16.11.1955
Sameinað þing: 13. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 40 í D-deild Alþingistíðinda. (2182)

78. mál, Alþingistíðindi

Flm. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Það er aðeins örstutt athugasemd. Það fellur nú í minn hlut aftur að bera heldur blak af þingfréttariturunum. Það var meining mín með orðum mínum áðan að færa fram atriði, sem ég taldi vera þeim til afsökunar fyrir því, að fréttirnar væru úr garði gerðar eins og þær eru. Það, sem ég sagði, var það eitt, að mér fyndist margt benda til þess, að þeir teldu vera til þess ætlazt af sér, að þeir lituðu þingfréttir sínar með sama hætti og hin almenna stjórnmálabarátta hér er háð, en auðvitað ekki að tala um þá sem eins konar leigupenna eða neitt í áttina við það, sem er auðvitað allt annað. Ég staðhæfði ekki, að stjórnmálaforingjarnir hefðu gefið þeim slík fyrirmæli, heldur þetta eitt: mér þætti sennilegasta skýringin vera sú, að þeir héldu, að til slíks væri ætlazt af þeim.

Annars benti ræða hv. þm. Barð. einmitt til þess, hversu erfitt hlýtur að vera að vera þingfréttaritari, svo að ég haldi áfram að bera blak af þeim, vegna þess að það, sem hann sagði í sinni ræðu, var rangtúlkun á því, sem ég hafði sagt. Við ættum auðvitað fyrst og fremst að gæta þess sjálfir að hafa rétt eftir hver öðrum og rangtúlka ekki það, sem við segjum hverjir aðra hafa sagt, eða a. m. k. að gera jafnstrangar kröfur í þeim efnum og við gerum til annarra.