16.12.1955
Neðri deild: 36. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 239 í B-deild Alþingistíðinda. (206)

126. mál, bráðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði

Forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Út af ummælum eða ræðu hv. 2. þm. Reykv. skal ég gera örstutta aths.

Hv. þm. fór mjög hörðum orðum um þá hagfræðinga, sem hafa verið að vinna að ýmsum athugunum fyrir ríkisstj. Þessir menn eru dr. Benjamín Eiríksson, Ólafur Björnsson prófessor, Jóhannes Nordal forstöðumaður hagfræðideildar Landsbanka Íslands og Klemenz Tryggvason hagstofustjóri. Ég skal ekkert segja um það, hvort ég sé sammála þeim hugleiðingum, sem þeir hafa haft í frammi og ég skoða enn sem algert einkamál ríkisstj. til leiðbeiningar, en þeir eru ekki maklegir þess óhróðurs, sem hv. 2. þm. Reykv. hafði um þá, og ég veit, að hann meinar það ekki heldur.

Hv. þm. sagði, að það væri orðrómur um, svo að ekki sé sterkar að orði kveðið, að eitt af frystihúsunum hefði grætt 3 millj. kr. á s. l. ári, annað hefði grætt svo, að það hefði nýverið fest kaup á tveimur togurum. Fiskiðjuver ríkisins, sem við ættum að geta kynnt okkur og er eitt af stóru frystihúsunum og hefur haft mikinn afla, hefur, að ég held, ekki grætt neitt og jafnvel tapað. Ég gerði mér vonir um betri niðurstöðu en ég óttast nú, að raun verði á. Það er líka vitað, að mörg frystihúsin úti um land kvarta sáran undan afkomunni, og þá segi ég: Er furða, þó að ríkisstj. segi: Við getum ekki gert tillögur, fyrr en við fáum reikninga frá þessum fyrirtækjum, hreina reikninga? Við höfum vikum, svo að ég segi ekki mánuðum saman heimtað þessa reikninga, og það er ekki fyrr en í gær, eins og ég upplýsti áðan, sem við höfum fengið reikninga fyrir árið 1954. En ef við höfum þá í höndum, er kannske mögulegt, að okkar sérfróðu menn geti út frá þeim dæmt um líkurnar fyrir afkomu þessa árs. Þessu verða menn að gera sér grein fyrir. Þó að hv. 11. landsk. (LJós) segði, að hann hefði ekki verið rukkaður um reikningana, þá er það ekki rétt. Ég veit ekki, hvort hann hefur persónulega verið rukkaður, en hann er einn af meðlimum þess félagsskapar, sem hér um ræðir, og frá honum hafa ekki fengizt reikningar þrátt fyrir ítrekuð tilmæli, fyrr en skriflega var tilkynnt frá ríkisstj., að þeir yrðu þá og þeir einir að bera ábyrgð á þeirri stöðvun, sem fram undan væri. Það virðist hafa komið svo óþægilega við þá, að við höfum þó fengið a. m. k. eitthvað af reikningum nú.

Ég skal nú ekki fara að tala um ræðuna fögru um togarana frá 11. maí 1944. Mér þótti hún mjög falleg, líklega af því, að ég hafði skrifað grein um áramótin 1945–44, þ. e. 5 mánuðum áður, um dálítið svipaðar hugleiðingar, svo að það gutlar víðar á hugsjónum en hjá þessum hv. þm. Þurfti reyndar enga spekinga til að láta sér detta í hug, að ef við hefðum nokkur hundruð milljónir, þá væri rétt að verja þeim að vissu leyti og að vissu marki til að endurnýja okkar úr sér gengnu atvinnutæki.

