14.03.1956
Sameinað þing: 46. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 100 í D-deild Alþingistíðinda. (2307)

183. mál, hafnarbætur við Dyrhólaós

Flm. (Jón Kjartansson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja þáltill. á þskj. 470 um rannsókn hafnarbóta við Dyrhólaós.

Þetta er ekki nýtt mál hér á hv. Alþ. Það hefur borið hér á góma fyrr, og rannsókn að nokkru leyti hefur farið fram á skilyrðum til hafnarbóta á þessum stað, og mun vita- og hafnamálastjóri hafa talsvert af gögnum í fórum sínum þessu máli viðvíkjandi. En tilefni þess, að ég flyt þessa þáltill., er, að á s. l. sumri bað ég Gísla Sigurbjörnsson forstjóra hér í Reykjavík að skreppa austur í Mýrdal með þýzka verkfræðinga, sem þá voru staddir hér á landi, og óskaði þess, að þessir verkfræðingar litu á aðstæðurnar við Dyrhólaós. Verkfræðingarnir komu austur og litu á staðhætti þarna, að vísu mjög lauslega, því að þeir höfðu ekki neina viðdvöl og ekki nein tæki til rannsókna meðferðis. En eins og fram kemur í bréfi Gísla Sigurbjörnssonar til mín, sem prentað er sem fskj. með þessari þáltill., hafa hinir þýzku verkfræðingar talið sjálfsagt, að þetta hafnarmál yrði rannsakað nánar. Þar sem þessir verkfræðingar munu dveljast á Akranesi næsta sumar, hafa tekið að sér mikið hafnarmannvirki þar, þá er hægurinn hjá að fá úr því skorið, hvort þeir finna einhver úrræði til að ráða þarna bót á við Dyrhólaós. Ég tel því sjálfsagt, að þetta mál verði athugað nánar, og það er svo þýðingarmikið fyrir héruðin eystra, að ég tel vart áhorfsmál, þó að einhverju lítils háttar fé sé í það varið, að ganga úr skugga um, hvort hér sé hægt að ráða nokkra bót á. Ég fullyrði ekkert um það, hvort þetta er hægt, en till. fjallar um, að þetta verði athugað. — Ég leyfi mér að leggja til, að till. verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. fjvn.