26.10.1955
Sameinað þing: 7. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 66 í D-deild Alþingistíðinda. (2228)

21. mál, heyverkunaraðferðir

Flm. (Jörundur Brynjólfsson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð, sem ég vildi segja. Ég vil þakka hæstv. viðskmrh. fyrir hans góðu undirtektir undir þetta mál. Hann lét í ljós, að af sinni hálfu vildi hann greiða fyrir því, og það er vel farið. Hann minntist frekar á þessar heyverkunaraðferðir, sem hafa tíðkazt hér hjá okkur.

Ég ætla, að það hafi verið gerð dálítil tilraun með blöndun á sýru í súrhey hér áður eftir finnsku aðferðinni, en menn munu hafa fljótlega hætt við það og það ekki heldur verið víða, sem það var gert, og það mun hafa aðallega verið sakir kostnaðar.

Það liggur ekki ljóst fyrir enn þá hjá okkur, því miður, hvernig það mundi gefast að fóðra búpeninginn eingöngu á votheyi. Það mun hafa átt sér stað í litlum stíl á mjög fáum stöðum á landinu, svo að það er tæpast hægt í því efni að tala um nokkra reynslu. Þó hefur það verið gert dálítið á nokkrum stöðum. Ég þekki einn bónda á Norðurlandi, sem hefur sagt mér, að hann hafi fóðrað fé sitt í ein þrjú ár eingöngu á votheyi og gefizt það vel. Það er fé, sem hann beitir. En það hagar þannig til hjá honum, að það tekur helzt aldrei fyrir jörð, svo að féð hefur alltaf beit með. Aðeins hefur hann þurft að gefa lömbum inni svo sem tveggja mánaða tíma án þess að beita þeim, og fóðrun á þeim með votheyi hefur honum ekki gefizt eins vel og með beitarféð. Hann sagði mér, að framför þeirra væri mjög lítil þann tíma, sem gefið er inni. Heilbrigði hefði verið í þeim, en framför ekki góð, nær engin.

Svona einstök dæmi segja náttúrlega ekki mikið. Votheysverkun hjá honum er eins og hún hefur víðast hvar tíðkazt, bara í gryfjum, ekki í háum turnum, eins og á stöku stað er nú orðið, en votheysverkunin eigi að síður góð. Og ég hygg, að þess konar votheysgerð geti heppnazt, ef gryfjurnar eru góðar og menn hafa fulla aðgæzlu, þegar heyið er látið í þær.

S. l. sumar upplýsir vafalaust, hvernig tekst til, þegar verður að láta heyið inn vott, því að nú varð ekki hjá því komizt. En um það getur maður ekki talað fyrr en það sýnir sig, hvernig það verkast nú, og reynsla er fengin á því.

Á meðan ekki er lengra komið með votheysgerðina og þekkingu á því, hvernig lánast að fóðra búpeninginn á tómu votheyi, getur maður ekki gert ráð fyrir, að sú heyverkunaraðferð verði höfð eingöngu, heldur aðeins með, en getur áreiðanlega hjálpað mönnum stórkostlega, í erfiðum sumrum ekki sízt, með hirðingu á heyinu. Það mikla reynslu höfum við orðið í því efni. Þess vegna verðum við að tala um heyþurrkun, og væri gott að geta haft hana, ef tök væru á, þó að erfiðlega viðri, þar til frekari reynsla er fengin fyrir votheysgerðinni og fóðrun búpenings á votheyi eingöngu og menn lengra komnir áleiðis með að byggja votheysgryfjur eða rúm fyrir votheyið.

Ég held viðvíkjandi athugunum á þessu máli, að það sé óhjákvæmilegt til að fá góða og örugga vitneskju, að einn eða tveir menn eða svo færu utan til þess að kynna sér málið ýtarlega. Það mundi verða þeim enn ljósara, hvernig ástatt er um það, heldur en þó að menn fengju skýrslur og greinargerðir með þeim. Þeir mundu þá bæði fá kunnugleika á þeim verksmiðjum, sem búa til þessi tæki, og einnig hafa tal af þeim mönnum, sem hafa eitthvað notað þau, því að þetta er það mikilvægt, að það er óhjákvæmilegt, að vandað sé til upplýsinga um málið sem allra bezt, og það vona ég að verði gert.