14.03.1956
Sameinað þing: 46. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 107 í D-deild Alþingistíðinda. (2322)

39. mál, eyðing refa og minka

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Sú þáltill., sem hér liggur fyrir til umr. á þskj. 44, var, eins og þingskjalsnúmerið ber með sér, flutt snemma á þessu þingi. Hún fjallar um það, að ríkisstj. verði falið að láta í samráði við Búnaðarfélag Íslands fara fram athugun á möguleikum til eyðingar refa og minka og þá sérstaklega, hvort ekki sé tiltækilegt að taka upp nýjar aðferðir til útrýmingar þeim. Má segja, að þessi till. sé nokkuð almennt orðuð.

Í grg. till. á sama þskj. er hins vegar gerð grein fyrir því, að flm. vilji benda á nokkrar leiðir, sem nefndar hafi verið til þess að geta borið árangur í því starfi að útrýma þessum dýrum. Þar er bent á t. d. þá leið að hækka verðlaun fyrir að vinna hlaupadýr og minka frá því, sem þau eru nú ákveðin í lögum, og að nota sérstakar tegundir veiðihunda og einnig þann möguleika að koma af stað sýkingu meðal þessara dýra innbyrðis, en það er leið, sem farin hefur verið erlendis með allmiklum árangri, eftir því sem sá maður hefur tjáð mér, sem einna mest hefur fengizt við það undanfarið að útrýma minkum.

Nú er það svo, að hér er um stórmál að ræða. Það er mikil hætta, sem nú vofir yfir ýmsum landshlutum í sambandi við það, að minkastofninn er að útbreiðast um landið. Þessi hætta vofir nú yfir ýmsum landshlutum, þar sem minkar hafa ekki áður verið, og í sumum þessum landshlutum a. m. k. stendur svo á, að koma þessara villidýra þangað mundi verða til mjög mikils tjóns. Það á t. d. við um þau héruð, þar sem æðarvörp eru. Þar er enginn vafi á því, að minkurinn mundi vinna mikið og tilfinnanlegt tjón, ef hann kæmist þangað, en hingað til hefur ekki verið mikið um hann í þeim landshlutum, þar sem æðarvörpin eru aðallega.

Ég geri ráð fyrir, að hv. alþm. hafi lesið í blöðum greinar, sem hafa verið að birtast öðru hverju í vetur frá mönnum, sem mikinn kunnugleika hafa á þessum málum, sérstaklega á refaveiðum. Í þeim greinum er gerð grein fyrir mismunandi aðferðum við refaeyðinguna, en þær gefa jafnframt hugmynd um það, hvílíkur áhugi er á þessu máli víða um landið og að menn vonast eftir því, að Alþ. og ríkisstj. takist að finna eða efla þau ráð, sem dugi í þessu efni.

Nú hefur okkur sýnzt það, flutningsmönnum þessarar till., að það væri rétt að óska eftir því, að samþykkt Alþ. um þetta efni yrði nokkuð með öðrum hætti og ýtarlegri en sú till., sem fram var borin í öndverðu á þskj. 44. Þess vegna höfum við nú nýlega leyft okkur að bera fram brtt. á þskj. 449 um, að till. verði töluvert ýtarlegri en hún var í öndverðu. Í þessari brtt. okkar er gert ráð fyrir því, að ríkisstj. verði falið í samráði við búnaðar- og bændasamtökin í landinu að skipa þriggja manna n. til þess að gera tillögur um skipulagðar og samræmdar aðgerðir um land allt í því skyni að vinna að útrýmingu refa og minka með þeim aðferðum og á þann hátt, sem n. telur vænlegast til árangurs á sem skemmstum tíma. Brtt. gerir ráð fyrir, að þessi n. hafi samband við sýslunefndir og kynni sér álit þeirra manna, sem mest hafa unnið að eyðingu dýranna hér á landi, og afli sér upplýsinga um útrýmingaraðferðir erlendis.

Við höfum komizt að þeirri niðurstöðu, að það sé eiginlega óhjákvæmilegt að skipa sérstaka n. í þetta mál, og í samræmi við það höfum við nú lagt það til. Hins vegar gerðist það áður en við lögðum fram þessa till., að hv. allshn. hafði afgreitt hina upphaflegu till. á þann hátt, sem hv. frsm. n. gerði grein fyrir og fyrir liggur í nál. á þskj. 412. Þegar n. tók ákvörðun um þá afgreiðslu, lá, eins og hann sagði, brtt. okkar ekki fyrir. Nú eru það tilmæli okkar flm. til hv. n., að hún taki málið til athugunar á ný og þá í tilefni af þessari brtt. og fjalli þá um hana eins og hún liggur fyrir á þskj. 449.

Á ræðu hv. frsm. skildist mér, að hann teldi fullt tilefni til þess, ef þess væri óskað, að n. tæki málið þannig fyrir, og vil ég þakka honum fyrir þær undirtektir undir brtt. Það eru, eins og ég sagði, tilmæli okkar, að n. taki málið aftur fyrir, og jafnframt vildi ég þá mælast til þess við hæstv. forseta, að hann frestaði málinu nú og tæki það út af dagskrá að þessu sinni, til þess að n. gefist ráðrúm til þess að taka það fyrir á ný.