16.12.1955
Neðri deild: 36. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 243 í B-deild Alþingistíðinda. (208)

126. mál, bráðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Hæstv. forsrh. upplýsti hér áðan, hverjir væru í þessari hagfræðinganefnd. Það hefur reynzt rétt, sem ég var að geta til, að tveir þeir menn, sem ég hef stundum átt smádeilur við áður, þeir dr. Benjamín Eiríksson og prófessor Ólafur Björnsson, eru þarna í, og við þá átti ég sérstaklega, þegar ég var að tala um þá útreikninga, sem skaðlegastir væru fyrir þjóðarbúskapinn, svo að það sýnist ekki sem hæstv. ríkisstj. sé farin að taka sér betri ráðgjafa í þessum efnum en hún hefur haft undanfarið. Og það, sem fram hefur komið frá þeim hagfræðingi, sem Landsbankinn hefur í þessu efni, í tímariti Landsbankans, er satt að segja ekki þess háttar, ef ætti að fara eftir slíkum ráðleggingum, að manni finnist það beinlínis efnilegt fyrir þjóðina. Hins vegar efast ég alveg um, að hagstofustjóri kæri sig um að vera nokkuð tengdur við nokkuð af þessu; ég hef ekkert haft við það að athuga, sem fram hefur kornið frá honum og ég hef séð. Hitt aftur á móti lízt mér ekki á, ef það á einu sinni enn þá að leggja til grundvallar sömu spekina og var lögð til grundvallar 1949 og 1950.

Ég á enn „doðrantana“ frá Benjamín frá þeim tímum, — þeir voru allir afhentir þá, — útreikningana, sem sýndu sig að vera vitlausir eftir á, og annað slíkt, sem þjóðinni var stjórnað meira eða minna eftir í nokkur ár, og það var sannarlega ekki gæfuríkt að ætla að fara að breyta eftir slíkum sérfræðingaráðleggingum núna.

Ég minntist hér á áðan út frá því, hvernig þessi maður ráðlagði 1949 og 1950, hvað hann mundi hafa ráðlagt 1944, sem sé þveröfugt við það, sem hæstv. forsrh. sagði að ekki hefði þurft mikla speki til að sjá. Sú speki, sem við sáum 1944, var ekki til í heila Benjamíns eða þeirra, þeir hafa aldrei nokkurn tíma farið inn á það. (Gripið fram í.) Ég veit það, vegna þess að það stendur í þeirra stóra „doðrant“, sem hæstv. forsrh. aldrei nokkurn tíma hefur lesið allan, en ég hef margoft bent honum á, en hann er alltaf ónýtur við að lesa. Hins vegar var það nú svo, þó að hæstv. forsrh. segi nú, að það hafi ekki þurft mikla speki í september 1944 til þess að sjá það, sem við sáum báðir þá, gekk anzi treglega að koma mörgum í skilning um þá speki, sem við sáum þá. Hvernig gekk honum í Sjálfstfl. með það? Endaði það ekki þannig, að fjórði hlutinn úr þingflokki Sjálfstfl. var á móti ríkisstj. og móti öllu því, sem þá átti að gera? Ég tala nú ekki um, að allur Framsfl. hljóp út úr, honum leizt þannig á það. Ef það skyldi nú vera hugsunarhátturinn hjá þeim helmingi Sjálfstfl., sem þá var á móti þeirri speki, sem við sáum, sem ræður núna, og Framsfl. svo með í stjórn, þá fer að verða skiljanlegt, að margt sé ráðið af lítilli vizku, og þess vegna er nú ekki nema von, að maður vilji gjarnan fá að sjá spekina, sem eigi að fara að leggja til grundvallar fyrir aðgerðunum núna á næstunni, gengislækkun, kaupbindingu o. s. frv. Ég held þess vegna, að hæstv. forsrh. ætti að sjá, að það væru ef til vill í stjórnarandstöðunni þeir menn, sem hefðu þá speki til að bera, sem hann núna stærir sig af 1944, en hvorki hann né allur Sjálfstfl. né Framsfl. sáu þá.

