03.11.1955
Sameinað þing: 9. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 91 í D-deild Alþingistíðinda. (2275)

65. mál, fræðsla í þjóðfélags- og þjóðhagsfræðum

Bergur Sigurbjörnsson:

Herra forseti. Í sambandi við það, sem hv. þm. Barð. sagði hér áðan, að það hefði komið í ljós núna síðustu árin, að fólk væri ekki svo mjög illa að sér um þjóðfélagsleg málefni, vegna þess að í kosningum hefði það sýnt sig, að það hefði flúið frá óheillastefnunum, eins og hann orðaði það, vil ég taka fram: Þetta er alveg rétt hjá hv. þm. Fólkið hefur síðustu áratugina flúið óheillastefnurnar í þessu þjóðfélagi. Rannsókn í þessum málum, sem gerð hefur verið nýlega og byggist á upplýsingum Hagstofu Íslands, sýnir nefnilega, að núverandi stjórnarflokkar, Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn, höfðu um 1930, í kosningunum 1931 líklega, rétt um 80% greiddra atkvæða, í kosningunum rétt eftir 1940, 10 árum síðar, höfðu þessir sömu flokkar aðeins 70% greiddra atkvæða, og í síðustu alþingiskosningum höfðu þessir sömu flokkar um 60% greiddra atkvæða, þannig að á þessu tímabili, frá 1930 til 1953, hefur fylgi óheillastefnanna í þjóðfélaginu, stefna núverandi stjórnarflokka, minnkað úr 80% greiddra atkvæða í alþingiskosningum niður í rétt um 60%. Það er því alveg rétt, sem hv. þm. Barð. tók fram um þetta atriði, aðeins furðulegt, að það skyldi vera hann, sem impraði á því. Þessum hv. þm. láðist aðeins að bæta því við, að hann vonaði, að þessi þróun héldi áfram, fólkið héldi áfram að flýja óheillastefnurnar, en fyrir hans hönd vil ég bæta því við.