19.10.1955
Sameinað þing: 5. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 103 í D-deild Alþingistíðinda. (2316)

39. mál, eyðing refa og minka

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Áður en málið fer til n., langar mig til að vekja athygli á einstökum atriðum þessu máli viðvíkjandi.

Ég vil fyrst benda á það, að síðan lögin um eyðingu refa og minka voru sett, ekki þau sem nú gilda, heldur þau, sem breytt var á síðasta þingi, hefur mér vitanlega ekki nema ein hreppsnefnd í landinu reynt að fylgja lögunum hvað minkana snertir. Það hefur ekki mér vitanlega nema í einum hreppi verið reynt að skipuleggja útrýmingu minkanna eða eyðingu þeirra á sama hátt og gert er með refina um allt land eða á einhvern annan hátt með heppilegri hætti. Hverjum á að kenna um þetta, veit ég ekki. Ein af lagabreytingunum, sem gerðar voru í fyrra, ætlaðist til þess, að það kæmu um þetta nákvæmar skýrslur, svo að það væri hægt að sjá svart á hvítu, hvernig þetta gengi í framkvæmd. Enn liggur ekkert fyrir um það, hvernig lagabreyt. kann að hafa verkað. Ég hygg, að það sé þó komin skýrsla frá einni hreppsnefnd um, hvað hún hafi gert um eyðingu refa og minka á s. l. ári, en ekki nema þá einni af öllum hreppum landsins, og er þó nokkuð langt síðan bæði refavinnsla þessa árs og minkavinnsla um gottímann ætti að vera um garð gengin.

Í öðru lagi vil ég benda á það, að önnur breyting, sem gerð var á síðasta þingi, var sú, að hækkuð voru verðlaun á unnin hlaupadýr, bæði minka og refi. Hvernig það hefur verkað eða kemur til með að verka, getum við ekkert sagt um núna. Nefnd, sem skipuð væri til þess að rannsaka það, getur ekki gert sér neina hugmynd um, hvernig það hefur verkað, því að hún hefur engar upplýsingar um það. Það er ekki liðið ár af þeim tíma, sem menn vegna hækkaðra verðlauna kynnu að vilja vinna refi og minka frekar en áður. Það er ekki einu sinni orðið svo langt, að menn hafi getað lagt sig eftir því, því að lögin voru samþykkt svo seint á síðasta þingi, að þau hækkuðu verðlaun, sem lögð voru til höfuðs hlaupatófum, náðu ekki til þess tíma ársins, er menn veiða helzt hlaupatófur.

Þess vegna tel ég mjög hæpið, hvort það er rétt á þessu stigi að fara að leggja vinnu í að endurskoða þetta allt, meðan það er svona að nokkru leyti í lausu lofti með, hvaða verkanir síðustu lagabreytingarnar hafa á framkvæmd málsins.

Enn fremur vil ég benda á það, að til þessa hefur verið neitað um innflutning á hundum af ríkisstj. til þess að reyna þá við eyðingu minka, alveg nýlega á tveimur. Það væri þá kannske, að n. ætti að athuga í því sambandi nánar einmitt það, hvort ætti að fara inn á nýjar leiðir hvað þetta snertir. En það lítur út fyrir, að fram að lagabreytingunni seinustu hafi málið legið þannig í meðvitund hreppsnefndanna, að þær hafi talið, að það væri eingöngu ríkisins að eiga við minkana, ekki þekkt ákvæðin í lögunum um, að hreppsnefndirnar ættu þar nokkuð að gera, og bara kallað á Carlson og hans hunda, en ekki borið við að gera neitt sjálfar.

Ég er ekki að hafa á móti því að setja nefnd í þetta, en ég held, að það komi ósköp lítið út úr henni, eins og núna standa sakir, af þeirri ástæðu, að það vantar reynslu um, hvernig þær breytingar verka, sem við gerðum í fyrra. Það getur vei verið, að þm. hafi það vitkazt í þessum málum frá því í fyrra að þeir sjái núna miklu betur, hvernig á að setja lög um það en þá. Sömu eru nú allir þingmennirnir, í augnablikinu kannske einn, sem var ekki í fyrra, en situr sem varamaður, en annars eru það sömu þingmennirnir, og ekki miklar líkur til, að þeir komist að mikið öðruvísi niðurstöðu en þeir komust í fyrra, þó að þær kunni að vera einhverjar.

Ég skal sem sé láta afskiptalaust, hvort milliþn. er skipuð eða ekki í þetta mál. En ég held, að hún þurfi helzt að fá betri gögn í hendur en hægt er að fá viðvíkjandi því, hvernig þær breytingar verka, sem gerðar voru í fyrra, en þær voru tvær, töluvert mikils verðar í raun og veru, og reyndar þó fleiri, því að það var ein breytingin, sem gerð var í fyrra, að lögð var sú skylda á sýslunefndirnar að sjá um eyðingu refa og minka á óbyggðum svæðum, en þá var komið svo, í fyrra, að t. d. Sléttuhreppurinn var uppeldisstöð fyrir þessi rándýr, sem enginn maður skipti sér af, enginn maður taldi sig hafa skyldu til að skipta sér af, en nú hefur sýslunefndin það. Sömuleiðis höfðu kaupstaðirnir ekki þær skyldur eftir eldri lögunum, en fengu þær í fyrra, og það var vitanlegt, að t. d. bæði Ólafsfjörður og Siglufjörður voru uppeldisstöðvar fyrir þessi dýr líka, af því að þar var ekkert gert. Í umdæmi kaupstaðanna, sem þar áttu hlut að máli, var uppeldi sérstaklega á tófum, sem breiddust svo út um hreppana í kring, svo að í Hofshreppnum í Skagafirðinum höfðu tófurnar margfaldazt, bæði að grenjatölu til og að tölu dýra, sem unnust, og á öllum fjallgarðinum, sem liggur á milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar og Hofshreppsins. Þarna var líka gerð ein breyting á lögunum, sem að vísu verkar ekki nema á takmörkuðum svæðum á landinu, en þó kemur til með að verka þar mjög greinilega, ef viðkomandi kaupstaðir framfylgja lögunum.

Allt þetta veldur því þess vegna að mínum dómi, að það er ósýnt, hvernig lögin frá síðasta þingi koma til með að verka, og a. m. k. vildi ég, ef ég ætti að fara í slíka nefnd, vita eitthvað um það, áður en ég treysti mér til að gera till. betri en þær, sem reynt var að gera í fyrra, eftir því sem bezt var unnt.