26.10.1955
Sameinað þing: 7. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 22 í D-deild Alþingistíðinda. (2168)

41. mál, framleiðslusamvinnufélög

Flm. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Við stöndum þrír að þessari till. Auk mín eru það hv. þm. V-Húnv. og hv. þm. A-Sk. Vil ég, sem er fyrstur á blaðinu, fylgja till. úr hlaði með nokkrum orðum, þótt grg., sem prentuð er með till. á þskj. 46, sé allýtarleg.

Till. er auðskilin. Hún er um það, að Alþ. feli ríkisstj. að láta undirbúa löggjöf um framleiðslusamvinnu og leggi frv. þeirrar löggjafar fyrir næsta Alþingi. Fyrirmyndin að slíkri löggjöf mun vera til í erlendri löggjöf, t. d. hjá Bretum og Frökkum. Hjá þessum þjóðfélögum er margt slíkra félaga starfandi, sérstaklega í iðnaðinum, og fjölgar upp á síðkastið. Reynslan virðist sýna, að það skipulag sé heppileg aðferð til þess að sætta, eins og kallað er, fjármagn og vinnu.

Sagt er, að í Bretlandi hafi aldrei komið til verkfalls í framleiðslusamvinnufélagi. Þau hafa verið friðarreitir, þegar kaupgjaldsstríð hafa geisað. Framleiðslufélögin gjalda viðurkenndan taxta, en við reikningslok fær hver, sem vann, það sem verkið hefur gefið fyrir hann. Þannig er reynt með félagsskap þessum að skapa sannvirði vöru og vinnu. Hið vinnandi fólk gerist undir þessu skipulagi eigandi fyrirtækja, sem það vinnur við, og kýs framkvæmdastjórn fyrir þau. Hafa allir félagsmenn til kosningarinnar jafnan rétt, hvort sem þeir eru fésterkir eða fátækir.

Í Bretlandi hafa framleiðslusamvinnufélögin með sér samband og í Frakklandi einnig. Og innan vébanda alþjóðasambands samvinnumanna voru í árslok 1953 samtals 16½ þús. framleiðslusamvinnufélaga víðs vegar í heiminum.

Hérlendis er komin hreyfing á um stofnun framleiðslusamvinnufélaga. Rafvirkjar í Reykjavík stofnuðu félag 1. maí í vor, og virðist það fara vel af stað, ganga ágætlega. Húsasmiðir í Reykjavík og víðar eru að koma á hjá sér framleiðslusamvinnu. Og hvað ætli lægi nær en að þeir, sem gera út, taki upp framleiðslusamvinnu með þeim, sem starfa við fiskverkunarstöðvarnar?

Í framleiðslusamvinnufélagi á hver maður að vera eigin vinnuveitandi, eftir því sem við verður komið á félagslegum grundvelli, og njóta vinnu sinnar, eftir því sem hún er verðmæt af hans hendi. Starfi hér framleiðslusamvinnufélög, eiga þau ekki aðeins að geta orðið þeim, sem í þeim eru, mikilsverð lausn frá kaupgjaldsþjarki og tjóni af verkföllum, heldur eiga þau einnig að geta orðið mikilsverð hjálp til þess að sýna, hvað er rétt verðlag vinnu, og einnig, hvað er rétt verðlag þeirrar vöru, sem þau annast framleiðslu á.

Það hefur við stofnun félaganna komið í ljós nú þegar, eins og eðlilegt er, að ákvæði vantar tilfinnanlega í löggjöf hérlendis um framleiðslusamvinnu. Þetta skipulag þarf að fá réttargrundvöll til þess að standa á. Lög um samvinnufélög, nr. 46 frá 1937, eru fyrst og fremst miðuð við samvinnufélög í verzlun og samband þeirra félaga og eiga ekki í öllum efnum við svo lokaðan félagsskap sem framleiðslusamvinnufélög hljóta að vera. Byggingarsamvinnufélög fengu sína sérstöku löggjöf, þegar sú starfsemi var hafin, þótt þau byggist einnig í ýmsum atriðum á lögunum um samvinnufélög frá 1937. Þannig sérlöggjöf þurfa framleiðslusamvinnufélögin líka að fá, miðaða við þeirra viðfangsefni og eðlilegar athafnir. Hvert félagsform verður samkv. landslögum að eiga sinn rétt og hafa sínum skyldum að gegna.

Ég tel ekki ástæðu til að hafa þessi orð fleiri, leyfi mér að leggja til, að till. verði vísað til síðari umr. og hv. allshn.