08.02.1956
Sameinað þing: 38. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 48 í D-deild Alþingistíðinda. (2203)

136. mál, atvinna við siglingar og stýrimannaskólann í Reykjavík

Flm. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Á þskj. 263 höfum við fimm þm. í hv. Ed„ sem allir eigum sæti í sjútvn. þeirrar d., leyft okkur að flytja till. til þál. um endurskoðun laga um atvinnu við siglingar á íslenzkum skipum og laga um stýrimannaskólann í Reykjavík.

Af hálfu Farmanna- og fiskimannasambands Íslands og Skipstjóra- og stýrimannafélagsins Verðandi í Vestmannaeyjum hafa mér borizt sem formanni sjútvn. hv. efri deildar margs konar uppástungur um breytingar á lögunum um atvinnu við siglingar og á lögum um stýrimannaskóla. Ég bar mig svo saman við hv. meðnm. mína í sjútvn. deildarinnar um þessi mál, þörf breytinganna og rökstuðning fyrir þeim, sem okkur hafði borizt, og varð niðurstaðan sú, að málið mundi réttast upp tekið þann veg að flytja till. til þál. í Sþ. og biðja um endurskoðun laganna. Þá leið kusum við frekar að fara heldur en að taka eitthvað af þeim till., sem fyrir lágu og ekki voru allar samhljóða, og setja þær fram í frumvarpsformi, þar eð við endurskoðun laganna kemur það betur til álita, hvað rétt sé að gera og fært sé og hægt sé í þessum efnum, heldur en þó að þingmenn vindi að því að taka eitthvert einstakt atriði eða einhver einstök atriði út af fyrir sig og bera fram till. um breytingar á sjálfum lögunum án undangenginnar endurskoðunar.

Lögin um atvinnu við siglingar eru nú að vísu ekki mjög margra ára gömul, en þau eru samt sem áður orðin það gömul, að þróunin, sem orðið hefur á fiskiskipa- og raunar öðrum skipaflota landsmanna, hefur framkallað óskir um breytingar á lögunum, og auðsællega er þörf á slíkum breytingum og þá um leið þörf á breyttri löggjöf um stýrimannaskóla.

Ég skal ekki við þetta tækifæri gera að umræðuefni þær sérstöku óskir, sem mest hefur borið á í þessu efni, frá Farmanna- og fiskimannasambandinu né heldur frá Skipstjóra- og stýrimannafélaginu Verðandi, með því að það, sem hér er farið fram á, er blátt áfram endurskoðun þessarar löggjafar. Út úr þeirri endurskoðun ætlumst við svo til að geti orðið samfelld skoðun og álit þeirra manna, sem þar um fjalla, um það, hvaða atriðum sé nauðsynlegt að breyta í þessari löggjöf, en þau eru vissulega til, sem bráð nauðsyn er á að breyta.

Það leiðir af sjálfu sér, að við ætlumst til þess, flutningsmenn, að við slíka endurskoðun séu þeir heyrðir, sem forustu hafa haft um að fá þessu máli hreyft hér á hinu háa Alþingi, og á ég þar í fyrsta lagi við fiskimanna- og farmannasambandið og þá um leið Skipstjóra- og stýrimannafélagið Verðandi í Vestmannaeyjum og önnur slík félagasamtök skipstjóra. stýrimanna eða sjómanna, sem hagsmuna hafa að gæta í þessu efni.

Sívaxandi og þráfelldar beiðnir um undanþágur frá ákvæðum téðra laga vegna skorts á nauðsynlegum réttindum gera nauðsyn endurskoðunar lagaákvæðanna og athugun breytinga til úrbóta mjög brýna. Vegna skorts á hæfilega mörgum mönnum, er hafa réttindi til skipstjórnar á hinum sístækkandi vélbátaflota, er horfið að því a. m. k. í sumum veiðistöðum að veita undanþágur frá ákvæðum laganna, og er það gert vegna þess, að ella mundu margir bátanna alls ekki mega á sjó fara eða stunda sjó. Þessi þróun málanna er mjög varhugaverð og getur enda reynzt hættuleg öryggi skipa og skipshafna yfirleitt.

Þörfin á að leysa málin til bráðabirgða með því að veita undanþágur hefur skapazt við það, hve bátafjöldinn vex hratt og miklu hraðar en fjöldi þeirra manna, sem rétt skilyrði hafa samkv. núgildandi lögum til þess að mega vera þar í skipstjórnar- og stýrimannastöðum. Þegar svo það fer að tíðkast í stórum stíl, að slíkir menn geta fengið undanþágur, þá er hætt við, að það verði sótt eftir hinu sama fyrir vélstjóra, sem t. d. hafa ekki, eins og nú stendur, rétt til þess að fara með vélar nema að vissri stærð, þegar svo ber til, að skipt er um vél í báti eða eitthvað því um líkt og þeir þurfa að fara með stærri vélar. En öll þessi þróun getur verið, eins og ég benti á áður, mjög varhugaverð.

Það er áríðandi, að endurskoðuninni sé hraðað og að ríkisstj. leggi fram till. þær, sem endurskoðunin væntanlega gefur tilefni til, fyrir næsta þing.

Þetta er samhljóða álit þeirra manna, sem ég hef haft samráð við í þessu efni og margir hverjir hefðu jafnvel kosið, að þess væri freistað að fá þegar á þessu þingi breytingu á þessum lögum.

Til þess að forðast misskilning vil ég taka það fram, að þó að ég nefndi ekki sjálfan sjómannaskólann eða stjórn hans og stýrimannaskólans í þessu efni, þegar ég taldi upp þá aðila, sem ætlazt væri til að væntanlegir endurskoðendur laganna ráðguðust við, þá leiðir af sjálfu sér, að við flm. ætlumst til þess, um leið og þeir eru heyrðir, sem sérstaklega æskja eftir þessari breytingu, að skólastjóri stýrimannaskólans og sjómannaskólans og þeir aðrir kunnáttumenn, sem á hans vegum eru, fái líka tækifæri til þess að koma að sínum skoðunum við endurskoðun laganna.

En um eitt atriði veit ég að þessir síðast nefndu aðilar eru sammála okkur flm. og sammála þeim, sem hafa ýtt eftir okkur til að hraða þessu máli áfram, og það er það, að bæði löggjöfin um atvinnu við siglingar og löggjöf stýrimannaskólans þurfi nú endurskoðunar við þar er enginn ágreiningur á milli.

Ég vildi svo mælast til þess, að þessu máli yrði vísað að loknum umr. til hv. allshn.