19.03.1956
Efri deild: 87. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 709 í C-deild Alþingistíðinda. (2083)

189. mál, hundahald

Frsm. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Þetta frv. er komið fram fyrir sömu ástæður og tvö þau, er á undan fóru. Sýslumenn hafa lengi innheimt skatta af hundum, og um tveggja ára skeið, eða síðan 1953, hafa þeir átt að greiða úr sýslusjóði kostnað við hundalækningar.

Þessi liður, hundaskatturinn, rúmast ekki í kerfinu, sem vélabókhaldið takmarkar, og því er aftur horfið að því að leggja til, að tekið sé upp það fyrirkomulag, sem áður var, að sveitarstjórnir innheimti hundaskatt og greiddur verði beint úr sveitarsjóði kostnaður við hundalækningar.

Þessu fylgir svo það, að hreppstjóri í hverjum hreppi og skattstjóri í hverjum kaupstað skuli gera í tvíriti skrár yfir hunda á sinu svæði og afhenda annað eintakið oddvita eða bæjarstjóra í aprílmánuði ár hvert og hitt hlutaðeigandi sýslumanni eða bæjarfógeta.

Það þótti rétt að leggja til, að þessar skýrslur yrðu gerðar í tvíriti. Fyrst þarf oddvitinn eða bæjarstjórinn að hafa þær til þess að geta séð um, að skattar séu greiddir af öllum hundum, og enn fremur séð um, að allir hundar komi til hreinsunar, en hins vegar á hlutaðeigandi sýslumaður eða bæjarfógeti að líta eftir því, að hundalækningar séu framkvæmdar, og þar af leiðandi þarf hann að vita um hundahaldið til þess að geta haft það eftirlit.

Sýslunefndir bera ábyrgð á því í sveitum, að hundalækningar fari fram, og bæjarstjórnir í kaupstöðum, en oddviti og bæjarstjóri eru framkvæmdastjórar hvor á sínum stað fyrir þessar nefndir. Í samræmi við þetta er gert ráð fyrir því í 4. gr., að sektir samkvæmt lögum um hundahald, sem hundaeigendur kunna að verða að greiða, renni í sveitarsjóð, en ekki sýslusjóði og bæjarsjóði eins og áður var. Allar tekjur og öll gjöld skulu samkvæmt þessu frv. koma fram innan sveitar. Ég held, að sveitarstjórnir og sýslunefndir geti yfirleitt ekki haft á móti því, þó að þetta fyrirkomulag sé aftur upp tekið, því að satt að segja hef ég líka orðið þess var, að þó að lögunum væri breytt 1953, þá hefur í sumum héruðum verið höfð gamla reglan, og í framkvæmdinni verður þá engin breyting þar.

Fjhn. leggur óklofin til, að frv. þetta verði samþykkt.