14.03.1956
Sameinað þing: 46. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 93 í D-deild Alþingistíðinda. (2281)

65. mál, fræðsla í þjóðfélags- og þjóðhagsfræðum

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Ég held það sé misskilningur, sem hv. þm. Snæf. sagði, að nm. hafi tjáð sig fylgjandi þessari till. fyrir fram. Ég segi fyrir mig, að ég minnist þess ekki að hafa sagt það. Ég lofaði að taka þessa till. til velviljaðrar athugunar í nefndinni, en ég lýsti engu sérstöku fylgi við hana, og hvað sem hv. þm. kann að hafa rætt við einstaka nm., þá er það að sjálfsögðu ekki formleg afgreiðsla í nefnd. — Ég óska ekkert eftir því sérstaklega, að umr. sé frestað. Ég bara gerði það tilboð, ef hv. þm. vildi láta nefndina taka ákvörðun um þessa till., að þá væri umr, frestað. Ef hann óskar, að hún sé borin undir atkvæði án frekari athugunar, þá hef ég ekkert á móti því.