03.11.1955
Sameinað þing: 9. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 83 í D-deild Alþingistíðinda. (2270)

65. mál, fræðsla í þjóðfélags- og þjóðhagsfræðum

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Maður skyldi ætla, þegar maður les till. þá, sem hér er til umræðu, að Alþingi hefði ekki mikið að gera við þann tíma, sem því er ætlaður til þjóðlegra starfa. Hér er lagt til að skipa nefnd til þess að kanna það, hversu bezt verði komið við aukinni fræðslu fyrir almenning í þjóðfélags- og hagfræðimálum.

Mér skilst, að það sé augljóst, að henni verði bezt komið fyrir með því að kenna hana í öllum skólum landsins, taka upp skyldugrein í öllum skólum landsins um þetta atriði, og það þurfi þess vegna ekki að skipa neina nefnd til þess að kanna það atriði. Hversu lengi sem nefnd kann að starfa að þessu máli, þá er aldrei hægt að komast fram hjá þeim staðreyndum, að bezta fræðslan í þessu verður að taka upp skyldunámsgrein í öllum skólum landsins. Ég sé því ekki, að það sé nein ástæða til þess að samþykkja till. eins og hún liggur fyrir hér, ef það á að vera aðalefni till. að fá úr því skorið eða kanna það, hvernig fræðslunni verði bezt komið fyrir.

Hitt er svo allt annað atriði, hvort ekki sé rétt að leggja á það áherzlu í framtíðinni að kenna þau fræði, sem hér um ræðir. En það er allt önnur hlið á málinu, og ég get verið sammála hv. flm. um það, eins og tekið er fram í grg., að þjóðfélagið eignast því þroskaðri þegna, því betur sem það býr að fræðslu þeirra og þekkingu, sérstaklega í þeim efnum, sem hér um ræðir. En ef á að halda sér við kjarna þessa máls, þá er það sjálfsagðasta aðferðin að taka upp baráttu fyrir því, að slík kennsla fari fram strax í barnaskólunum og haldi svo áfram upp öll skólastigin, alla leið upp í háskólann, og til þess þarf að sjálfsögðu ekki að skipa neina nefnd.

Sú hugsun, sem liggur til grundvallar hér hjá hv. flm., að setja upp eitthvert námskeið við Háskóla Íslands, getur aldrei gefið þann árangur, sem ætlazt er til, vegna þess að það er vitað, að mikill meiri hluti kjósenda í landinu hefur engar ástæður til þess að sækja slík námskeið. Hygg ég, að það sé alger fjarstæða að hugsa sér að ná nokkrum árangri með því að fara þá leið til þess að fræða fólkið um þessi atriði.

Hv. frsm. gat þess, að hin ýmsu stjórnmálafélög hefðu komið upp hjá sér námskeiðum, sérstaklega fyrir flokkana, en þau væru rekin sem eins konar trúboðsskólar. Ég veit náttúrlega ekki, með hvaða heimild hv. frsm. fullyrðir slíkt. Það lítið sem ég þekki til þeirrar fræðslu, þá finnst mér hún hafa byggzt á allt öðrum grundvelli en trúboðskenningunni, hún hafi byggzt á því að kenna ungum mönnum að koma fram á opinberum fundum, læra að flytja mál sitt fyrir almenningi, fegra málsmeðferð eða auka sjálfstæði í málflutningi o. s. frv., en trúboðskenningin hafi verið alveg útilokuð þar. Ég þekki hins vegar ekki inn í herbúðir hans ágæta flokks um það, en það kann vel að vera, að þar sé tekin upp sérstök trúboðsstarfsemi á þessu sviði.

Ég get verið sammála hv. flm. um, að það væri æskilegt, að kjósendur landsins almennt væru vel að sér í þeim fræðum, sem hér um ræðir. En ég hygg, að sá árangur náist ekki sem bezt á þann hátt, sem þeir leggja til í þessari tillögu. Ég mun því ekki geta fylgt þessu máli, eins og það kemur fram í till., en væri því breytt hins vegar á þann hátt að skora á fræðslumálastjórnina að taka upp almenna fræðslu í þessum málum í öllum skólum landsins, þá horfir málið náttúrlega allt öðruvísi við. Ég mun hins vegar fylgja málinu til nefndar, því að að sjálfsögðu ber að láta málið fá athugun í nefnd, en ég vildi aðeins láta þessi orð fylgja hér, áður en það fer til nefndarinnar.