16.11.1955
Sameinað þing: 13. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 36 í D-deild Alþingistíðinda. (2180)

78. mál, Alþingistíðindi

Flm. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. dómsmrh. og þeim tveim hv. þm., sem tekið hafa til máls, fyrir það, hversu vel þeir hafa í raun og veru tekið því, sem ég tel vera kjarna þess máls, sem hér er um að ræða, og í raun og veru meginatriði tillögunnar.

Það er mjög mikilsvert, að í ljós skuli koma, að þm. eru sammála um, að hér sé hreyft við máli, sem ástæða sé til þess að ræða um, og að þeir skuli vera sammála um, að breytt tilhögun á útgáfu Alþingistíðinda gæti orðið til bóta og að þingfréttir blaðanna og útvarpsins, þó að um þær hafi nú verið minna rætt, gætu staðið til mikilla bóta. Þetta er í raun og veru kjarni málsins. Hitt þarf auðvitað ekki að koma á óvart, að skoðanir geti verið nokkuð skiptar um það, hvaða ráðstafanir séu hér vænlegastar til úrbóta og hvort nokkur ráðstöfun sé til, sem nái þeim tilgangi, sem við þó virðumst allir sammála um að æskilegt væri að keppa að.

Hæstv. dómsmrh. taldi, að óframkvæmanlegt mundi verða að gera örstuttan útdrátt úr umræðum á Alþingi, þannig að viðunandi mætti teljast, þ. e. að nægilegs hlutleysis væri gætt, vegna þess að alltaf þyrfti að vega og meta, hvað taka skyldi og hverju sleppa, og í raun og veru væri með því verið að vega og meta rök manna og afstöðu. Ég skal engan veginn gera lítið úr þeim erfiðleikum, sem eru á því að gera slíka hluti, þannig að viðunandi megi teljast, en vil þó aðeins benda á, að þennan vanda leysa ótal útvarpsstöðvar og ótal blöð um víða veröld, auðvitað mismunandi vel, en vandinn er þó leystur á hátt, sem yfirleitt virðist ekki talin ástæða til að gagnrýna sérstaklega. Hæstv. menntmrh. tók einmitt dæmi, sem ég ætla að leyfa mér að vitna aftur í, en mínu máli til stuðnings. Hann nefndi fréttaflutning frá þingi Sameinuðu þjóðanna og ræddi sérstaklega um, að í heimsblöðunum og útvarpsstöðvum væri málflutningi stórveldanna gert miklu hærra undir höfði en málflutningi smáþjóðanna, sem án efa er rétt. En íslenzka ríkisútvarpið flytur einmitt fréttir frá Sameinuðu þjóðunum, einu sinni í viku a. m. k., að því er mér hefur virzt, og sá útdráttur er sendur að vestan frá höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna, og einhvern tíma minnir mig, að mér hafi verið sagt, að hlutur fréttamannsins í þessum efnum væri ekki annar en að snúa á íslenzku útdrætti, sem hann fengi afhentan í skrifstofu Sameinuðu þjóðanna. Ef þetta er rétt, virðist skrifstofa Sameinuðu þjóðanna í New York einmitt láta gera slíkan útdrátt af því, sem fram fer á þingi Sameinuðu þjóðanna, með einhverju vissu millibili og afhenda hann þeim fréttamönnum, sem þar eru staddir í aðalstöðvunum frá hinum einstöku þjóðum. Það er einmitt slíkur útdráttur, sem við heyrum lesinn hér í útvarpið alltaf öðru hverju í íslenzkri þýðingu. Ef allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna, þar sem hinar allra ólíkustu skoðanir og hin allra ólíkustu sjónarmið mætast og eigast við, ef sú skrifstofa treystir sér til þess að láta gera öðru hverju útdrátt úr því, sem þar gerist, þá ætti þessari stofnun hér varla að verða skotaskuld úr því, og í sjálfu sér er ekki meiri ástæða til þess að búast við óánægju með árangur þess starfs heldur en þess, sem unnið er í skrifstofum Sameinuðu þjóðanna í þessum efnum. Ég hef aldrei heyrt yfir því kvartað, að þar væri ekki gætt hlutleysis í nauðsynlegum mæli. Eins og ég sagði raunar áðan, held ég, að þingfréttir allra nágrannaríkjanna séu einmitt þannig, að þar séu umræðum gert hærra undir höfði en frásögnum af þingskjölum eða málum. Ég hlusta mjög oft á fréttir brezka útvarpsins og einstaka sinnum á þingfréttir í danska útvarpinu, og þær eru alltaf þannig. Meginefni þingfrétta brezka útvarpsins er einmitt frásagnir af umræðum, sem þar fara fram, og ég minnist þess ekki að hafa heyrt um það, að sú starfsemi væri gagnrýnd að neinu ráði a. m. k.

