03.11.1955
Sameinað þing: 9. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 86 í D-deild Alþingistíðinda. (2272)

65. mál, fræðsla í þjóðfélags- og þjóðhagsfræðum

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ekki vil ég taka undir það með hv. þm. Barð., að þetta mál sé svo auvirðilegt, að það beri þess vott, að Alþ. hafi lítið með sinn starfstíma að gera. En rétt er það hjá honum, að vel mætti hugsa sér, að þetta mál væri leyst sem viðurkennt nauðsynjamál af fræðslumálastjórninni, menntamálaráðherra, með því að leggja svo fyrir, að kennsla í þjóðfélagsfræðum yrði gerð að námsgrein í t. d. efri bekkjum barnaskólanna og gagnfræða- og héraðsskólum. Það er að vísu svo, að það er gert ráð fyrir því, að kennsla í þjóðfélagsfræði fari fram í gagnfræða- og héraðsskólunum, en alls staðar er hún samt að telja má aukagrein, ætluð svona ein kennslustund á viku, í mesta lagi tvær, og þannig ekki lögð við þau fræði mikil rækt. En vitanlega mætti ætla þessum nauðsynlegu fræðum meiri tíma í skólunum, og það eitt hygg ég vera einna líklegustu leiðina til þess að auka þekkingu hinna væntanlegu kjósenda almennt í þjóðfélagsfræðum, gera þeim kunnug þau réttindi og þær skyldur, sem á hinum íslenzka þjóðfélagsþegni hvíla. Ég tek undir það með hv. þm. Barð., að ég teldi litlar líkur til þess, að almenn þekking hinna íslenzku kjósenda ykist að verulegu marki í þjóðfélagsfræðum, þó að námskeiði væri komið upp við Háskóla Íslands. Ég hygg, að hv. kjósendur þm. Barð. mundu verða litlu nær almennt um að fá aukna þekkingu í þjóðfélagsfræðum, þó að haldið yrði slíkt námskeið við háskólann, og þannig mætti náttúrlega segja um hvert kjördæmi á landinu, nema þá hið stóra kjördæmi Reykjavík.

Ég tek undir það með hv. flm., að það er dálítið skrýtið, og það hafa margir hneykslazt á því áður, að það skuli vera heimtað próf — réttilega — af manni, sem á að stjórna bíl, og manni, sem á að stjórna bátkopp, a. m. k. heimtað af þeim pungapróf, og manni, sem ætlar að sóla skó, en flutningsmaður hneykslaðist á því, að í ráðherrastólunum sætu menn, sem hefðu ekki fengið neitt próf í að vera ráðherrar. Ég hélt þess vegna, að það vekti kannske fyrir honum, að þetta námskeið háskólans ætti að enda með einhvers konar ráðherraprófi, en hann vék að því, að það væri samt ekki ætlunin, svo að framvegis verða sjálfsagt próflausir menn í ráðherrastólunum eftir sem áður, hvernig sem þetta mál verður leyst. En ef til vill mætti gera þeim að skyldu, að þeir hefðu tekið þátt í slíku háskólanámskeiði, þegar búið væri að koma þeirri kennslu á, og væru ekki gildir í ráðherraembætti ella.

Það er gott að heyra, að þetta mál á langa sögu og að ýmsir af elztu mönnum þingsins hafa áður flutt frv. til laga um að bæta úr þekkingarskorti þjóðarinnar í þjóðfélagsfræðum, og dregur það sízt úr gildi þess, að málinu sé hreyft nú aftur, úr því að það frv. náði ekki fram að ganga.

Hv. þm. A-Húnv. skýrði frá því hér áðan, að hann og hv. 5. landsk. hefðu lagt til, að gefið væri út hlutlaust tímarit til almennrar. hlutlausrar þjóðfélagsfræðslu. Það væri sjálfsagt gott, svo langt sem það nær. En það er nú þannig, að eins og með háskólanámskeið og þá staðreynd. að allir mundu ekki njóta þess, þá eru nú ekki nærri því allir kjósendur. sem lesa tímarit. Og það má búast við, að það yrði ekki nema lítill hluti af kjósendum í Austur-Húnavatnssýslu, sem læsi slíkt ágætt tímarit, þótt það væri gefið út, líklegast ekki nema þeir áhugasömustu og þeir, sem væru fyrir bezt fallnir til þess að fara af viti með atkvæði sitt. En hvað væri um annað? Væri það ekki ein leið að fara í útvarpið með þetta og reyna að stelast í eyrun á kjósendum með hlutlausa og góða fræðslu í þjóðfélagsfræðum? Það væri hlutverk fyrir ríkisútvarpið og ekkert nema gott um það að segja, ef hæstv. menntamálastjórn vildi hafa afskipti af því. Væri þá eðlilegast til þess að tryggja, að hið hlutlausa útvarp fræddi þarna hlutlaust, að löggilda einhvern fróðan hlutleysingja til þess að annast þessa kennslu, og það hygg ég að bæri kannske víðtækasta árangurinn, sem hægt væri að hafa af þessu.