07.03.1956
Sameinað þing: 44. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 60 í D-deild Alþingistíðinda. (2219)

171. mál, endurbætur á aðalvegum

Emil Jónsson:

Herra forseti. Á þskj. 74 bárum við hv. 1. þm. Árn. (JörB) og ég fram till. til þál. um að skora á ríkisstj. að athuga, hvort möguleikar væru á, að kostnaður við vegagerð yrði endurgreiddur að einhverju eða öllu leyti með skatti af bílum, sem um vegina fara.

Þessi till. okkar var fram komin vegna þess, að við eins og allir aðrir sáum þörfina á því, að vegirnir yrðu gerðir með varanlegu slitlagi, en sáum hins vegar ekki, að möguleikar væru á því, svo að vel væri a. m. k., að afla fjár til þessarar vegagerðar eftir venjulegum þekktum eða troðnum leiðum, og yrði þess vegna að reyna, hvort unnt væri að fara einhverjar aðrar leiðir til að afla þessa fjár. Ef um mjög takmarkaða vegagerð væri að ræða með varanlegu slitlagi, þá væri það a. m. k. mjög líklegt, að ekki nema nokkur hluti af bifreiðaeigendum landsins mundi aka þann veg, sem þannig væri gerður, og þess vegna væri kannske ekki að öllu leyti réttlátt að taka þann almenna skatt, sem allir bifreiðaeigendur á landinu greiða, til þess að mjög miklu leyti að nota hann í vegagerð eins og þessa, þó að nauðsynlegt væri. Hitt væri sanngjarnt, ef framkvæmanlegt væri, að þeir, sem um veginn færu og nytu gæða hans, spöruðu slit á sínum bifreiðum og annað þess háttar, greiddu heldur kostnaðinn af vegagerðinni að einhverju leyti með sérstöku gjaldi. Í þeirri þáltill., sem hv. fjvn. hefur nú borið fram á þskj. 425, sé ég, að sú hugsun, sem í okkar till. felst, hefur efnislega verið tekin upp, og ég er þakklátur hv. fjvn. fyrir það, því að þar með er okkar tilgangi náð um það, að þessi möguleiki verði athugaður og reynt að fá úr því skorið, hvort þessi leið sé framkvæmanleg eða ekki.

Meira hef ég raunar ekki um málið að segja, annað en það, að hv. frsm. n., hv. þm. Borgf., gat þess, að í bréfi vegamálastjóra, dags. 4. jan. s. l., sem prentað er sem fskj. með hinni nýju þáltill., sé þess getið, að aðeins örfáir slíkir vegir í Bandaríkjunum hafi verið gerðir þannig og helzt ekki annars staðar. Nú er ég að vísu ekki kunnugur í því landi, en ég hef þó farið þar í bifreiðum, og ég man eftir, að í fyrstu bifreiðaferðinni, sem ég fór í því landi og stóð í tvo klukkutíma og var líklega eitthvað í kringum 60–70 mílur, urðum við fjórum sinnum að borga þetta vegagjald, hvorki meira né minna. Og mér hefur verið tjáð, að mjög mikið af nýjum bifreiðabrautum í því landi séu einmitt gerðar á þann hátt, að kostnaðurinn við þær sé greiddur með skatti af þeim bifreiðum, sem um vegina fara. Ég hef komið að, þar sem slíkir vegir hafa verið í lagningu í mjög stórum stíl, og þessar brautir eru lagðar víða um Bandaríkin, og mér var þá tjáð, að það væri alltítt, að stofnkostnaður þessara vega væri tekinn með skattgreiðslu af bílum, sem um þá færu, svo að ég vildi a. m. k., áður en því yrði slegið föstu, að hér væri aðeins um örfáa vegi að ræða og að þeim færi fækkandi og frá þessu væri verið að hverfa þar, að það atriði yrði rannsakað vel og gengið alveg úr skugga um, hvort það væri fullkomlega rétt, því að ég hafði það á tilfinningunni, að það væri alveg þveröfugt, þar sem ég fór í því landi. Um önnur lönd skal ég ekki segja neitt, því að ég þekki það ekki, en mikið má vera, ef þessi aðferð er ekki víðar notuð en í Bandaríkjunum.

Efnislega skal ég svo ekki fara að ræða málið. Þar sem hv. fjvn. hefur tekið upp í sína till. það, sem í minni till. felst, sætti ég mig prýðilega við þá afgreiðslu málsins af hálfu okkar flm. till. á þskj. 74.