Það hefur þegar verið vikið að því, að stór blöð alls staðar leysa þennan vanda, telja það skyldu sína að leysa þennan vanda, þótt auðvitað megi um það deila, hvort það sé vel eða illa gert. Ég hef í áratugi lesið mjög rækilega eitt danskt dagblað, og það hagar fréttaburði sínum af löggjafarsamkomunni ávallt þannig að skýra almennt frá umræðum, ekki einungis sinna stuðningsmanna, heldur einnig andstæðinga sinna. Ég hef einnig í nokkur ár lesið, að vísu ekki mjög ýtarlega, amerískt dagblað, og þar gegnir sama máli. Fréttaflutningur frá þinginu þar er að vísu ekki mjög ýtarlegur, en frá þingi Sameinuðu þjóðanna t. d. oft allýtarlegur, og þar er þessari sömu reglu fylgt. Brezkt víkublað les ég og nokkuð oft, og þar gegnir enn sama máli. Þar er fastur dálkur, fréttir frá þinginu, sem næstum einvörðungu fjallar um þær umræður, sem þar gerast, og þó að þar sé að vísu aðallega sagt frá ummælum flokksbræðra útgefenda blaðsins, þá er mjög oft einnig sagt frá ummælum og ræðum andstæðinga þess og ávallt á þann hátt hvort tveggja, að engin tortryggni vaknar um, að ekki sé heiðarlega og rétt skýrt frá.

Mér dettur t. d. í hug varðandi það, sem fram hefur komið í ræðu minni og ræðu hæstv. dómsmrh., að alveg væri nægilegt að segja um þetta í slíkum útdrætti tvær setningar, t. d. þannig: Gylfi Gíslason vildi láta gera daglega stuttan útdrátt úr umræðum á Alþingi. Bjarni Benediktsson dómsmrh. taldi óframkvæmanlegt að gera slíkan útdrátt þannig, að nægilegs hlutleysis væri gætt. — Ég hygg, að í þessu komi fram kjarni málsins. Þetta eru tvær setningar og í sjálfu sér alveg nægileg frásögn af þeim skoðanamun, sem hér er uppi um þetta efni.

Hv. þm. Barð. var allharðorður í garð þingfréttamannanna og sýndi þar, að hann er skörungur mikill og víkingur í skapi. Taldi hann vænlegustu leiðina til umbóta í þessum efnum að beita þá harðræði, sem ekki vildu sýna fullkomna dyggð í starfi sínu.

