07.03.1956
Sameinað þing: 44. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 58 í D-deild Alþingistíðinda. (2218)

171. mál, endurbætur á aðalvegum

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég hef ástæðu til þess að þakka hv. fjvn., hversu vel hún hefur afgreitt þetta mál á þessu þingi með till. hennar á þskj. 425. Ég get þó ekki látið líða svo umr. að benda ekki dálítið á forsögu þess, en hún er sú, að á síðasta þingi bar ég fram þáltill. á þskj. 211 nákvæmlega sama eðlis, um athugun á þessu máli, ásamt þremur öðrum hv. þingmönnum, og tók m. a. fram í þeirri grg., sem þar fylgdi þáltill., hversu hlutfallið á milli viðhalds vega og nýbygginganna væri orðið óþolandi í landinu, sagði m. a., með leyfi hæstv. forseta: „Voru t. d. á s. l. ári veittar 11,3 millj. til nýrra þjóðvega, en 24 millj. kr. til viðhalds“ — og kom þetta skýrt fram þá í þeirri grg.

Síðast í grg. er svo sagt, að um þörfina á því, að þetta mál verði gaumgæfilega athugað, verði ekki deilt. Nú hefur þetta sjálfsagt þótt þá nýmæli, því að hv. fjvn. tók þessu svo dauflega þá, að það var ekki hægt að fá málið afgreitt frá nefndinni. Og þegar vitað var, að það var ekki hægt á því þingi, voru það aðrir hv. þm. úr Sjálfstfl., þeir sömu sem báru fram nú á þessu þingi þáltill. á þskj. 29, sem fluttu nýja till. um nákvæmlega sama efni og véku nokkuð við orðalagi. Það mál var ekki heldur afgreitt þá í hv. fjvn. Síðan er haldið áfram með málið nú á s. l. þingi, fyrst af tveimur hv. þm., sem flytja till. á þskj. 74, og fyrr á þinginu einnig af þeim sömu þm. sem fluttu till. í fyrra og fluttu hana aftur nú á þskj. 29, svo að það er sýnilegt, að málið sjálft hefur fengið betri undirtektir hjá hv. þingmönnum en hjá hv. fjvn. í fyrra.

Nú þykir mér vænt um að sjá, að fjvn. hefur fallizt fullkomlega í meginatriðum á kjarna till. minnar frá síðasta Alþingi.

Í sambandi við, hvernig taka ætti fé til þess að koma í framkvæmd hinum nauðsynlegu umbótum á vegakerfinu, sem allir virðast nú vera sammála um að þurfi að koma í framkvæmd, vil ég benda á, að það verður sjálfsagt að verða höfuðkrafan í því máli, að allir tollar og skattar, sem teknir eru af bifreiðum og benzíni í landinu, gangi til vegagerðarinnar. Og mér er óhætt að segja, að ef hinir nýju tollar, sem settir voru í fyrra á bifreiðar, hefðu verið teknir til þessara framkvæmda í staðinn fyrir að taka þá til annarra framkvæmda í landinu, þá hefði að sjálfsögðu létzt töluvert gangan til þess að fá betra vegakerfi. Ég þekki hvergi nokkurs staðar í heiminum, þar sem er verið að byggja upp vegakerfi, að neinir tollar, sem teknir eru af benzíni eða bifreiðum, séu notaðir til neins annars en að viðhalda vegakerfunum. Og það verður að vera frumskilyrði í framtíðinni hjá okkur, að allt það fé, sem tekið er af bifreiðum, sem til landsins flytjast, hvort heldur sem innflutningstollar af benzíni eða varahlutum og bílunum sjálfum, fari til þess að byggja upp vegakerfið, þar til það er orðið fullkomið vegakerfi eins og í öðrum löndum. — Þetta þótti mér rétt að láta koma fram.

Mér þótti einnig vænt um að heyra hjá hv. frsm., að samkv. áætlun um að byggja slíkan veg á milli Keflavíkur og Reykjavíkur skuli það ekki kosta með sívaxandi dýrtíð meira en 40 milljónir, því að þegar ég var í fjvn., fengum við áætlun um það frá þáverandi vegamálastjóra, að það mundi þá hafa kostað 60 millj. kr. Ég vildi ekki fallast á þá áætlun. En ég sé, að við að endurskoða áætlunina hefur vegamálastjóri komizt að þeirri niðurstöðu, að þetta gæti orðið 20 millj. kr. ódýrara. Ef hver endurskoðun getur sparað okkur 20 millj. kr. á slíkri vegalengd, þá er vel, að endurskoðun sé látin fara fram sem oftast.