Okkur varðar um togarana, segir þessi hv. þm., og ég efa ekki, að hann álíti það. Umhyggjan fyrir afkomu þeirra hefur þó ekki verið meiri en svo, að hinn voldugi verkalýðsflokkur, sem hann veitir forstöðu, hefur ekki viljað eiga neinn hlut að máli um það, að ekki væru gerðar hærri kröfur á hendur þessum togurum en svo, að þeir fengju undir þeim risið. Um það ber ljóslegt vitni það, sem hann sjálfur hefur verið að segja, og einnig það, sem hv. 11. landsk. segir, að 2000 kr. dagsstyrkur sé hundsbætur. Hv. 2. þm. Reykv. orðaði það svo, að úrbætur gætu legið í því að leyfa togurunum sjálfum að selja sinn gjaldeyri og þá bátunum væntanlega líka. Ég veit ekki, hvort hann gerir sér fyllilega grein fyrir, hvað af því mundi leiða, ef einstakir framleiðendur fengju sinn gjaldeyri til umráða. Ég er ekki viss um, að með því móti væru verndaðir betur en með núverandi kerfi hagsmunir launastéttanna í Reykjavík og um byggðir landsins en með því kerfi, sem nú ríkir, þó að útvegsmenn að sjálfsögðu mundu þiggja þann greiða, ef hv. þm. er reiðubúinn til að afhenda þeim gjaldeyrinn til frjálsrar sölu.

Hv. 1. landsk. (GÞG) sagði, að hér hefði komið tvennt merkilegt fram í umr.: yfirlýsing hæstv. fjmrh. annars vegar og mín hins vegar um það, að ágreiningur væri á milli Framsfl. og Sjálfstfl. um, hvort auðið þætti eða æskilegt að ákveða fjárl. fyrir nýárið. Það er rétt, þessi ágreiningur kom. Ég skal vitna til, að hér hefur komið fram ein yfirlýsing í viðbót, og hún er frá hv. 5. landsk. (EmJ), sem stendur nokkuð nærri hv. 1. landsk., þó að maður viti aldrei, hve náin séu böndin milli hinna einstöku flokksmanna í Alþfl. Ég hef því talið, að meðan þeir eru í sama flokki, mætti nokkuð vitna til yfirlýsinga hv. 5. landsk. til sönnunargildis, þar sem hv. 1. landsk. á hlut að máli, en hv. 5. landsk. sagði alveg réttilega, að það megi færa báðum sjónarmiðunum margt til ágætis. Það er ekkert óeðlilegt, þegar um mál er að ræða, sem orkar tvímælis, að um það geti orðið nokkur ágreiningur innan stjórnarflokkanna. Það er engin goðgá, og út af því er — því miður fyrir stjórnarandstöðuna — engin stjórnarkreppa nú. Hvort stjórnarkreppa verði síðar í samsteypustjórn, um það er bezt að hafa sem minnsta spádóma, en allir, sem til þess hlakka, geta átt sínar vonir. Hinir, sem vilja hindra það, hafa líka ástæður til að vona, að hægt verði að hindra það, svo lengi sem þeir telja þjóðinni til farsældar, að þessir flokkar vinni saman.

Hv. þm. sagði, að það hefði verið hin gullna regla í Bretlandi, að stjórn yrði að vera sammála, annar s yrði hún að fara. Ef þetta ætti að ráða í bókstaflegum skilningi, þá held ég, að það væri hyggilegt að mynda aldrei samsteypustjórn í neinu landi, því að vitaskuld er samsteypustjórn oft ósammála um margt, sem á góma ber, þó að menn leitist við að gera ágreininginn sem minnstan og ráða fram úr vandræðalaust, ef báðir telja þjóðarnauðsyn, þegar um tvo flokka er að ræða, eða allir, ef um fleiri flokka er að ræða, að allir flokkarnir vinni saman. Menn láta hér eins og einhver stórtíðindi hafi komið fyrir — ég held í mannkynssögunni — út af því, að það hefur komizt upp, að við hæstv. fjmrh. erum alls ekki alltaf sammála, þó að ég sé kallaður handbendi hans og hæstv. landbrh. í Framsfl. og þeir mínir og minna meðráðherra í Sjálfstfl. Þeir eru ásakaðir um að vera of nærri okkur og við of nærri þeim, en það hefur bara komizt upp, að við erum ekki alltaf sammála. Ég vona, að þetta verði minnisstætt í mannkynssögunni eða a. m. k. Íslandssögunni, ekki síður en þegar brezka stjórnin gerði samkomulag um það að vera ekki sammála.