Næst minntist hann á, að við ættum ekki að gera svona miklar kröfur á hendur togurunum. Ég vil láta hann vita, að það erum ekki við, ef hann meinar verkamannastéttina með því, sem gerum miklar kröfur á hendur togurunum. Síður en svo. Sjómennirnir og þeirra fulltrúar vinna fram á nætur, þeir unnu hérna til kl. 6 í nótt við að reyna að komast að niðurstöðu um að semja í sjómannadeilunni, semja um kaupgjaldið. Það var unnið eitthvað betur og skynsamlegar á því sviðinu en hjá hæstv. ríkisstj. og hennar hagfræðingum. Það þætti þokkalegt, þegar sjómenn og atvinnurekendur væru að semja, ef þeir hefðu það þannig, að fyrst skipuðu þeir eina hagfræðinganefnd og eina sérfræðinganefnd, svo byrjaði sérfræðinganefndin að starfa, á meðan yrði hagfræðinganefndin að bíða, og svona gengi þetta koll af kolli, og svo væru þeir að bíða eftir reikningum, sem lægju í næsta húsi, og hefðu aldrei vit á að ná í þá og kæmust þess vegna aldrei að neinni niðurstöðu og gætu þess vegna aldrei farið að semja. Nei, þvert á móti, atvinnurekendur og sjómenn fara að tala hér saman, þeir voru að vinna hér til kl. 6 í morgun. Ég held, að ríkisstjórnin mætti taka sér þessi vinnubrögð til fyrirmyndar. Það eru ekki sjómennirnir, sem gera miklar kröfur á hendur togurunum, það eru sjómennirnir, sem halda togurunum uppi, það eru þeir, sem vinna á þeim, það eru þeir, sem hætta sér út á sjóinn. Það eru þeir, sem þræla þar og draga fiskinn í land. Það er ekki yfirstéttin hérna í Reykjavík, sem gerir það, það eru ekki þeir 200 milljónamæringar, sem hér eru í Reykjavík. Það er yfirstéttin í Reykjavík, sem gerir of miklar kröfur á hendur togurunum, yfirstéttin og allt hennar bákn. Og jafnvel Landsbankinn einn, sem hæstv. forsrh. er bankaráðsmaður í, tekur sínar 30–40 millj. kr. á ári, sem væri nóg handa togurunum til þess að geta tórað. (Gripið fram í: En hefur þessi hv. þm. nokkurn tíma komið á sjó yfirleitt?) Já, ég hef oft komið á sjó, m. a. þegar forsrh. var að senda mig til Moskvu. (Gripið fram í.) A. m. k. eitt er víst, að ég hef sýnt það vit á togurum að álita þá ekki eitthvert gums, sem þjóðin hefði ekkert við að gera, eins og hæstv. fjmrh., sem stendur í þeirri hugmynd, að það hafi verið mesta ógæfa þjóðarinnar, að hún skuli nokkurn tíma hafa farið inn á það að kaupa nýsköpunartogara 1944, og sjálfur lýsti yfir, að nú stæði líka stjórnin uppi með þessa togara og vissi ekkert, hvað hún ætti að gera við þá. Hæstv. ráðh. hefur aldrei haft hugmynd um það, að togarar væru til þess að framleiða gjaldeyrinn, hann hefur aldrei nokkurn tíma getað komizt lengra en það að „spekúlera“ í, hvernig ætti að skipta gjaldeyrinum. En að vera með í því að framleiða hann og hjálpa til þess að koma upp fleiri framleiðslutækjum hjá þjóðinni, það hefur hann aldrei getað skilið að væri forsenda fyrir því, að það væri hægt að skipta gjaldeyrinum, meira að segja í helmingaskipti.

Hæstv. forsrh. var að rangfæra mín orð og var að tala uni, að ég hefði viljað, að togararnir mættu selja sinn gjaldeyri. Það hef ég aldrei sagt. Ég hef bara sagt, að gjaldeyririnn væri tekinn af togurunum og afhentur yfirstéttinni í Reykjavík til að græða á honum, svo að raunverulega eru togararnir, ef mætti nota það orð, þjóðnýttir handa auðmannastéttinni í Reykjavík. Ég held það væri þá nær að þjóðnýta þá alveg, láta ríkið reka þá, láta ríkið ábyrgjast þá og láta þá ganga í sífellu. Þá þyrftu þeir ekki að standa í þessu stappi, og þá held ég, að ríkisstj. færi að eygja nokkurn veginn, hvað væri öruggasta leiðin út úr þessu.