23.11.1955
Sameinað þing: 17. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 9 í D-deild Alþingistíðinda. (2125)

108. mál, Norðurlandaráð

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég vil lýsa ánægju minni yfir þeirri till., sem hér liggur fyrir, og því tilefni, sem veldur því, að hún er fram komin, að Finnar ætla að taka þátt í Norðurlandaráðinu. En fyrst starfsreglur Norðurlandaráðs eru hér til umr., þá held ég sé rétt, enda tími til kominn, ekki sízt af því tilefni, sem gefst með þátttöku Finnlands í því, að Alþingi Íslendinga athugi nokkuð sínar aðferðir í þessum málum og rétt okkar Íslendinga í Norðurlandaráðinu.

Eins og hv. þingmenn vita, var þannig gengið frá, þegar undirbúin var stofnun Norðurlandaráðs á fundi norræna þingmannasambandsins í Stokkhólmi í ágúst 1951, að Íslendingar skyldu eiga þar fimm fulltrúa. Ég var einn af þeim, sem tóku þátt í þeim fundi sem fulltrúar Alþingis, og við lögðum þá til grundvallar þær reglur og þær greinargerðir, sem fyrir lágu um það ráð, sem við Íslendingar þá gerðumst aðilar að að stofna.

Það var upphaflega ætlunin, þegar Norðurlandaráð var stofnað, að á fundum þess ráðsskyldu komast að ólíkar skoðanir, og var beinlínis tekið fram, að sú væri tilætlunin með aðferðunum um að kjósa í Norðurlandaráðið, að mismunandi skoðanir í þingunum og ekki síður stjórnarandstöðu en stjórnarsinna skyldu komast þar að. Þegar hingað kom heim, var hins vegar sú ákvörðun tekin, sem aldrei hefur verið gerð um nokkrar kosningar, nokkra nefnd eða um nokkurt slíkt á Alþingi, að þeir fimm fulltrúar, sem Ísland átti að hafa í Norðurlandaráði, skyldu vera kosnir þrír í Nd. og tveir í Ed. Og okkar á milli þurfum við náttúrlega ekki að fara í neinar grafgötur um, af hverju þetta var gert. Það var gert til þess að reyna að útiloka hlutfallsleg áhrif hinna ýmsu skoðana eða flokka í þinginu á samsetningu nefndarinnar eða fulltrúanna.

Þegar þáltill., sem þá lá fyrir, var samþykkt, ræddi ég þetta mál nokkuð, og ég vitnaði þá í þær greinargerðir, sem fyrir fundi þingmannasambandsins lágu, og þær starfsreglur, sem það setti, þegar undirbúið var að stofna Norðurlandaráðið. Í þeim reglum stóð meðal annars — ég ætla að leyfa mér að vitna í þýðingu á því, sem ég hef áður flutt hér:

„Fulltrúa þingmanna ber að kjósa þannig, að þeir séu fulltrúar fyrir ýmsar mismunandi skoðanir. Sérstakt gildi verður það að álítast hafa, að með þessu fái stjórnarandstaðan einnig tækifæri til að koma virkt fram. Menn verða að geta gengið út frá því, að ráðið gefi nokkurn veginn hugmynd um skoðanirnar í hinum ýmsu flokkum þingmanna. Afstaða ráðsins í sérhverju vandamáli, sem síðar kunni að leggjast fyrir þingið, þarf að gefa nokkurn veginn vísbendingar um, hvernig þingið kemur til með að dæma það mál.“

Og ég gæti haldið áfram að vitna í fleiri þætti úr greinargerð, sem lá fyrir, og ég gæti vitnað í sérstaka greinargerð prófessors Nils Herlitz, sem hefur verið fulltrúi fyrir ríkisþing Svía í stjórn Norðurlandaráðsins, þar sem hann segir m. a. orðrétt:

„Aðalatriðið er að sjálfsögðu, að kosningarnar í rauninni, þótt máske ekki formlega, séu hlutfallskosningar.“

Ég minnist á þetta hérna vegna þess, að ég vildi mega vænta, að þær ástæður, sem hafa að öllum líkindum valdið því, að svo tókst til sem raun varð á 1952, hvernig kosningatilhögun varð og hefur verið líka ákveðin fyrir þetta þing, væru brott fallnar og að það ætti að vera hægt að fara nú að komast að samkomulagi um að hafa með dálítið lýðræðislegri hætti kosningarnar til Norðurlandaráðs.

Hins vegar verð ég að segja það, að jafnvel þó að samkomulag tækist um slíkt, að kosið væri í Sþ. eins og annars er gert með allar slíkar nefndir, þá er það spurning fyrir okkur Íslendinga, hvort fimm menn í Norðurlandaráð sé næg fulltrúatala fyrir Ísland. Ég veit ekki, hvort það er rétt af okkur endilega að tiltaka svo lága tölu, það gæti jafnvel verið heppilegt, að það séu fleiri þingmenn, sjö, níu eða jafnvel fleiri, sem hefðu tækifæri til þess að komast þar að. Og ég vildi eindregið mega óska þess, að núna, um leið og hv. utanrmn. fær þetta mál til meðferðar, athugi hún þetta, í fyrsta lagi, hvort ekki mundi vera hægt að ná samkomulagi um, að næst þegar kosið verður í Norðurlandaráð, sem sé á næsta þingi, verði kosið eftir venjulegum hætti, sem hafður er hér í Alþingi, hlutfallskosningu í Sþ., og í öðru lagi, og það þyrfti nefndin alveg sérstaklega að athuga í sambandi við þær till., sem hér liggja fyrir, hvort Ísland ætti ekki að fara fram á að fá þarna fleiri fulltrúa. Ég álít, að eigi að halda því kosningaskipulagi, sem verið hefur hér í þinginu á þessu, þá sé tvímælalaust rétt að fara fram á, að við fáum fleiri fulltrúa þarna, og mundi þá bera fram till. um það. Og ég hef ekki ástæðu til þess að ætla, að aðrar Norðurlandaþjóðir mundu neita okkur um það. En þetta tvennt vildi ég sem sé ákaflega gjarnan biðja hv. utanrmn. að athuga, um leið og þetta mál nú fer til hennar. Ég mun ekki flytja brtt. um þetta á þessu stigi málsins, en mundi kannske athuga það, ef ekki tækist í utanrmn. að fá samkomulag um breytingar í þessum efnum. Ég geng út frá, að umr. um þetta, eins og vant er um þau mál, sem eru til einnar umr., verði frestað, þegar ekki kveðja sér fleiri hljóðs, og málið komi þess vegna hingað aftur, þegar utanrmn. hefur fjallað um það.