03.11.1955
Sameinað þing: 9. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 94 í D-deild Alþingistíðinda. (2289)

76. mál, súgþurrkun

Flm. (Jón Pálmason):

Herra forseti. Eins og hv. þingmenn hafa sjálfsagt veitt athygli, flyt ég ásamt 2. þm. Skagf. og þm. N-Ísf. þáltill. á þskj. 83 um það, að Alþ. feli ríkisstj. að athuga, með hverjum hætti hentugast er að færa niður kostnað af rafmagni til súgþurrkunar á heyi.

Þetta mál er þannig vaxið, eins og ætti að vera öllum hv. þm. nú mjög í minni, að hvenær sem það kemur fyrir, að sá voði steðjar að sveitunum um hásláttinn, að um langan tíma er ekki hægt að þurrka hey, þá er það alvarlegasta ástand, sem við sveitamennirnir getum komizt í. Sannleikurinn er sá, að það er út af fyrir sig ekki nema eðlilegt, þó að við fáum hríðar að vetrinum og þurfum að gefa inni okkar peningi svo og svo lengi. Það er alltaf viðráðanlegt og þolandi. En að eiga við það að búa, kannske um langan tíma þegar verst gegnir um sláttinn, að fá þannig tíðarfar, að það sé ekki neinn vegur að bjarga sinni aðaluppskeru, heyinu, er voðalegra en flest annað í okkar atvinnulífi. Og sannleikurinn er sá, að þó að mönnum kunni að finnast það undarlegt, þá er þetta miklu hættulegra nú orðið en áður var, meðan öll heyvinna var unnin með handverkfærum. Þá gekk heyskapurinn seint og menn voru að eðlilegum hætti að nudda við þetta allt sumarið. Undir þeim kringumstæðum var aldrei ákaflega mikið hey, sem lá undir í einu, og var þess vegna ekki eins fljótt að safnast fyrir og nú er. Þegar svo er komið, eins og er nú víðast á landinu, sem betur fer, að það er hægt að ljúka heyskapnum, ef vel heppnast, á tiltölulega stuttum tíma, af því að það er orðið allt ræktað land og hægt að rífa niður grasið með vélum, þá eru bændurnir bundnir við ákveðinn mjög stuttan tíma með að hirða sinn heyfeng. Ég get sagt ykkur það, að t. d. s. l. sumar var álitið, að það væri ekkert ákaflega örðugt hjá okkur Húnvetningum, af því að við vorum á mörkum þess versta og annars betra, en þó var heyskapartíðin ákaflega örðug, og hún var þannig, að framan af sumrinu drógu menn að slá; menn hættu við að slá og drógu heyskapinn, svo að hann varð á eftir tímanum, vegna þess að þeir þorðu ekki að rífa niður í rigningunum eða þá storminum.

Nú er það kunnugt, að um langan aldur hefur verið það varnarráð eitt gegn þessum voða að setja meira eða minna af heyfengnum í súrhey, eða vothey, sem maður kallar. Sú heyverkunaraðferð er á vissan hátt örugg, það sem hún nær. En það er kunnugt mál, að menn hafa mjög tregðazt við að taka upp þá heyverkunaraðferð í mjög stórum stíl, vegna þess að það er ekki hægt að nota eingöngu vothey til að fóðra skepnurnar og ekki nema að nokkrum hluta, og þar að auki er það fremur ógeðfellt að fóðra á því heyi og ýmsir vankantar við það. En nú á síðari árum hefur verið fundin upp önnur aðferð, sem er að vissu leyti miklu geðfelldari, og það er súgþurrkunin, og til þess að koma því áfram þarf mikinn útbúnað, vélakost og raforku og annan útbúnað, sem er mjög dýr. Ég minnist þess, að einhver fyrsti maður, sem mun hafa tekið þetta upp í stórum stíl, var stórbóndi hér á Suðurlandi, sem nú er nýlega látinn, Ari Páll Hannesson í Stóru-Sandvík. Hann kom til mín hér á árunum — ég held það hafi verið snemma árs 1950 — og var að segja mér frá því, hversu stórkostlegir annmarkar væru þó við þessa aðferð, og þeir lægju í því, að rafmagnskostnaðurinn væri svo ægilegur, vegna þess að rafmagnið frá raforkuveitunni, þar sem hún væri þá komin á, væri selt alveg sama verði og ljósarafmagn. Ræddi ég þetta þá nokkuð við raforkumálastjóra og minntist á, að ég teldi þetta mjög ósanngjarnt. Samkv. þeirri reglugerð, sem nú hefur verið gefin út frá rafveitum ríkisins, er þetta nú að því leyti breytt, að fastagjaldið er talsvert fært niður frá ljósarafmagni, en salan á raforkunni sjálfri er alveg sama og á ljósarafmagni.

Nú álitum við flm., að það sé svo þýðingarmikið að koma þessari súgþurrkunaraðferð sem almennast á í landinu, að það borgi sig miklu betur, að hið opinbera vald leggi, svo að verulega muni um, í kostnað víð þetta, annaðhvort óbeinlínis með því að fyrirskipa rafveitum ríkisins að selja raforkuna ódýrara, þar sem þær ná til, eða þá beinlínis á annan hátt, t. d. með styrk á olíumótora, sem þarf að kaupa, þar sem enginn aðgangur er að hinni sameiginlegu raforku, að við teljum, að það sé miklu skynsamlegra að taka upp og gera stórt átak á þessu sviði heldur en að eiga á hættu, að ríkið verði hvað eftir annað að kasta stórum fúlgum, eins og nú verður að gera og eins og gert var þegar verst stóð á Austurlandi og Norðausturlandi, til þess að bjarga frá hörmungum, þegar allt er komið í vandræði. Þess vegna höfum við flutt þessa till. og væntum þess, að hv. þingmenn taki henni vel, að þetta sé athugað og að þeirri athugun lokinni sé strax snúið að framkvæmdum í samráði við Búnaðarfélag Íslands.

Ég sé ekki ástæðu til þess, af því að þetta mál er það augljóst og skýrt nokkuð í grg. fyrir þessari till., að fjölyrða miklu meira um það á þessu stigi, ef ekki koma nein mótmæli fram, en vænti þess, að þessari till. verði vel tekið, og legg til, að henni verði að þessari umr. lokinni vísað til síðari umr. og hv. fjvn.