Hv. þm. sagði, að ríkisstj. hefði vitað um það í a. m. k. mánuð, að fyrir dyrum stæði allsherjarstöðvun fiskiskipaflotans. Ég segi honum, og ég veit, að hann trúir því, að það eru örfáir dagar síðan ég fékk fregnir af því, að togararnir hefðu í hyggju að stöðva veiðar, og um leið og ég fékk af því fregnir, reyndi ég að girða fyrir það, og ég er alls ekki vonlaus um, að það megi takast. Bátaflotinn hefur hins vegar á undanförnum árum ýmist verið á síðustu dögum ársins eða ekki fyrr en í janúar með sín mál, þannig að auðið hafi verið að ráða fram úr vandræðunum, svo að ekki heldur þetta er nein nýjung. Auðvitað gerir ríkisstj. allt, sem hún getur, til þess að sem minnst þjóðarböl hljótist af slíkum stöðvunum, ýmist með því að fyrirbyggja þær eða reyna að láta þær vera sem allra skemmstar. Mér finnst það mjög ómaklegt af hv. 1. landsk. að vera að endurtaka þau ámæli, sem hér hefur verið beint að ríkisstj. fyrir, að hún hafi ekki haft sínar till. tilbúnar nú í dag, sérstaklega ef hann hefur hlýtt á umr. Ég upplýsti hér áðan, að frystihúsin, sem ekki hafa fengizt til að skila sínum reikningum fyrr en nú í gær, hafi haft á orði, að það væri kannske ekki hægt að greiða fyrir fiskinn styrklaust nema 50 aura eða kannske eitthvað lítið eitt yfir það, en sjómennirnir heimtuðu kr. 1.47, og það er náttúrlega ekki neinn gamanleikur að ráða fram úr þeim vanda, sem á höndum yrði, ef það sannast á reikningum frystihúsanna, að slíkar tölur séu réttar, en sjómennirnir þrátt fyrir það ætla að halda sér við kauphækkanir. Og það má engin stjórn láta sig henda það að bogna undan ámælum stjórnarandstöðu, sem eiga við svo lítil rök að styðjast sem þessi ámæli.

Ég skal svo aðeins að lokum segja það, að eins og ég áðan gat um, hafa þeir hagfræðingar, sem hér hafa verið að verki, unnið algerlega fyrir stjórnina og telja sitt álit sem einkaálit til stjórnarinnar að svo komnu máli. Ég tel þess vegna ekki, að ríkisstj. hafi neina skyldu til að afhenda það einum eða öðrum, heldur kynni sér sjálf það, sem þetta álit ber með sér, og taki það tillit til þess, sem hún að rannsökuðu máli telur eðlilegt, og ekki þar fram yfir. Þegar svo stjórnin ber fram sínar till., þá rökstyður hún þær á þann hátt, sem hún telur rétt vera, og þá geta menn dæmt um, hvort hennar rök eru rétt eða röng. A. m. k. á hv. 1. landsk., sem sjálfur er hagfræðingur, að geta myndað sér sjálfur skoðun án þess að spyrja um, hvað dr. Benjamín álíti í þeim efnum, hann hefur aðgang að öllum þeim upplýsingum, sem þessir hagfræðingar hafa átt aðgang að. Ég veit ekki heldur, hvort það yrði til að auðvelda lausn á þessu máli, að áliti manna, sem hafa unnið og skoðað sig sem einkaráðunauta stjórnarinnar, yrði útbýtt meðal þm., þegar sumir segja: Ja, við viljum taka mikið tillit til okkar stéttarbræðra — eins og ég býst við að hv. 1. landsk. mundi segja, og aðrir segja: Ja, þetta eru bara menn, sem eru að benda mér á, hvernig eigi að koma öllu til helvítis eða til andskotans, svo að ég sé ekki að rangfæra ummæli manna; þannig var það orðrétt. Ég veit ekki, hvort það yrði til þess að auðvelda þetta. Ég álít, að ríkisstj. eigi að skoða þetta í ró og næði, þegar hún nú fær nokkru rýmri tíma og þingstörfum er lokið, og styðja sig við þessar till., ef hún telur þær heppilegustu leiðina, en annars ekki.