Sannleikurinn um þetta mál held ég að sé sá, að þingfréttir blaðanna séu ekki jafnlélega úr garði gerðar og þær eru vegna óvandvirkni þeirra manna, sem þetta starf stunda, og enn þá síður vegna hæfileikaleysis þeirra. Ég held, að mergurinn málsins sé sá, að þeir menn, sem starfið stunda, halda, að til þess sé ætlazt af þeim, að þingfréttirnar séu eins og þær eru, að til þess sé ætlazt af þeim af flokkunum og stjórnmálaforingjunum, að þær séu eins og þær eru. Andrúmsloftið í stjórnmálabaráttunni er þannig, t. d. í forustugreinum blaðanna, að þingfréttamennirnir telja sig ekki vilja vera eftirbátar stjórnmálaritstjóranna í þessum efnum, og þess vegna tel ég, að stjórnmálaleiðtogarnir sjálfir geti hér ráðið ákaflega miklu um og ábyrgðin sé í raun og veru hjá þeim, en ekki þeim starfsmönnum, sem þingfréttirnar annast. Svo vill til, fyrst aðallega hefur verið rætt hér um stærsta blað landsins, Morgunblaðið, þó að ég vilji gjarnan endurtaka það, eins og aðrir hafa tekið fram, að öll dagblöð bæjarins eiga hér í raun og veru alveg óskilið mál, þá skal ég geta þess, að vegna starfs míns hef ég haft kynni af mjög mörgum þeirra manna, sem Morgunblaðið hefur haft sem þingfréttaritara sína. Það virðist hafa haft þann sið að hafa í þessu starfi stúdenta í háskólanum. Tilviljunin hefur hagað því þannig, að þeir hafa mjög oft verið einmitt stúdentar í lagadeild háskólans, þar sem ég kenni dálítið, svo að mér er kunnugt um, að þeim mönnum, sem þetta starf hafa annazt, verður sízt af öllu brugðið um hæfileikaleysi og áreiðanlega ekki heldur um beina óvandvirkni í starfi. En eftir þeim kynnum, sem ég hef haft af þeim þar, hefur mér stundum komið dálítið á óvart, hvernig skrif þeirra hafa verið í þessu starfi þeirra sem þingfréttamanna. Ég hef ekki getað fundið neina skýringu á þessu, hvorki með sjálfum mér né heldur í viðræðum, sem ég hef átt um þetta við kunnuga menn, aðra en þá, að þeir telji þetta skyldu sína. Þeir telja það skyldu sína í starfi við blaðið og við flokkinn. Það, sem þarf að gera í þessu efni, er, að öllum, sem þessi störf annast, sé gert ljóst, að það er ekki skylda þeirra, hvorki við blað né flokk, að haga fréttum þannig að blanda algerlega saman frásögn af staðreyndum, þ. e. af umræðum, og túlkun á þeim, og sízt af öllu að hafa túlkunina túlkun á rangri frásögn, á því, sem ekki átti sér stað. Þetta tel ég, eins og hv. 8. þm. Reykv. vék að í sinni ræðu, fyrst og fremst mál, sem snertir stjórnmálaflokkana sjálfa, leiðtoga þeirra, og alþingisforsetana. Umbæturnar, sem allir eru sammála um að þurfi að verða á þessu, ættu fyrst og fremst að verða að frumkvæði þeirra.

Hv. 8. þm. Reykv. sagði og það vafalaust alveg réttilega, og það vildi ég gjarnan undirstrika, að þetta ástand væri eflaust leifar frá því, að dagblöðin hér voru lítil og stjórnmálabaráttan hér var enn þá meira návígi en hún er enn í dag. Þess má geta meðfram til gamans, að mér er ekki kunnugt um, að dagblöð nokkurra annarra nágrannaþjóða standi að þessu leyti á jafnlágu stigi og íslenzku dagblöðin gera enn, nema blöðin í Færeyjum. Blöð Norðurlandanna hinna allra eru löngu vaxin upp úr þeim barnasjúkdómum blaðamennskunnar, sem við enn þá þjáumst af, en það er mjög athyglisvert, að stjórnmálabaráttan í Færeyjum er enn þá og meira að segja miklu harðvítugri en hún er hér. Þar sjást í blöðum hlutir, sem ógerningur væri, held ég, að sæjust í íslenzkum blöðum, og þetta tel ég vera sönnun fyrir þeirri skoðun hv. 8. þm. Reykv., að hér sé í raun og veru enn um að ræða barnasjúkdóma, sem við þurfum að vaxa sem fyrst upp úr. Ég vil nefna til gamans dæmi, sem mér var sagt frá fyrir skömmu. Í færeysku blaði stóð um einn af stjórnmálaleiðtogum Færeyinga þessi setning:

N. N. var mikið drukkinn í X-götu í gær.“ Í blaði N. N., sem út kom viku seinna, stóð um ritstjóra blaðsins, sem þetta stóð í:

„A. A. var ódrukkinn á skrifstofu sinni í gær.“

Annað eins og þetta hygg ég að væri alveg óhugsandi að gæti staðið í íslenzkum blöðum, og sést þó af þessu, að þau eru ekki á lægsta hugsanlegu stigi í þessum efnum. En mikið mega þau enn bæta ráð sitt, ef vel á að vera.

Ég vil að síðustu undirstrika, að mér þykir vænt um, að þeir þingmenn, sem talað hafa, skuli hafa verið jafnsammála og raun ber vitni um, að hér þurfi að verða breyting á.