23.11.1955
Sameinað þing: 17. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 9 í D-deild Alþingistíðinda. (2124)

108. mál, Norðurlandaráð

Utanrrh. (Kristinn Guðmundsson):

Herra forseti. Hinn 10. des. 1952 var samþ. á Alþingi þáltill. um, að Ísland gerðist aðili að stofnun Norðurlandaráðs. Með þál. þessari var samþ. fylgiskjal, sem í voru starfsreglur ráðsins. Eins og kunnugt er, gerðust Finnar ekki þá aðilar að þessum samtökum Norðurlandaþjóðanna af ástæðum, sem ekki skal farið út í hér. — Í 3. gr. starfsreglnanna frá 1952 segir: „Þegar Finnland óskar þess, geta finnskir fulltrúar tekið þátt í fundum og ályktunum ráðsins.“ Nú hefur ríkisþing Finna samþ. að gerast aðili að Norðurlandaráðinu, og verður því nauðsynlegt að gera þær breytingar á starfsreglunum, sem leiðir af aðild Finnlands. — Ég tel ekki ástæðu til þess að fjölyrða frekar um málið, en vísa til þáltill., sem útbýtt hefur verið hér.