bein ákvæði um, hvernig meðalveiðimagnið skuli ákveðið.

Nú er hið svokallaða meðalveiðimagn fundið þannig, að stjórn sjóðsins gerir sínar till. og sendir þær sjútvmrh. til staðfestingar. Viðkomandi ráðuneyti þarf síðan að leita umsagnar hjá þremur aðilum: Landssambandi ísl. útvegsmanna, Alþýðusambandi Íslands og Fiskifélagi Íslands, um þetta atriði hverju sinni. Stjórnir þessara samtaka þurfa síðan að halda fund hver fyrir sig og gera sínar ályktanir, senda þær svo aftur viðkomandi ráðherra. Þá þarf ráðuneytið að vinna úr þeim og fella svo úrskurðinn um málið og senda hann sjóðsstjórninni. Þetta hefur verið ákaflega þungt í vöfum og tafsamt.

Nú vill svo vel til, og sér hver maður, ef að gáir, að umsagnir þessara aðila eru í rauninni alveg óþarfar, vegna þess að Landssamband ísl. útvegsmanna og Alþýðusamband Íslands eiga samkvæmt lögum sinn fulltrúann hvort í þriggja manna stjórn sjóðsins. Að vísu á Fiskifélagið ekki fulltrúa í sjóðsstjórninni samkvæmt lögum, þó að nú vilji þannig til, að fiskimálastjóri er form. sjóðsstjórnarinnar. En hins vegar er í lögunum alveg ákveðið gengið út frá því, að sjóðsstjórnin starfi í nánum tengslum við Fiskifélag Íslands, og ætti þess vegna að vera óþarft að leita umsagnar þess sérstaklega hverju sinni um þetta atriði.

Frv., ef að lögum yrði, mundi auðvelda töluvert framkvæmd hlutatryggingasjóðslaganna án þess, að ég hygg, að skerða á nokkurn hátt nauðsynlegt öryggi í málsmeðferð.

Nú kann vel að vera, að ástæða væri til að breyta fleiri atriðum í lögunum um hlutatryggingasjóð. En það má vænta þess, að sú hv. n., sem fær þetta mál til meðferðar, leiti umsagnar a. m. k. hjá stjórn hlutatryggingasjóðs, og er þess þá að vænta, að fram komi þau atriði, sem sjóðsstjórnin kynni að hafa áhuga fyrir að fá breytt í lögunum að fenginni undangenginni reynslu.

Ég leyfi mér að leggja til, að þessu frv. verði að lokinni umr. vísað til sjútvn.