Það var þá bent á að gefnu tilefni, að í Keflavík hefði árum saman verið notað sérstakt tæki til þess að malbika vegina og það hefði verið hægt að malbika um 1 km á dag. Við skoðuðum þá árlega þessar framkvæmdir og sannfærðum okkur um, að með þeirri umferð, sem hafði farið um þá vegakafla, sýndist það slitlag duga vel, og það var einmitt með tilliti til þess, að við óskuðum eftir, að það væri athugað, að vísu lauslega, hvað það mundi kosta að gera slíkan veg alla leið til Reykjavíkur, og fengum þá þær upplýsingar, að hann mundi kosta um 60 millj. kr. En vegna þess að sumir hverjir okkar vildu ekki almennilega trúa því, að inn í slíka vél væri hægt að láta efni fyrir um 1 millj. kr. á dag, þá efuðum við þessa áætlun, sem ég nú sé að við endurskoðun hefur farið niður í 40 milljónir.

Í sambandi við ummæli okkar ágæta fyrrverandi vegamálastjóra um það, að við mættum búast við því í framtíðinni, að meginvegirnir, þ. e. aðrir vegir en þó aðalvegirnir, sem hafa mestu umferðina, verði enn að verða malarvegir, þá er ég síður en svo á því máli. Ég tel einmitt, að það eigi að stefna að því, að svo að segja hver vegur á landinu, sem nokkur veruleg umferð fer um, verði gerður að malbikuðum vegi á þann hátt, sem hefur verið gert, eins og ég hef bent á, í sambandi við Keflavík. Ég hef farið um nokkuð mörg lönd hér, sem liggja nálægt Íslandi, og ég hef hvergi nokkurs staðar orðið var við, að haldið væri áfram að gera slíka vegi sem við gerum hér, þ. e. malarvegina, jafnvel ekki í allstrjálbýlum héruðum. Mér sýnist, að það hafi verið teknar upp þar þrjár aðferðir, þ. e. að steypa vegina, að malbika vegina, að sjálfsögðu eftir mjög mismunandi aðferðum, þar sem vegirnir, sem eiga að taka mestan þungann, hafa verið mjög mikið púkkaðir áður, hinir minna, sem þurfa minni umferð, og í þriðja lagi hlaðnir úr grjóti, eins og gert er mikið enn í Þýzkalandi. En hér virðist enn þá vera sú skoðun, að það sé varla þess að vænta, að við getum horfið frá í meginatriðum malarvegunum, sem er þó langnauðsynlegast að hverfa frá og kemur af tveimur eða kannske þremur meginástæðum. Hvenær sem vindur er, fýkur ofaníburðurinn burt, hvenær sem bleyta er, skolast hann í burtu, og það eru komnar slíkar kröfur á ríkissjóðinn nú um malartekju eða efnistekju ofan í þessa vegi, að það er vafasamt, hvort hann þolir að standa á móti þeim kröfum og hvort það á að taka á sig raunverulega í framtíðinni þá áhættu að þurfa kannske að borga fyrir hvert bílhlass, hvar sem það er tekið, allmikið fé, frá 10 upp í 40–50 kr. hlassið, en það er komið svo nú, að vegagerðin getur ekki staðið á móti því, að menn fái fullt gjald fyrir verðmæti, sem þeir eiga, þó að það sé verið að taka það ofan í vegi. Ég veit, að um þetta stendur orðið allmikill styrr í sumum hverjum héruðum á milli vegagerðarinnar og landeigenda. Það er eitt af því, sem ætti að þoka þessum málum áleiðis, að hverfa frá hinu gamla fyrirkomulagi um að halda áfram að leggja malarvegi, nema þar sem það er alveg óhjákvæmilegt vegna kostnaðarins og ekki eins nauðsynlegt að leggja í dýrari vegi vegna umferðarinnar.

Ég vil svo að síðustu endurtaka enn þakklæti mitt til hv. fjvn. fyrir þá miklu vinnu, sem hún hefur lagt í þetta mál, og til okkar ágæta fyrrverandi vegamálastjóra fyrir það, hversu hann hefur nú á sínu síðasta ári í þessu starfi lagt óhemjumikla vinnu í þá merku athugun, sem hér hefur farið fram.