20.03.1956
Efri deild: 88. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 708 í C-deild Alþingistíðinda. (2073)

188. mál, sýsluvegasjóður

Frsm. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Lengi er hægt að laga, og með tilliti til þess sannleika tók fjhn. frv. þetta til athugunar á nýjan leik í gær, eftir að 1. umr. hafði farið fram, og samþykkti að bera fram brtt. þá við frv., sem nú liggur fyrir á þskj. 499.

Till. er um það, að þau ákvæði gangi ekki í gildi, að oddvitar taki við innheimtu sýsluvegasjóðsskattsins, fyrr en vélabókhald er tekið upp í viðkomandi sýslufélagi. Frv. er flutt vegna þessara ákvæða. Það er flutt til þess, að sýslumenn geti hagnýtt sér skýrsluvélar. Sumir sýslumenn og þá einkum hér í nálægð Reykjavíkur eru þegar að byrja það, en aftur á móti má ganga út frá því, að ýmis sýslufélög taki það ekki upp fyrr en einhvern tíma seinna, og þá er ástæðulaust að gera þá breytingu á innheimtu sýsluvegasjóðsgjaldanna, sem frv. gerir ráð fyrir vegna vélabókhalds, fyrr en það kemur til framkvæmda.

Það er auðskilið mál, að sýsluvegasjóðirnir, eins og þeir eru reknir undir umráðum sýslunefndanna, þar sem sýslumaður er gjaldkeri, eru eðlilega settir þannig, að sýslumaður innheimti tekjur þeirra hjá sýslubúum. Hins vegar er gengið inn á það með frv. að létta þessu af sýslumönnum, til þess að hinar stórvirku vélar, svonefndar skýrsluvélar, geti hagnýtzt. Ég hygg, að þetta ákvæði, sem brtt. felur í sér, verði talið til bóta, og þess vegna rétt að samþykkja það eins og fjhn. leggur til. Frv. hefur sama gildi eftir sem áður.