07.03.1956
Sameinað þing: 44. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 98 í D-deild Alþingistíðinda. (2298)

173. mál, Tungulækur í Landbroti

Flm. (Jón Kjartansson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja þáltill. á þskj. 430 og farið fram á, að athugaðir yrðu möguleikar þess að auka rennsli Tungulækjar í Landbroti.

Það kynni nú að hljóma harla einkennilega í eyrum sumra hv. þm., þegar talað er um að auka rennsli vatns í Skaftafellssýslu, því að ég hygg, að þar sé eitt mesta vatnasvæði á landinu. En orsakir liggja til alls. Við Tungulæk var fyrir fáum árum reist sameiginleg rafstöð, sem sjö býli í Landbroti fá nú rafmagn frá. Hin síðari ár hefur það komið fyrir mjög oft, að vatn hefur þorrið í Tungulæk og rafmagnsstöðin þar af leiðandi ekki fengið nægilegt vatn og býlin orðið rafmagnslaus.

Kunnugir telja, að rennsli Tungulækjar hafi farið þverrandi hin síðari ár, eftir að rafstöðin var byggð. Ekki hefur verið framkvæmd nein rannsókn á því, hvað valda muni þessari breytingu, en upptök Tungulækjar eru við austurrönd Eldhrauns. Það vatn, sem þar kemur undan rönd Eldhraunsins, hefur síazt í gegnum hraunið. Við það, að hraunið hefur fyllzt smám saman upp, minnkar vatnið, sem síast þar í gegn. Ég hygg, að þetta sé höfuðorsök þess, að rennsli í Tungulæk fari þverrandi. Og haldi þessu áfram, þá er augljóst mál, að stöðin í Tungulæk getur brugðizt algerlega, því að búast má við, að vatnið fari enn þverrandi.

En verður unnt að ráða hér bót á? Ef til vill er möguleiki á því að koma kvísl úr Skaftá yfir í Tungulæk, en um það verður ekkert sagt, nema mælingar og rannsókn fari þarna fram. Ef þetta reynist ekki kleift, þá er hugsanlegur möguleiki, að það sé hægt að sameina aðra læki í Landbroti og auka þannig vatn Tungulækjar án þess að skaða aðra bæi í sveitinni. En allt þetta verður að athugast, og verður ekkert um það sagt, fyrr en sú athugun hefur farið fram.

Í síðari málsgr. till. minnar hef ég farið fram á, að einnig verði athugaðar breytingar á öðrum vötnum, sem koma undan Eldhrauni, en þessar breytingar geta haft margvíslegar verkanir og afleiðingar. Við sum þessara vatna er einkarafstöð, og það getur farið á sama veg og við Tungulæk, þó að það séu færri býli, sem þar eiga hlut að máli, er missa mundu sitt rafmagn. Á öðrum stöðum er vatnið smám saman að komast upp á yfirborðið í Eldhrauni, og það getur spillt samgöngum, og einnig spillir það veiði í Eldvatni í Meðallandi, því að jökulvatnið kemst þá óhindrað fram, í stað þess að áður fór það gegnum hraunið, og þá kom það sem hreint bergvatn niður í Eldvatnið.

Allt þetta þarf að athuga, og ég tel eðlilegast, að vatnamælingadeild raforkumálaskrifstofunnar verði falin athugun á þessu máli. Hún vinnur nú og hefur um nokkur ár unnið að mælingum á vatnakerfi Skaftár. Ég treysti því, að hv. alþm. fallist á, að þessi athugun fari fram á þessum vötnum, sem koma undan hrauninu, og leyfi mér að leggja til, að till. verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. fjvn.